Stefnumörkun hins nýja frumvarps um orkuver er í rýrasta lagi, svo sem Hjörleifs Guttormssonar orkuráðherra var von og vísa. Þar fara 157 síður í að komast hjá að taka af skarið um næsta skref í beizlun vatnsorkunnar.
Orkuráðherra vill fá tækifæri til að tvístíga áfram til hausts. Þá hyggst hann leggja fyrir alþingi nýtt frumvarp með hinum erfiðu ákvörðunum um, hvar virkja skuli og hver virkja skuli. Á báðum sviðum stendur hnífurinn enn í kúnni.
Frumvarpið felur fyrst og fremst í sér heimild til ríkisstjórnarinnar að halda áfram undirbúningi nokkurra virkjunarkosta, svo að frestun ákvarðana leiði ekki til tafa við undirbúning þess kosts, sem fyrst verður valinn.
Án nokkurrar sérstakrar röðunar er í frumvarpinu getið Blönduvirkjunar, Fljótsdalsvirkjunar, Villinganesvirkjunar, Sultartangavirkjunar, stækkunar Hrauneyjafossvirkjunar og ýmissa ótilgreindra jarð- varmavirkjana.
Í greinargerð má lesa milli lína, að Blönduvirkjun sé hugsanlega 20% hagkvæmari en Fljótsdalsvirkjun. En þá er miðað við ódýrasta kost, en ekki það, sem um kann að verða samið í hinni endalausu þrætu um uppistöðulón Blönduvirkjunar.
Ofan á óvissuna um samkomulag í Blöndudeilu og um röðun orkuveranna bætist svo, að frumvarpið segir ekki einu sinni, hver eigi að sjá um framkvæmdir. Landsvirkjun er nefnd sem fyrsti kostur, en Rafmagnsveitur ríkisins til vara.
Athyglisverðastar eru kannski hugleiðingar frumvarpsins um stóriðju og orkufrekan iðnað á Íslandi. Orkuspá þess gerir ráð fyrir tiltölulega hægfara uppbyggingu miðlungsstórra fyrirtækja á því sviði og undir íslenzku forræði.
Í greinargerðinni segir, að fram til aldamóta þurfi að búa til atvinnutækifæri í iðnaði fyrir 6000 manns og þar af í mesta lagi 1500 manns í orkufrekum iðnaði eða sem svarar tveimur álverum af Straumsvíkurstærð.
Gert er ráð fyrir, að orkuverin, sem frumvarpið fjallar um, verði reist á tímabilinu fram til 1995 og leiði til 2.400 gígavattstunda orkuaukningar á ári umfram þarfir almenns markaðar og núverandi orkufreks iðnaðar.
Í framhjáhlaupi er nefnt, að framleiðsla innlends eldsneytis í stað innflutts bensíns mundi krefjast 1600 gígavattstunda á ári og að hliðstæð framleiðsla ammoníaks sem eldsneytis fyrir fiskiskipastólinn 2.200 gígavattstunda á ári.
Heimildir frumvarpsins munu því duga skammt, ef hækkun erlends eldsneytisverðs leiðir til þess, að innlend framleiðsla eldsneytis verði talin hagkvæm. Þetta mál er stærra en svo, að hægt sé að afgreiða það í framhjáhlaupi.
Við stöndum því andspænis virkjunaráformum, sem gefa lítið svigrúm til stóriðju og ekkert til eldsneytisframleiðslu. Sú stefna er íhaldssamari en svo, að við verði unað, því að undirbúningur nýrra orkuvera tekur langan tíma.
Djarflegra og hyggilegra væri að stefna að 10 ára framkvæmdatíma í stað 15 á þeim virkjunum, sem taldar eru upp í frumvarpinu, og hefja jafnframt nú þegar undirbúning annarra orkuvera, sem tekið gætu til starfa á síðasta tug aldarinnar.
157 síðna bókin heggur hvorki hnúta líðandi stundar né horfir af nægri festu til framtíðarinnar. Hún er gott dæmi um það megineinkenni íslenzks skrifræðis, að fjallið tekur jóðsótt og fæðir af sér mús.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið