Öryggisgæslu þarf strax.

Greinar

Líkamsárásin í Þverholti hefur opnað augu manna fyrir, að lengur verður ekki unað við, að geðveikir afbrotamenn gangi lausir. Þjóðfélagið krefst varna gegn slíku og mannúðarstefna krefst tilrauna til lækninga.

Brýnast er að mæta vandanum eins og hann er, hverju svo sem hann er að kenna, með því að taka úr umferð þá 1-2 geðveiku afbrotamenn, er koma í ljós árlega að meðaltali. Þjóðfélagið sættir sig ekki við síbrot af Þverholtstagi.

Eftir því sem föng eru á hverju sinni verður einnig að gera tilraunir til að lækna hina geðveiku afbrotamenn. Í sumum tilvikum kann að leynast von, þótt venjulega séu þeir orðnir ólæknandi, þegar þeir eru handteknir.

Að undanförnu hafa embættismenn og yfirmenn geðheilbrigðismála skýrt sjónarmið sín á þessum vanda hér í blaðinu og sýnist sitt hverjum. Endurspeglast þar togstreita, sem hefur sett svip sinn á þetta ástand árum saman.

Geðveikir afbrotamenn eru yfirleitt dæmdir til svokallaðrar öryggisgæzlu. Hún er ekki hugsuð sem refsing, heldur í fyrsta lagi til að vernda umhverfið fyrir hinum geðveiku og í öðru lagi til að veita þeim læknishjálp.

Slík aðstaða er ekki til í fangelsum, þótt til þess sé raunar ætlazt í fangelsislögum. Því hafa yfirvöld dómsmála fengið yfirvöld heilbrigðismála í lið með sér við að reyna að koma öryggisgæzlunni á geðsjúkrahúsin.

Ólafur Ólafsson landlæknir sagði hér í blaðinu, “að vista eigi geðsjúka afbrotamenn á geðsjúkrahúsum eða á deildum, sem reknar eru í nánum tengslum við þau”. Átaldi hann þessar stofnanir fyrir að tregðast við.

Skúli Johnsen borgarlæknir sagði við sama tækifæri, að “réttarúrskurður um öryggisgæzlu einstaklings getur einn sér alls ekki skotið heilbrigðisyfirvöldum eða heilbrigðisstofnunum undan hlutverki sínu”.

Hann lagði ennfremur til, að borið verði undir Hæstarétt, hvort vald dómstóla nægi eða nægi ekki til að skylda geðsjúkrahús til að hlíta úrskurði um að taka við geðveikum afbrotamanni til öryggisgæzlu.

Yfirlæknar geðsjúkrahúsa neita harðlega að fá þessa menn til sín. Þeir sögðu, að öryggisgæzla geðveikra fanga eigi “ekki samleið með meðferð á almennum geðdeildum”, auk þess sem ekki sé einu sinni rými fyrir aðra sjúklinga.

Þeir sögðu í svörum sínum hér í blaðinu: “Ætti geðdeild að taka að sér öryggisgæzlu, þó ekki væri nema eins eða tveggja sjúklinga, fyrir dómsvöld, mundi meðferðarumhverfið eyðileggjast fyrir aðra sjúklinga.”

Ennfremur segja þeir, að það sé “starfsskylda yfirlækna geðdeilda að vernda hagsmuni þeirra þúsunda sjúklinga, sem engin afbrot hafa framið”, m.a. með því að vinna gegn því, að deildirnar og umhverfi þeirra fái á sig fangelsisbrag.

Yfirlæknarnir eru einnig andvígir því, að við geðsjúkrahús eða spítala eins og Vífilstaði verði reist deild fyrir öryggisgæzlu, svo sem landlæknir hefur lagt til. Mikið ber því á milli embættismanna þessa kerfis.

Í ár hefur í fyrsta sinn verið veitt fé á fjárlögum til undirbúnings sérstakrar stofnunar fyrir öryggisgæzlu geðsjúkra afbrotamanna. Þeirri framkvæmd þarf að hraða sem mest. Og vernda á meðan þjóðfélagið fyrir þessum mönnum.

Jónas Kristjánsson.

DV