William Pfaff telur í International Herald Tribune að Osama bin Laden hafi unnið sitt stríð. Hann hafi jafnan lagt megináherzlu á, að vanhelgun væri að setuliði Bandaríkjanna í landinu helga, Sádi-Arabíu, og koma þyrfti því á brott. Nú er verið að skipuleggja brottför þess til Katar. Honum hafi tekizt að koma sértrúarflokki til valda í hirð George W. Bush Bandaríkjaforseta. Sértrúarflokkurinn hafi komið sambúð Bandaríkjanna og Evrópu í slíkar ógöngur, að það taki að minnsta kosti tíu ár að lagfæra hana. Sértrúarflokkurinn hafi stofnað til almennrar fordæmingar Bandaríkjanna um allan heim. Allt hafi þetta byrjað með Osama bin Laden, sem hataði Saddam Hussein og er raunar ekki fundinn enn.