Orð standa ekki

Punktar

Fyrir fáum áratugum var sagt, að orð skuli standa. Þá handsöluðu menn samninga, án þess að nokkur teldi slíkt hættulegt. Síðar fóru menn að gæta sín betur og gerðu skriflega samninga upp á nokkrar síður. Með stigmögnun siðleysis á Vesturlöndum fóru menn að gera samninga upp á nokkra tugi síðna í Evrópu og nokkur hundruð síðna í Bandaríkjunum, þar sem græðgin magnaðist fyrst. Síðufjöldinn var til að koma í veg fyrir, að lögmenn mótaðilans sneru út úr samningnum. Nú er svo komið hér á landi, að orð standa hvergi, allt frá ráðuneytum yfir í fjármálastofnanir. Nýi auðurinn og nýju völdin eru spilltari en þau gömlu. Alls staðar eru menn með sjálfsvirðingu gamla tímans að víkja fyrir nútíma siðleysingjum, sem telja sér og yfirboðurum sínum til tekna, ef þeir geta með munnlegum loforðum blekkt þá, sem þeir skipta við.