Orð skulu standa

Greinar

Þótt margt hafi gott frá Evrópusambandinu komið og sumt frábært, einkum á sviði mannréttinda, er ekki skynsamlegt að setja allan Evrópupakkann í eins konar þýðingarvél og framleiða þar íslenzk lög og reglugerðir á færibandi án þess að hleypa að heilbrigðri skynsemi.

Dæmi um þetta eru ákvæði nýrra fjarskiptalaga um tilkynningaskyldu vegna hljóðritunar símtala. Áður en svona langsótt skylda verður að lögum, er rétt að kanna, hvort rétt sé þýtt upp úr evrópsku, hvort evrópskan sé rétt túlkuð og hver sé tilgangur ákvæðanna.

Þótt þýðingafæribandið sé ódýrt og þægilegt, þarf að hleypa að heilbrigðri dómgreind. Íslenzkur lagaprófessor hefur bent á, að það séu mannréttindi að fá að hljóðrita eigin samtöl. Hann spyr, hvers vegna þurfi að skipuleggja símtöl fólks að hætti fjarskiptalaganna.

Nýju lögin banna ekki hljóðritanir símtala, en binda þær tilkynningaskyldu, sem flækir málið og fælir fólk og fyrirtæki frá hljóðritun. Fólk þarf til dæmis að geta sett hljóðritun formálalaust af stað, þegar það heyrir dónaskap eða hótanir í síma eða býst við slíku.

Hljóðritanir símtala eru mikilvæg öryggistæki borgaranna. Þau skipta máli fyrir þá, sem sæta ofsóknum í síma, til dæmis umdeilda stjórnmálamenn. Þær eru svo sjálfsögð vörn gegn dólgum, að alls ekki á að takmarka notkun þeirra að hætti nýju fjarskiptalaganna.

Ýmsar tegundir stofnana nota hljóðritanir kerfisbundið, ýmis vegna öryggis eða nákvæmni. Samskipti lögreglu og samskipti í flugi þarf að hljóðrita af öryggisástæðum. Samskipti fjármálastofnana og samskipti fjölmiðla þarf að hljóðrita af nákvæmnisástæðum.

Hraði nútímans krefst þess, að unnt sé að taka fjárhagslegar ákvarðanir í símtölum milli fjármálastofnunar og viðskiptavina þeirra, svo að hægt sé að vísa í símtalið, ef ágreiningur kemur upp. Þetta er jafnt í þágu fjármálastofnana og viðskiptavina þeirra almennt.

Fjölmiðlar tryggja nákvæmni upplýsinga sinna með hljóðritun samtala við heimildarmenn. Hljóðritun er blaðamönnum eðlilegt vinnutæki til að tryggja, að þeir fari rétt með það, sem þeim er sagt. Þetta er í senn í þágu fjölmiðlanna og allra þeirra, sem tjá sig við þá.

Eftir gildistöku nýju fjarskiptalaganna þurfa allir þessir aðilar að gera ráðstafanir til að varðveita eðlilega notkun hljóðritunar. Það er til dæmis hægt að gera með því að spila sjálfvirka aðvörun á símsvara, áður en fólk nær sambandi við skiptiborð þessara stofnana.

Allar slíkar leiðir fela í sér tímasóun, sem hefur þann eina tilgang að fara í kringum vitlaus lög. Einfaldara væri að endurskoða lögin. Samgönguráðuneytið þarf að endurlesa evrópska textann og kanna, hvort hljóðritunarhöft séu í rauninni leið til mannréttinda.

Nútíminn er flókinn. Hann krefst hraða, öryggis og nákvæmni í samskiptum manna. Hann hefur tekið tveimur höndum stafrænni miðlun upplýsinga. Hljóðritun símtala er nauðsynleg aðferð til að koma töluðu máli í svipaðan farveg hraða, öryggis og nákvæmni.

Hljóðritanir stuðla að framgangi hins forna spakmælis, að orð skuli standa. Þær slípa gangverkið í þjóðfélaginu og auka traust í samskiptum, sjálft stoðkerfi lýðræðisins. Leiða má sterk rök að því, að lýðræði og mannréttindi hafi einmitt eflzt við tilkomu hljóðritana.

Samgönguráðuneytinu og Alþingi ber að finna leið úr ógöngunum, svo að leiða megi hljóðritanir að nýju til þess virðingarsætis, sem þeim ber í nútíma samfélagi.

Jónas Kristjánsson

DV