Wikipedia er óskipuleg alfræðibók á vefnum, samin af ókeypis áhugafólki. Hún er orðin ein bezta heimildin á vefnum, mikið notuð af blaðamönnum. Þegar vel gengur, koma skemmdarvargar auðvitað á vettvang, búa til brenglaða texta til að hossa öðru og lasta hitt. Nú er svo komið, að stýrimenn Wikipedia eru að haga svo málum, að nýjar upplýsingar fari um nálarauga umsagnaraðila, áður en þau eru sett í alfræðibókina. Áður hafði ákveðnum skráningum verið lokað til að hindra skemmdarvarga í verki. Hætt er við, að sjálfboðavinna við gerð Wikipedia dofni eftir breytinguna.