Örlagavaldur Færeyja

Greinar

Poul Nyrup Rasmussen er orðinn mikill örlagavaldur í sögu Færeyinga. Nú síðast hefur forsætisráðherra Danmerkur gert þá hrönnum saman afhuga sjálfstæði. Nýjasta skoðanakönnunin bendir til, að meirihluti þjóðarinnar sé andvígur sjálfstæði að svo komnu máli.

Þetta tókst forsætisráðherranum á fundi með færeysku landsstjórninni fyrr í vetur, þegar hann lagði óvænt fram harðar tillögur um hraða minnkun stuðnings ríkissjóðs Danmerkur við Færeyinga, ef þeir framkvæmdu ráðagerðir landsstjórnarinnar um sjálfstæði eyjanna.

Þar með steypti hann grundvellinum undan vinsældum færeyskra stjórnmálaflokka, sem styðja sjálfstæði og mynda landsstjórnina, og bætti stöðu færeyskra krata, sem eru afar Danmerkursinnaðir. Skoðanakönnunin sýnir, að stjórnarflokkar Færeyja hafa misst meirihlutafylgið.

Ekki er hægt að sjá neina skynsamlega ástæðu fyrir þessari hörku Rasmussens í tilraunum til að viðhalda sambandi, er kostar danska ríkissjóðinn sem svarar tíu milljörðum íslenzkra króna á ári, nema þá, að hann renni hýru auga til hugsanlegra olíulinda á Færeyjagrunni.

Áður hafði forsætisráðherrann lagt meira af mörkum en nokkur annar til að koma Færeyingum á kaldan klaka, er hann kom hinum gjaldþrota Færeyjabanka af herðum Den Danske Bank yfir á herðar færeyska landssjóðsins með röngum upplýsingum um stöðu bankans.

Raunar bera danskar ríkisstjórnir, sem mestmegnis hafa verið skipaðar krötum, mikla ábyrgð á fjárhagslegri stöðu Færeyja. Þær keyptu hvað eftir annað stuðning þingmanna Færeyja á danska þinginu til að ná naumum meirihluta til stjórnarmyndunar í Danmörku.

Til að launa stuðninginn var dönsku ríkisfé ausið í Færeyjar og Færeyjabanka. Af hálfu Færeyinga var þetta stutt sníkjustefnu sambandssinna og smábyggðastefnu krata, sem óprúttnir útvegsmenn, fiskverkendur, endurskoðendur og stjórnmálamenn notfærðu sér óspart.

Færeyingar bera sjálfir mikla ábyrgð á stöðu mála. Þeir hafa ekki haft bein í nefinu til að hafna sukkstefnu Sambandsflokksins og Jafnaðarflokksins á liðnum áratugum. Þeir hafa ornað sér við dönsku eldana og ímyndað sér, að efnahagur Færeyja sé ekki sýndarveruleiki.

Með þingmeirihluta sjálfstæðissinna á færeyska landsþinginu fyrir tveimur árum vöknuðu vonir um, að Færeyingar væru farnir að átta sig á, að koma þyrfti efnahagslífi eyjanna á raunhæfan grundvöll og að þeir væru reiðubúnir að kaupa sjálfstæðið því verði.

Landsstjórnin nýja vildi semja við Dani um hægfara afnám danskra styrkja til að fá tíma til að laga efnahagslíf Færeyja að veruleikanum. Forsætisráðherra Danmerkur kom henni hins vegar í opna skjöldu með tillögu, sem hefði komið sjálfstæðum Færeyjum á kaldan klaka.

Ef Poul Nyrup Rasmussen hefði viljað semja og losna við fjárausturinn í Færeyjar á löngum tíma, hefði hann lagt fram mildari tillögur. Hann vildi hins vegar ekki semja, heldur halda Færeyjum í sambandinu með öllum þeim kostnaði danska ríkissjóðsins, sem því fylgir.

Mikill fjöldi færeyskra kjósenda metur núna stöðuna þannig, að bezt sé að kyssa á vöndinn, fresta sjálfstæði langt inn í framtíðina og halda áfram að orna sér við danska peninga. Þetta er sú staða, sem danski forsætisráðherrann vildi framkalla og hefur tekizt að framkalla.

Færeyingar eru leiksoppur óprúttinna stjórnmálamanna og eigin veiklyndis, þegar kemur að pólitískri ákvörðun, sem Íslendingar hafa fyrir löngu tekið.

Jónas Kristjánsson

DV