Örkin heitir Þjóðvaki

Greinar

Nýi stjórnmálaflokkurinn hennar Jóhönnu Sigurðardóttur tekur fylgi frá öllum hinum flokkunum, ekki aðeins vinstri flokkunum, heldur einnig Sjálfstæðisflokknum. Það þýðir, að skýringa á miklu fylgi er ekki bara að leita í stöðu nýja flokksins í pólitísku litrófi.

Flokkur Jóhönnu var búinn að fá mikið fylgi, áður en vitað var um förunauta og stefnuskrá. Fylgi náðist út á það almenna, sem fólk telur Jóhönnu sjálfa standa fyrir, þar á meðal langvinna innri stjórnarandstöðu hennar í ríkisstjórninni. Fólk treystir henni einfaldlega.

Stjórnmál snúast um menn og málefni og í þessari röð. Þeir eru tiltölulega fáir og þeim fer fækkandi, sem taka pólitíska afstöðu eftir skilgreinanlegum málefnum. Hinir eru fleiri og fer fjölgandi, sem taka afstöðu eftir því, hvort þeir treysta frambjóðendum eða ekki.

Þetta stafar meðal annars af, að margir kjósendur eru hættir að trúa á málefni stjórnmálaflokkanna. Þeir hafa orðið svo oft fyrir vonbrigðum, að þeir eru hættir að trúa loforðum flokkanna. Þegar flokkarnir svíkja málefni sín, verða þau meira eða minna marklaus að mati kjósenda.

Fólk hefur smám saman verið að átta sig á, að stjórnmálaflokkarnir eru fyrst og fremst hagsmunabandalög stjórnmálamanna, sem reyna að ná völdum, ekki til framdráttar málefnum, heldur til að geta svamlað um í spillingunni, er þeir hafa framleitt kringum sig.

Jóhanna vildi til dæmis ekki taka þátt í fínimannsleik ráðherra. Hún hafði ekki einkabílstjóra og tók ekki þátt í tekjuöflunarleiðum í ferðahvetjandi launakerfi fyrir ráðherra. Fólk tók vel eftir þessu og treystir henni þess vegna, burtséð frá staðsetningu hennar í pólitík.

Velgengni Þjóðvakans minnir á Reykjavíkurlistann, sem varð strax meirihlutaflokkur í könnunum út á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eina saman, áður en búið var að velja annað fólk á listann og semja stefnuskrá fyrir hann. Fólk treysti einfaldlega Ingibjörgu Sólrúnu.

Kvennalistinn hefur neitað að læra af þessu. Hann einblínir á stefnu og skiptir út stjórnmálakonum sínum. Það þýðir, að hann fær hugmyndafræðilegt fylgi upp á aðeins þrjá eða fjóra þingmenn, en missir persónufylgið til Þjóðvakans. Það er gamla sagan um menn og málefni.

Þjóðvakinn er rétt að fara af stað og hefur ýmsa möguleika á að misstíga sig. Það verður ekki stefnuskrá, sem verður nýja flokknum fjötur um fót. Það verða miklu frekar andlitin, sem flokkurinn sýnir í vonarsætum framboðslistanna, sem geta fælt kjósendur á brott.

Ef til vill verða þar sumir fallkandídatar úr gömlu stjórnmálaflokkunum og margir kunnuglegir félagsmálaberserkir úr stéttarfélögum. Ef til vill verða þar þekktir tækifærissinnar, sem finna lyktina af þingsæti. Allt getur þetta dregið fylgi frá flokknum í vetur.

Fólk treystir ekki fallkandídötum gömlu flokkanna, félagsmálaberserkjum stéttarfélaganna og tækifærissinnum allra flokka. Ef Þjóðvakanum tekst hins vegar að raða upp fólki, sem ekki ber myllustein fortíðar um háls, hefur hann mikla möguleika í kosningunum.

Kjósendur vilja ekki stjórna. Þeir vilja ekki velja málefni. Þeir vilja láta stjórna fyrir sig. En þeir vilja fá að ráða, hverjum þeir treysta fyrir því. Þetta er eðlilegt viðhorf mikils og vaxandi meirihluta íslenzkra kjósenda eftir mörg og ströng gengisföll málefna af ýmsu tagi.

Gaman hefði þó verið að skíra nýja flokkinn Örkina. Það hefði gefið tvíbenta yfirlýsingu um Jóhönnu af Örk og um björgun úr yfirvofandi syndaflóði stjórnmálanna.

Jónas Kristjánsson

DV