Örlagamál á tímamótaári

Greinar

Á síðasta ári tuttugustu aldar stöndum við á tímamótum í mörgum málum, sem varða okkur miklu. Viðhorf til kvóta í atvinnulífi, mannvirkja á hálendi og til ýmissa þátta einkavæðingar, einkavinavæðingar og einkaleyfavæðingar hafa verið að mótast og breytast.

Þetta er líka kosningaár, sem kann að gefa kjósendum færi á að segja álit sitt á þessum málum í deiglunni. Hitt er þó líklegra, að ryki verði af gömlum vana varpað framan í kjósendur og að þeir kæri sig ekki heldur um að axla sjálfir ábyrgð á framvindu deilumála.

Fólk fagnar því, að Hæstiréttur hefur slegið á fingur valdhafa og veitenda gjafakvóta í sjávarútvegi. Það ætlast til, að rétturinn staðfesti þá stefnu í frekari málaferlum. En það verður tregt til að taka sjálft á slíkum málum í vor við val fulltrúa sinna á Alþingi.

Samt er ljóst, að innleiða má réttlæti í kvótakerfið með því að bjóða kvótana út á almennum markaði, þar sem allir megi leggja fram tilboð. Þar með eru allir jafnir fyrir lögunum. Bjóða má kvótana út til fimm ára í senn í fimm jöfnum hlutum á fimm ára tímabili.

Þetta er ein leið af mörgum, sem nefndar hafa verið í umræðunni að undanförnu. Hún hefur þann kost, að hún mildar áhrif breytingarinnar á núverandi handhafa gjafakvóta og mildar einnig áhrif hennar á umfang markaðarins með því að dreifa sölunni á nokkur ár.

Vaxandi meirihluti er fyrir því, að valdhafar fari að gá að sér í misþyrmingu ósnortins víðernis í þágu stóriðju. Fólk vill ekki, að Þjórsárver og Eyjabakkar fari undir dauð uppistöðulón með breytilegri vatnshæð. Fólk telur sig hafa ráð á að varðveita fágætar náttúruperlur.

Hitt er svo önnur saga, að fólk er tregt til að taka afleiðingum þessara sjónarmiða sinna í vali á fulltrúum sínum á Alþingi. Það vill frekar væla utan í ótraustum fulltrúum sínum heldur en að hafna því beinlínis að velja ótrausta fulltrúa til að setja lög um þessi mál.

Endurheimt þjóðareignar á fiskimiðum og varðveizla ósnortins víðernis eru skýr dæmi um mál, þar sem meirihluti fólks hefur snúizt á sveif með öðrum málstaðnum og getur beitt sér í alþingiskosningum ársins, en mun samt tæpast notfæra sér þá aðstöðu.

Flóknari er málaflokkurinn, sem snýst um orðið “einka”. Þar er um að ræða þá þverstæðu, að í senn er verið að einkavæða sum ríkisfyrirtæki, einkavinavæða önnur og einkaréttarvæða enn önnur svið. Einstakir þættir framvindunnar stangast á við aðra.

Það væri verðugt verkefni þjóðarinnar á þessu kosningaári og síðasta ári aldarinnar að ákveða, hvert skuli stefna með orðið “einka”. Á að einkavæða eða á að einkavinavæða? Á að hefja að nýju útgáfu einkaleyfa eða á að afturkalla öll ný og gömul einkaleyfi?

Ljóst er, að siðferðilegur og markaðslegur munur er á einkavæðingu og einkavinavæðingu. Ennfremur er ljóst, að himinn og haf er á milli einkavæðingar og veitingar einkaleyfa. Kjósendur geta ákveðið að taka sér vald til að fá botn í þetta, en þeir munu tæpast nenna því.

Við getum, ef við viljum, notað lokaár aldarinnar til að knýja fram skynsamlega stefnu í stíl við breyttan tíðaranda á öllum þessum sviðum og ýmsum fleiri. Spurningin er hins vegar, hvort við séum menn til að taka á þessu eða látum landsfeðurna eina um hituna.

Spurningin er sennilega sú, hvort við viljum yfirleitt vera borgarar, sem standa á tímamótum, eða hvort við viljum vera þegnar, sem látum aðra ráða ferð.

Jónas Kristjánsson

DV