Óraunhæfa ævintýrið

Greinar

Í ævintýrinu, sem ekki gerðist, fór dagblaðið Tíminn að skrifa um Sambandið á svipuðum tíma og Helgarpósturinn hóf skrifin um Hafskip. Skrif blaðsins snerust um meinta óráðsíu og rugl í rekstri fyrirtækisins og um óeðlilegan forgang þess í Landsbankanum.

Þjóðareigendafélagið í ýmsum stjórnmálaflokkum tók málið upp á sína arma. Málið snerist fljótlega upp í árásir á Kristin Finnbogason, sem hafði verið formaður bankaráðs Landsbankans um skeið og var ýmsum til ama. Málareksturinn tók mörg ár í ævintýrinu.

Af fréttum Tímans og annarra fjölmiðla mátti ráða, að Sambandið hefði brotið lög með kaffibaunabókhaldi, sem virtist miða að því að hlunnfara þjóðarheildina og rétta hag ráðamanna fyrirtækisins örlítið í leiðinni. Slíkt hefði auðvitað aldrei getað gerzt í raun og veru.

Af fréttunum mátti líka ráða, að bankaráðsmenn og bankastjórar Landsbankans væru löngum stundum í eins konar Sambandsvímu. Til dæmis lánuðu þeir því stórar fjárhæðir án nokkurra veða, þótt ekki fengju lán margir þeir, sem gátu boðið fullnægjandi veð.

Í fréttum ævintýrisins var ennfremur haldið fram fullum fetum, að Landsbankinn hefði keypt á nafnverði af Sambandinu gífurlegt magn af verðlausum Nígeríuvíxlum, sem greiddir höfðu verið fyrir skreið og allir vissu, að mundu aldrei verða að krónu í peningum.

Af því að þetta gerðist í ævintýralandi, voru ráðamenn Sambandsins settir í gæzluvarðhald í nokkra mánuði. Helmingur bókhaldsfræðinga þjóðarinnar hófst handa við að kafa ofan í fyrirtækið. Þeim var sagt að láta sér ekki nægja að skoða kaffibaunamálið.

Ekki er rúm hér til að rekja niðurstöðu bókhaldsrannsóknarinnar, en vísað til sjötugasta kafla ævintýrisins, sem ekki gerðist. Ekki er heldur rúm til að rekja hér niðurstöðu úttektarinnar á Landsbankanum, sem var afar ítarleg, svo sem lýst var í hundraðasta kaflanum.

Sérlegur saksóknari ákvað, að rétt væri að kæra bankann ekki aðeins fyrir viðskipti hans við Sambandið, heldur öll viðskipti, þar sem bankinn hafði lánað gegn ófullkomnari tryggingum en þeim, sem boðnar voru á sama tíma af hálfu annarra, er ekki fengu lán.

Röksemdafærsla saksóknarans í ævintýrinu var sú, að ráðamenn bankans í stjórn hans og ráði hefðu með þessu misræmi ekki gætt hagsmuna bankans sem skyldi. Þeim hefði verið skylt að fara í hvívetna eftir almennum bankareglum og bannað að kjassa gæludýr.

Þegar hér var komið sögu í ævintýrinu, hafði hið opinbera stöðvað rekstur Sambandsins. Eignir þess fóru fyrir lítið, eins og algengt er við slíkar aðstæður, og var kaupandinn Samvinnufélagið Hótel Örk. Fyrir bragðið náði Landsbanki ævintýrisins litlu af lánsfé sínu.

Þar sem ríkið átti Landsbankann og var í ábyrgð fyrir rekstri hans, var hann tekinn undir verndarvæng ríkissjóðs. Bankinn hóf þegar að auglýsa, hversu tryggt væri að nota bankann, því að ríkissjóður ábyrgðist allt. Þetta gafst bankanum vel og vildi Hafskip kaupa hann.

Ekki er rúm til að rekja síðari hluta ævintýrisins, sem fjallar að mestu um málarekstur hins opinbera gegn bankastjórum og bankaráði. Eftir það fékkst enginn stjórnmálamaður til að taka að sér bitling fyrir óeigingjörn störf. En Tíminn fór á haus eins og Helgarpóstur.

Hið fagra í ævintýrinu var, að Kristinn Finnbogason var aðlaður sem greifinn af London. Var hann svo löngum með Parísargreifanum á siglingum um Ermarsund.

Jónas Kristjánsson

DV