Örlagaríkir mælikvarðar.

Greinar

Við þurfum ekki að vera svartsýn á framtíðina í landi okkar, þótt stundum gangi ekki allt í haginn. Á velgengnisbraut undanfarinna áratuga hafa stundum steðjað að tímabundnir erfiðleikar, sem okkur hefur síðan tekizt að rífa okkur upp úr.

Síðustu árin höfum við getað glaðzt yfir, að til skjalanna eru að koma nýjar atvinnugreinar, sem virðast líklegar til að efla þjóðarauð mjög verulega á næstu árum og áratugum, ef við kunnum að halda rétt á spilunum.

Nýgræðingarnir spanna sviðið frá sérhæfðum rafeindaiðnaði yfir í fiski- og loðdýrarækt. Á öllum þessum sviðum hefur náðst athyglisverður árangur, sem byggist á, að hér sé á einhvern hátt betri aðstaða en annars staðar.

Á öllum sviðum er þekkingin ein af helztu undirstöðunum. Það á einna skýrast við um rafeindaiðnaðinn, en einnig fiski- og loðdýrarækt. Síðarnefndu greinarnar byggjast einnig á góðu fóðri úr óvenju ódýrum fiskúrgangi.

Hins vegar fer því fjarri, að til góðs séu allar ráðagerðir manna um nýja starfsemi. Sumar þeirra eru eingöngu miðaðar við afmarkaða staðar- og atvinnuhagsmuni, en stríða að öðru leyti gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Hægt er að meta gildi nýrrar starfsemi á ýmsa samkeppnismælikvarða. Beztar eru þær greinar, sem ekki þurfa niðurgreiðslur, rekstrarstyrki, vildarlán, framkvæmdastyrki, útflutningsuppbætur, tollmúra og innflutningsbann.

Sjávarútvegurinn er dæmi um grein, sem stenzt alla þessa mælikvarða nema vildarlánin. Hann þarf ekki einu sinni innflutningsbann eða tollmúra. Hér er meira að segja hægt að kaupa danskan fisk, ef neytendur lystir.

Án nokkurra styrkja og útflutningsuppbóta keppir sjávarútvegurinn á erlendum markaði með góðum árangri, færir okkur gífurlegan gjaldeyri og stendur raunar að verulegu leyti undir þjóðfélaginu á Íslandi.

Samt er hið opinbera alltaf að gera sjávarútvegi skráveifu. Krónan er yfirleitt of hátt skráð. Rangsnúið fiskverð dregur úr gæðum. Verst er þó, að opinber lán magna stærð flotans og valda stórhættulegri ofveiði.

Á hinum enda litrófs íslenzkra atvinnuvega er hinn hefðbundni landbúnaður, sem felst í ræktun sauðfjár og nautgripa. Hann stenzt ekki nokkurn ofangreindra mælikvarða og er raunar hroðalegur baggi á þjóðinni.

Þessi hefðbundni landbúnaður þrífst í skjóli innflutningsbanns, tollmúra, útflutningsuppbóta, framkvæmdastyrkja, vildarlána, rekstrarstyrkja og niðurgreiðslna. Þetta borgar hann svo með ofbeit og landeyðingu.

Sumar aðrar greinar landbúnaðar eru mun betri, af því að þær standast mælikvarðana, sem hér hafa verið raktir. Alifuglarækt stenzt suma þeirra, en hefur þó skjól af innflutningsbanni. Ylrækt stenzt flesta, en getur ekki flutt út.

Hinar nýju greinar fiskiræktar og loðdýraræktar eru hátt yfir annan landbúnað hafnar. Í fyrsta lagi hafa þær ekki þurft niðurgreiðslur, rekstrarstyrki, vildarlán, framkvæmdastyrki, útflutningsuppbætur, tollmúra og innflutningsbann.

Í öðru lagi geta þær selt afurðir sínar á erlendum markaði. Þær geta fært gjaldeyri í þjóðarbúið. Þær geta staðið við hlið sjávarútvegs sem einn hornsteina þjóðfélagsins. Einmitt slíka nýbreytni eigum við að efla.

Jónas Kristjánsson.

DV