Öryggisnetið er rifið

Greinar

Alþingi og ríkisstjórn þurfa nú þegar að taka á vandræðum, sem komið hafa fyrst í ljós við innreið kreppunnar, einkum atvinnuleysinu. Á velferðarkerfi landsins eru rifur, sem fólk lét sér áður í léttu rúmi liggja, þegar vinna var á boðstólum fyrir næstum alla, sem vildu vinna.

Þessar rifur á öryggisneti félagsmála valda meðal annars því, að í vor kemur fólk úr skólum án þess að fá atvinnu og án þess að fá atvinnuleysisbætur. Það stafar af því, að fólk þarf að hafa unnið í ákveðinn tíma til að öðlast rétt til bóta. Og nám er ekki reiknað sem starf.

Einfalt er fyrir Alþingi að leysa þetta atriði strax í vor með lítilli lagabreytingu um, að nám jafngildi starfi að öllu eða mestu leyti, þegar metinn er réttur til atvinnuleysisbóta. Þetta ætti að gilda um hefðbundið nám og nám, sem efnt er til beinlínis vegna atvinnuleysis.

Í félagsmálaráðuneytinu er talið erfitt eða ófært að ná fram slíkri breytingu fyrir vorið. Sú skoðun byggist annaðhvort á takmörkuðum áhuga á þeim bæ eða á þeirri skoðun, að takmarkaður áhugi sé meðal þingmanna á málinu. Líklega er dálítið til í hvoru tveggja.

Áhugaleysið byggist að hluta á, að stjórnmálamenn og embættismenn vita, að útgjöld ríkisins hafa farið úr böndum, þótt þetta bætist ekki við. En á sama tíma eru þeir að gamna sér við rugl á borð við sendiráð í Kína og auknar greiðslur til gæluverkefna í landbúnaði.

Áhugaleysið byggist að hluta á, að námsmenn eru fremur veikur þrýstihópur í samanburði við ýmsa aðra og eru auk þess fremur óvinsælir af ýmsum, sem mikla fyrir sér kostnað þjóðfélagsins af menntamálum og af niðurgreiðslu þess á vöxtum af lánum til námsmanna.

Áhugaleysið byggist að hluta á, að margir áhrifamenn hafa þá skoðun, að öryggisnet í þjóðfélaginu séu of þétt riðin og dragi úr sjálfsbjargarviðleitni fólks. En raunar ætti það ekki að vera sama málið, hvort slík net séu þétt eða gisin og hvort þau séu hreinlega rifin.

Öldum saman var samhjálp einn öflugasti hornsteinn þjóðfélagsins. Hrepparnir höfðu úti félagslegt öryggisnet á fátæktaröldum Íslandssögunnar, löngu áður en innleitt var velferðarkerfi nútímans að norrænni og evrópskri fyrirmynd. Samhjálp er hefðbundin á Íslandi.

Velferðarkerfi okkar er gisnara en velferðarkerfi nágrannaþjóðanna á Norðurlöndum. Það stafar af, að við teljum okkur ekki hafa ráð á eins þéttu neti og að við teljum, að ekki megi draga úr sjálfsbjargarviðleitni. En það þýðir alls ekki, að við viljum hafa netið rifið.

Atvinnuleysi hefur verið svo lítið áratugum saman hér á landi, að lög og reglur þjóðfélagsins gera hreinlega ekki ráð fyrir því. Þess vegna hefur of lítið verið lagt til hliðar af fjármunum til að mæta því og of lítið verið gert til að rimpa saman öryggisnet atvinnuleysisbóta.

Við stöndum nú andspænis miklu og varanlegu atvinnuleysi. Við þurfum annars vegar að mæta því með svipuðu öryggisneti og er í nágrannaríkjunum, þar sem atvinnuleysi er í svipuðum mæli. Þáttur í því er að setja í vor í lög, að nám jafngildi starfi í rétti til bóta.

Hins vegar ber okkur að mæta því með atvinnuskapandi aðgerðum til langs tíma. Þá er ekki átt við verkjalyf á borð við vegagerð og skógrækt, heldur ræktun á framtaki, áræði og bjartsýni í atvinnulífinu, til dæmis með aukinni þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi um fríverzlun.

En til skamms tíma ber að virða þá hefð, sem hæfir fámennri þjóð, að hver einstaklingur sé nógu mikils virði til að hafa aðgang að gisnu en órifnu öryggisneti.

Jónas Kristjánsson

DV