Örlagavaldur lífskjara

Greinar

Samkvæmt rannsókn Neytendasamtakanna er verð landbúnaðarafurða mun lægra í Danmörku en hér á landi. Þetta er í fullu samræmi við aðrar athuganir á liðnum árum og stingur í stúf við fullyrðingar hagsmunagæzluráðherra landbúnaðarins að undanförnu.

Enn meiri munur kemur í ljós, þegar íslenzkt matarverð er borið saman við þróuð landbúnaðarríki, sem standa utan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins og vernda ekki landbúnaðinn í jafnmiklum mæli. Bandarískt verð er bara brot af hinu íslenzka.

Vegna nálægðar og samskipta hefur mótazt sú venja, að bera íslenzkt búvöru- og matarverð saman við danskt. Sá samanburður segir ekki alla söguna um, hvað innflutt búvara mundi kosta hér á landi, því að vafalaust yrði mikið flutt inn frá ódýrari landbúnaðarlöndum.

Í rannsókn Neytendasamtakanna kemur líka fram, hvað danskar afurðir mundu kosta hér á landi, ef þær væru fluttar inn. Samkvæmt þeim tölum mundu þær kosta frá fjórðungi og upp í helming af verði innlendra afurða, ef þær væru ekki tollaðar sérstaklega.

Að svo miklu leyti sem erlendar búvörur eru tollaðar við komuna til landsins, græðir ríkissjóður þá peninga fyrir hönd skattgreiðenda, en afganginn græða neytendur. Með fyrirhuguðum ofurtollum á innfluttan mat ætlar ríkið að ná öllum gróðanum til sín og rúmlega það.

Í rúmlega tvo áratugi hefur verið margsagt hér í blaðinu, að það jafngilti lífskjarabyltingu í landinu að heimila tollfrjálsan innflutning búvöru og greiða innlendum bændum fyrir að bregða búi í ósamkeppnishæfum greinum. Þessi kenning er í fullu gildi enn þann dag í dag.

Á þessum rúmlega tveimur áratugum hefur þjóðfélagið fórnað samtals um 400 milljörðum króna á altari hins hefðbundna landbúnaðar. Sú tala jafngildir tvöfaldri heildarskuld þjóðarinnar við útlönd. Hún jafngildir fjárlögum ríkisins í tvö ár. Hún er stjarnfræðileg.

Búvörustefna stjórnvalda er ein sér nægileg skýring á því, hvers vegna kaupmáttur tímakaups er miklu lægri á Íslandi en í nágrannalöndunum beggja vegna Atlantshafsins. Hún er um leið nægileg skýring á því, hvers vegna íslenzkt atvinnulíf er ekki samkeppnishæft.

Þrátt fyrir þetta hefur ekki verið pólitískur vilji til að skera meinsemdina. Meirihluti kjósenda hefur stutt og styður enn þá ófarnaðarstefnu, sem fylgt hefur verið. Í könnunum hefur hún haft um 60% fylgi. Fólkið í landinu ber því fulla ábyrgð á afleiðingum stefnunnar.

Sama er að segja um stjórnmálaflokkana. Í reynd styðja þeir allir helstefnu landbúnaðarráðuneytisins. Sumir styðja hana ekki í orði, en hafa ævinlega reynzt gera það á borði, þegar þeir hafa haft tækifæri til. Alþýðuflokkurinn er þar engan veginn undanskilinn.

Það sker í augu, að í kosningunum um helgina eiga neytendur engan málsvara. Þeir eru ekki taldir nógu merkur þrýstihópur í samanburði við aðra hagsmuni í þjóðfélaginu. Það segir allt, sem segja þarf um möguleika okkar á að ná vestrænum lífskjörum fyrir dagvinnu.

Neytendasamtökin hafa samt braggast töluvert á allra síðustu árum. Þau hafa lagt niður fyrri bannhelgi á málum landbúnaðarins og beita nú vaxandi þrýstingi gegn helstefnunni. Rannsókn þeirra á verði danskra landbúnaðarafurða er dæmi um þá stefnubreytingu.

Stóra málið er þó, að fyrir kosningar er orðið ljóst, að á næsta kjörtímabili mun áfram verða brennt 20 milljörðum króna á ári á altari hins hefðbundna landbúnaðar.

Jónas Kristjánsson

DV