Öryggisnet gæludýranna

Greinar

“Ef þú skuldar bankanum 500 þúsund krónur, á bankinn þig, en ef þú skuldar bankanum 500 milljónir, áttu bankann.” Þetta er gamansöm tilraun til að lýsa í hnotskurn, að í fjármálum er alls ekki eitt látið yfir alla ganga í skömmtunar- og Stórabróður-ríkinu íslenzka.

Í fyrra urðu um 2000 reykvískir aðilar gjaldþrota, bæði einstaklingar og fyrirtæki. Það gerðist að mestu þegjandi og hljóðalaust, að á hverjum degi ársins 1989, helgum sem virkum, urðu tæplega átta aðilar að sjá drauma sína verða að martröð á þennan hátt.

Á sama tíma er hlaupið upp til handa og fóta til að bjarga öðrum aðilum, sem standa andspænis gjaldþroti. Í björgunarsveitunum eru einkum bankar og ríkisstjórn, sem verja mestum tíma sínum til að hlaupa undir bagga hjá þeim, sem ekki mega fara á höfuðið.

Eðlilegt er, að spurt sé um mörk feigs og ófeigs í viðhorfum banka og ríkisstjórnar til þeirra, sem eru að sigla í gjaldþrot. Fólk vill vita og á að fá að vita, hvað þurfi til að lenda í náðinni. Er það skírteini í Flokknum, hlutdeild lauks úr Ættinni eða eitthvað annað

Greinilegt er, að stærð vandamálsins er mikilvæg. Menn þurfa að koma vanskilum sínum við lánastofnanir yfir einhver mörk, sem eru svo há, að bankinn telji sig knúinn til að lána meira, meðal annars til að þurfa ekki strax að bókfæra mikið tap af viðskiptunum.

Ennfremur er greinilegt, að tegund starfseminnar er mikilvæg. Atvinnuvegirnir sitja ekki við sama borð, því að sumir eru taldir virðulegri og þjóðlegri en aðrir og eigi þar af leiðandi betra skilið. Til dæmis fá sjálfvirka björgun þau fyrirtæki, sem tengjast landbúnaði.

Einnig skiptir nokkru, að tegundin hafi verið í tízku á vegum hins opinbera. Ef ríkið hefur hvatt til starfsemi á borð við loðdýrarækt, finnst ráðamönnum, að það beri nokkra ábyrgð gagnvart þeim, sem ginntir voru til að fara úr hefðbundnum landbúnaði í loðdýrin.

Ýmsar fleiri ástæður eru stundum færðar fyrir stuðningi banka og ríkis. Forsætisráðherra sagði til dæmis, að ríkið yrði að bjarga Sambandinu, svo að Ísland fengi ekki óorð hjá erlendum lánardrottnum. Þetta er rangt hjá honum, en gildir sem sniðugur fyrirsláttur.

Stundum er ekki unnt að flokka ástæður góðvildarinnar. Það er til dæmis sér á parti, að ráðherrar og aðstoðarmenn þeirra skuli hafa tíma til að sitja á næturlöngum fundum um áramót til að ræða í fullri alvöru, hvort unnt sé að veita ríkisábyrgð til sjónvarpsstöðvar.

Hagfræðilega séð er í atvinnulífinu gífurlegur munur á línudansi með öryggisneti hins opinbera undir sér og án þess. Sá, sem hefur netið undir sér, í formi gífurlegrar lánafyrirgreiðslu eða ríkisábyrgðar, tekur öðruvísi ákvarðanir en hinn, sem stendur og fellur með þeim.

Gæludýrið með öryggisnetið tekur ábyrgðarminni ákvarðanir og gerir minni arðsemiskröfur til starfseminnar. Þetta er ein mikilvægasta ástæða þess, að efnahagslíf í Sovétríkjunum og Íslandi er verr á vegi statt en efnahagslíf í vestrænum ríkjum markaðsbúskapar.

Engin þjóð á Vesturlöndum fórnar jafnmiklum verðmætum til að halda uppi velferðarkerfi fyrirtækja og við gerum í fátækt okkar á Íslandi. Engin ríkisstjórn á Vesturlöndum stundar jafnharða Stórabróðurstefnu í atvinnulífinu og stjórn Steingríms Hermannssonar.

Þetta velferðarríki er ekki almenns eðlis, heldur beinist að svokölluðum gæludýrum. Smáseiðin sæta markaðsbúskap, en stórhvelin hafa öryggisnetið undir sér.

Jónas Kristjánsson

DV