Orkuverðið er aðalmálið.

Greinar

Þá er blessuð Ísalsdeilan byrjuð á nýjan leik með nýrri endurskoðun á nýju bókhaldsári. Í þetta sinn ber ekki eins mikið á milli og fyrri árin og reyndar ekki nógu mikið til að geta haft áhrif á skattgreiðslur Ísals til ríkiskassans.

Hvor aðili hefur sína skýringu á minni ágreiningi um árið 1981 en var um árin þar á undan. Ísal segir, að endurskoðendurnir Coopers & Lybrand séu komnir nær jörðinni en áður. Hjörleifur ráðherra segir, að ósvífni Alusuisse hafi minnkað.

Augljóst er, að gífurlegt aðhald í bókhaldi og endurskoðun þarf að veita fjölþjóðlegum fyrirtækjum á borð við Alusuisse. Ráðgjöf kunnáttufyrirtækja á borð við Coopers & Lybrand er því mikils virði, þótt þeim geti skjátlazt eins og öðrum.

Endalaust má deila um, hvert sé sanngjarnt uppgjör milli dótturfyrirtækisins Ísals og móðurfyrirtækisins Alusuisse. Og vafasamt er, að efna þurfi til opinbers bófahasars í hvert sinn, sem árlegri endurskoðun lýkur.

Raunar má gruna Hjörleif um að efna til þessara uppþota til að egna Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkinn til stuðnings við Ísal og þar með hið óvinsæla Alusuisse að baki. Þannig eru uppþotin meira pólitísk en efnisleg.

Margsannað er um allan heim, að ein helzta rekstrarforsenda fjölþjóðafyrirtækja á borð við Alusuisse er að færa peninga milli landa. Að segja Ísal vera í taprekstri er álíka marklaust og að segja tunglið vera úr osti.

Hitt er svo jafnrétt, að erfitt er eltast við þetta, ekki sízt þegar Alusuisse neitar að gefa upplýsingar. Þess vegna er skynsamlegra að semja um fastar greiðslur en um breytilegar greiðslur eftir meira eða minna umdeildu bókhaldi.

Komið hefur í ljós, að leiðrétting árið 1975 á hörmulega lélegum samningi frá 1966 gerði bara illt verra. Þá var föstum greiðslum breytt í hreyfanlegar. Og þá hófst darraðardansinn um bókhaldið, sem aldrei fæst úr nein niðurstaða.

Nær væri fyrir Íslendinga að snúa sér í auknum mæli að áþreifanlegri hlutum á borð við orkuverð. Þar hefur hið átakanlega komið í ljós, að verð orkunnar til Ísals er ekki nema einn þriðji af því, sem það ætti af sanngirni að vera.

Raforkuverðið er nú 6,5 verðeiningar á orkueiningu, en ætti að vera 18 einingar. Sú skoðun byggist á, að í upphafi var verðið 2,5 einingar, þegar heimsmarkaðsverð var 3 einingar, það er að segja aðeins nokkru hærra.

Nú er meðalverð raforku til álvera í heiminum 22 einingar. Ef Bandaríkin eru tekin sérstaklega, er verðið líka 22 einingar. Á aðalmarkaði Ísals, í Vestur-Evrópu, er meðalverðið 21 eining. Verð Ísals ætti að vera rétt innan við það.

Einnig til staðfestingar á þessu er, að Alusuisse og dótturfyrirtæki þess greiða að meðaltali 20 einingar annars staðar. Engin verksmiðja hringsins greiðir eins lágt verð og Ísal greiðir til Landsvirkjunar. 6,5 eininga verð er hreint hneyksli.

Ef rétt er, að samkeppnisfært raforkuverð til álvera sé 20 einingar og muni fara hægt hækkandi upp í 24 einingar á næstu árum, eigum við að reyna að fá nýjan samstarfsaðila um eignarhald og rekstur Ísals og sölu afurða þess.

Sé Ísal ekki fáanlegt til að semja um heiðarlegt orkuverð, til dæmis 18 einingar, er fullljóst, að Alusuisse sést ekki fyrir í græðgi í viðskiptum við Íslendinga og hefur það þó þegar nóg spillt nauðsynlegum áhuga Íslendinga á erlendu samstarfi um stóriðju.

Jónas Kristjánsson.

DV