Orðstír Framsóknar í veði

Greinar

Enn eru til náttúruvænir framsóknarmenn, sem gera meira en að þvo hendur sínar af skítverkum utanríkisráðherra, orkuráðherra og umhverfisráðherra. Verjendur orðstírs flokksins hafa fundað með sér og einn þeirra kært ríkisstjórnina fyrir Eftirlitsstofnun EFTA.

Tilraunir þremenningana til að sökkva Eyjabökkum í þágu álbræðslu á Reyðarfirði hvíla á hæpnum forsendum, sem stríða gegn skuldbindingum okkar á fjölþjóðlegum vettvangi um leyfileg mengunarmörk hér á landi og um verndun skilgreindra náttúruvinja.

Í peningadæminu er til dæmis ekki gert ráð fyrir kostnaði við að borga fyrir rétt til mengunar í samræmi við fjölþjóðlegar ákvarðanir í Ríó og Kyoto. Raunar er gert ráð fyrir, að Norsk Hydro og íslenzkir meðeigendur þess fái rafmagnið undir kostnaðarverði.

Orkusamningar Landsvirkjunar við álver hafa í seinni tíð orðið slík feimnismál, að peningaupphæðirnar eru leyndarmál. Þegar hefur verið samið um, að orkan til álversins á Reyðarfirði verði “samkeppnishæf”, sem þýðir, að hún eigi að vera ódýrari en annars staðar.

Fyrirhugað álver á Reyðarfirði er tímaskekkja, sem byggist á, að Norsk Hydro fær ekki lengur að byggja slíkar verksmiðjur heima fyrir og verður að leita til þriðja heimsins, þar á meðal til Austfjarða. Á Vesturlöndum er almennt verið að rífa álver og engin verið að reisa.

Álverið í Hvalfirði er gamalt álver frá Þýzkalandi, sem fyrri eigendur neyddust til að rífa. Svissarar hafa losað sig við öll álver heima fyrir, en græða á millifærslum vegna álvera sinna í þriðja heiminum. Það sama ætlar Norsk Hydro að gera við íslenzka samstarfsaðila.

Þótt Norsk Hydro sé ekki meirihlutaaðili á Reyðarfirði, útvegar það bauxítið, sem er hráefni verksmiðjunnar, og selur álið, sem hún framleiðir. Norska fyrirtækið er á báðum endum ferilsins og hefur í hendi sér hver verður afkoma íslenzku meðeigendanna.

Samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti þjóðarinnar andvígur Eyjabakkalóni og allur þorri þjóðarinnar fylgjandi nýju umhverfismati. Það náttúrutjón, sem þessi meirihluti þarf að sæta, ætti að skipta milljörðum króna í reikningsdæmi orkuverðsins.

Álver á Reyðarfirði er ekki efnahagslegur ávinningur fyrir Ísland, heldur staðbundið byggðastefnumál. Þar er verið að tefla tilfinningaríkum sjónarmiðum austfirzkrar byggðastefnu gegn köldum efnahagslegum sjónarmiðum þjóðarinnar og sjónarmiðum náttúruverndar.

Stóriðja er dýrasta aðferð, sem hugsast getur til að varðveita byggð. Engin atvinnugrein gefur eins lítið af sér í atvinnutækifærum á hverja einingu í fjárfestingu. Með álveri er verið að skjóta gæs með fílabyssu, svo illa hentar stóriðja hlutverki sínu á Reyðarfirði.

Framsóknarflokkurinn hefur axlað ábyrgðina á þessari glæfralegu ögrun við hagsmuni og skoðanir þjóðarheildarinnar. Þrír ráðherrar flokksins hafa haft sig í frammi í máli þessu og seldi ein þeirra raunar fyrri skoðun sína á málinu fyrir ráðherraembættið.

Því er ánægjulegt að Ólafur Örn Haraldsson alþingismaður og ýmsir aðrir virkir flokksmenn hafa ekki látið valta yfir sig, þrátt fyrir útilokunartilraunir formannsins, og eru með auknum krafti að berjast fyrir því, að Framsóknarflokkurinn haldi reisn sinni.

Ekkert getur mildað almenna fordæmingu þjóðarinnar á flokknum annað en, að forusta hans verði knúin til að láta af einstrengingi sínum á Eyjabökkum.

Jónas Kristjánsson

DV