Ósigurinn má lagfæra.

Greinar

Enn einu sinni sjá menn ekki handaskil í moldviðri stjórnmálamanna út af Alusuisse. Fremur lélegt bráðabirgðasamkomulag í Zürich kallar Sverrir Hermannsson “ótrúlegt afrek” og Hjörleifur Guttormsson “kverkatak”.

Hvorugt er rétt, fremur en aðrar fullyrðingar slagsmálaliðs flokkanna í máli þessu. Samkomulagið er hvorki algott né alvont, heldur bara lélegt. Það er hversdagslegur ósigur, svo sem rakið var hér í blaðinu fyrir réttri viku.

Athyglisvert er, að þrasararnir eru sammála um, að samkomulag á borð við þetta hefði getað náðst fyrir tæplega þremur árum, þegar Hjörleifur Guttormsson, þáverandi orkuráðherra, var hinn stirðasti í viðræðum.

Hækkun orkuverðs upp í 9,5-10 verðeiningar hefði verið sanngjörn bráðabirgðalausn fyrir tæpum þremur árum, þótt Hjörleifur segi annað. En þar með er ekki sagt, að slík bráðabirgðalausn sé sanngjörn nú, þótt Sverrir segi það.

Fyrir þremur árum var álmarkaður og álverð á niðurleið. Álverum var lokað víða um heim. Þá bundust álhringar fastari samtökum í vörninni. Árangurinn er orðinn sá, að álverð fer ört hækkandi og álskorts verður vart.

Við þessar nýju aðstæður hefði 13 eininga bráðabirgðaverð mátt leysa þriggja ára gamalt 10 eininga verð af hólmi. En svo virðist því miður, að ráðuneyti og samninganefnd hafi ekki hirt um að kynna sér síðustu þróun mála.

Svo kærulaust er ráðuneytið, að nýjasta skýrsla Coopers & Lybrand, sem barst ráðuneytinu fyrir síðustu mánaðamót, var látin liggja þar ólesin og ekki einu sinni afhent samninganefnd Íslands til sálarstyrkingar.

Athyglisvert er, að af hálfu uppgjafarliðs hins opinbera hefur meiri áherzla verið lögð á að sannfæra þjóðina um, að úti í heimi sé orkuverð sums staðar eins lágt og hér, heldur en að sannfæra svissneska viðsemjendur um íslenzka einurð.

Hvað sem þetta lið segir, þá hefur heimsmarkaðsverð á orku til álvera verið um og yfir 20 verðeiningar í nokkur ár. Það kann að hafa farið lítillega niður fyrir 18 einingar í fyrra í kjölfar mesta offramboðsins á áli.

Nú er hins vegar álverð á uppleið sem fyrr segir. Eðlilegt er að búast við, að orkuverðið fylgi fast á á eftir og að á allra næstu árum verði samið um hærra en 20 eininga verð til nýrra álvera og stækkaðra.

Hjörleifur Guttormsson átti fyrir tæpum þremur árum að láta semja um 9,5-10 verðeiningar, sem hann reyndist ekki geta. Nú í ár átti Sverrir Hermannsson að láta semja um 13 verðeiningar, sem hann hefur ekki reynzt geta.

Samningamenn Íslands hafa sér það réttilega til afsökunar, að samkomulagið er aðeins til bráðabirgða og felur í sér, að samið verði upp á nýtt fyrir 1. apríl á næsta ári. Þá er ætlunin að semja um heimsmarkaðsverð.

Sá galli er að vísu á gjöf Njarðar, að verðið dettur aftur niður í 6,5 einingar ef ekki næst heildarsamkomulag um nýtt orkuverð, stækkun álversins, nýjan eignaraðila og um sættir í nokkrum illræmdum ágreiningsefnum.

En á þessu stigi er ekki hægt að afskrifa samkomulag í marz um 17-20 eininga orkuverð til álversins í Straumsvík. Þess vegna er Zürich-samkomulagið ekki vont, heldur bara lélegt. Það er ósigur, sem unnt er að laga í vetur.

Jónas Kristjánsson

DV