Óskhyggja og “okurvextir”.

Greinar

Seinkun nýrrar ákvörðunar um vexti á næsta verðbólgutímabili bendir til, að niðurstaðan verði eins konar málamiðlun. Í henni verði tekið tillit til þeirra, sem vilja raunvexti, og hinna, sem vilja vaxtakostnað atvinnulífs og húsbyggjenda sem allra minnstan.

Seðlabankinn hefur lagt fram varfærnar bugmyndir, sem andstæðingum raunvaxta finnst of háar. Þær fela þó í sér minnkun raunvaxta af verðtryggðum lánum og aukningu hinna öfugu vaxta af óverðtryggðum lánum. Hagfræðilega eru þær rangar, en diplómatískt hugsanlega nauðsynlegar.

Meðan umtalsverður hluti stjórnmálaafla og stjórnmálamanna landsins sér ekki samhengi milli framboðs og eftirspurnar að lánsfé, verður erfitt að rækta hér innlendan sparnað. Búast má við, að áfram verði að treysta á útlendan sparnað og taka stór lán í útlöndum.

Á næsta ári munum við þurfa að greiða 5-6 milljarða í vexti af erlendum lánum. Sú byrði mun síðan þyngjast ár frá ári, unz þjóðin verður gjaldþrota, ef til vill áður en ríkjandi kynslóð verður búin að velta byrðunum yfir á börnin sín. Við erum að sökkva í kviksyndi.

Útbreiddur er sá misskilningur, að erlend lán séu ódýrari en innlend. Vextir á Íslandi eru ekki hærri en í nágrannalöndunum og eru til dæmis lægri en í blómstrandi efnahag Bandaríkjanna. Í útlöndum er líka markaðsverð á vöxtum. Því þurfum við að sæta eins og aðrir.

Úr því að íslenzkir stjórnmálamenn og aðrir innlendir andstæðingar raunvaxta geta ekki ráðið vöxtum í útlöndum, vilja þeir stjórna vöxtum innanlands. Þeir líta í einstefnu á hagsmuni lántakenda og hafa ekki minnstu hugmynd um, að til sé lögmál framboðs og eftirspurnar.

Þeir, sem hafa atvinnu af ráðleggingum til fólks um meðferð fjármuna, ern byrjaðir að vara við afleiðingum þeirrar málamiðlunar í vöxtum, sem er á næsta leiti. “Sparifjáreigandi! Varúð! Óverðtryggt sparifé” var um daginn fyrirsögn á blaðagrein eins þessara manna.

Nú eru um 60% sparifjár á óverðtryggðum reikningum, sem munu verða mjög óhagstæðir á næstu mánuðum. Reiknað er með. að verðbólgustigið í janúar verði allt að 80%. Augljóst er, að margir munu færa peninga sína á verðtryggða reikninga til að verja þá þessari holskeflu.

Næsta skref andstæðinga raunvaxta verður svo atlaga gegn verðtryggingunni. Sú atlaga mun enn minnka innlendan sparnað ofan á þá minnkun, sem væntanleg málamiðlun mun hafa í för með sér. Í skorti á innlendu lánsfé munu háir vextir til útlendinga í vaxandi mæli taka við.

Ríkisstjórnin er að missa tökin á þessu eins og öðru, sem hún hefur fitlað við. Fyrr á þessu ári fór hún vel af stað í tilraunum til að hækka raunvexti og rækta innlendan sparnað. Sjálf bauð hún lífeyrissjóðum 9,29% raunvexti og innleysendum spariskírteina 8%. raunvexti.

Sparnaðarandinn hvarf eins og dögg fyrir sólu á þeim tveimur vikum, sem liðu, meðan ríkisstjórnin tregðaðist við að viðurkenna fall krónunnar. Skynsamt fólk kaus fremur að spekúlera í gengislækkun en raunvöxtum. Það keypti sér áþreifanlega hluti fyrir peningana.

Lítið dugar að hafa áhyggjur af vaxtabyrði atvinnulífs og húsbyggjenda, þegar sparnaður fer minnkandi. Ef misvitrir menn koma með handafli í veg fyrir það, sem þeir kalla “okurvexti” hér innanlands, verður ekki í önnur hús að venda en mun hærri raunvexti í útlöndum. Óskhyggja verður aldrei farsæl stjórnarstefna.

Jónas Kristjánsson

DV