Öryggi Íslendinga.

Greinar

Stundum er talað um, að lífsreyndar þjóðir eins og Bretar og Svíar haldi af öryggisástæðum uppi nokkru magni af ósamkeppnishæfri matvælaframleiðslu. Í löndum þeirra sé reynt að tryggja, að fólk hafi mat, þótt komi til hafnbanns, til dæmis af völdum ófriðar.

Hér á landi mundi hafnbann leiða til skorts á mörgum tegundum matvæla, sem þjóðin er vön að neyta. Hverfa mundu ávextir og korn af hvers kyns tagi, salt og sykur, margs konar pakkavara, áfengi og tóbak. Neyzlan yrði óhjákvæmilega mun einhæfari en áður.

Alvarlegastur yrði þó olíuskorturinn. Stefnt er að því, að jafnan séu í landinu þriggja mánaða olíubirgðir. Að þeim tíma liðnum mundu allir atvinnuvegir stöðvast, þar á meðal matvælaframleiðsla sjávarútvegs og landbúnaðar. Skömmtun gæti þó dregið stöðvunina á langinn.

Landsvirkjun er ekki háð olíu og á töluverðar birgðir af varahlutum. Þess vegna má reikna með, að unnt yrði að framleiða rafmagn um langan tíma, þótt aðflutningar stöðvuðust. Þessi mikilvægi kostur veldur því meðal annars, að unnt yrði að reka frystigeymslur.

Í þessum geymslum eru afurðir sjávarútvegs og landbúnaðar. Svo vel vill til, að birgðir landbúnaðarafurða eru mestar eftir haustslátrun, einmitt þegar fiskbirgðir eru minnstar. Þetta öryggismál hefur svo verið notað til varnar hinum hefðbundna landbúnaði.

Kjötfjallið, smjörfjallið og ostafjallið eru þó samanlagt ekki nema brotabrot af því öryggi, sem felst í þriggja mánaða birgðum af olíu. Þær birgðir mundu án skömmtunar gera fiskiskipaflotanum kleift að ná í rúmlega 1,2 milljónir tonna af fiski.

Ef við ætluðum að neyta þessa matar sjálf og hefðum ekki annað, mundi taka okkur mörg ár, líklega átta ár, að torga aflanum, sem fengist af þriggja mánaða olíubirgðum. Það er að vísu einhæf fæða, eins og raunar kjötið, en manneldislega nothæft í neyð.

Stóriðja okkar í sjávarútvegi, olíubirgðirnar og rekstraröryggi orkuveranna veita okkur matvælaöryggi, sem er margfalt á við aðrar þjóðir. Við þurfum því ekki að fara að því dæmi Breta og Svía að halda af öryggisástæðum uppi annars óþarfri búvöruframleiðslu.

Við þurfum ekki að búa við kjötfjall, smjörfjall og ostafjall af öryggisástæðum. Við þurfum ekki heldur að búa við framleiðslu, sem hæfi innanlandsmarkaði. Við gætum sem bezt haft hana mun minni og flutt inn mun ódýrari og í sumum tilvikum margfalt ódýrari afurðir.

Sú stefna flestra stjórnmálaflokkanna að rétt sé að miða framleiðslu hins hefðbundna landbúnaðar við svokallaðar innanlandsþarfir hefur engan stuðning frá kenningum um öryggi fremur en frá hagrænu mati. Í staðinn ætti að koma stefna frjálsrar verzlunar með innlendar og innfluttar afurðir.

Ef við vildum hins vegar enn auka matvælaöryggi okkar, er rétt að beina sjónum okkar að rekstraröryggi fiskiskipaflotans og frystigeymsla sjávarútvegsins. Það má gera með því að auka varahlutabirgðir á báðum sviðum, svo og orkuveranna og með því að auka olíubirgðirnar.

Þar sem ríkisvaldinu er ætlað að gæta öryggis þjóðarinnar, ætti það að koma sér upp olíubirgðastöðvum. Ennfremur að fela Almannavörnum að semja í samráði við hlutaðeigandi aðila, Landsvirkjun og samtök sjávarútvegs og fiskiðnaðar, skrá yfir æskilegar langtímabirgðir varahluta.

Jónas Kristjánsson.

DV