Öskjuleið

Frá Hrossaborg á Mývatnsöræfum um Herðubreiðarlindir að fjallaskálanum Dreka við Dyngjufjöll.

Fjölfarin sumarleið til nokkurra þekktra staða, Herðubreiðarlinda, Dyngjufjalla, Kverkfjalla og Gæsavatna. Herðubreiðarlindir eru margar og renna saman í Lindá. Þar er mikið blómaskrúð með nærri hundrað háplöntum. Einn fegursti staður landsins. Ólafur Jónsson segir: “Í Herðubreiðarlindun eru töfrar öræfa og eyðimarka dásamlega ofnir saman við klið svalandi linda og ilm af gróandi grasi.”

Byrjum við þjóðveg 1 um Mývatnsöræfi, rétt austan við Hrossaborg, í 380 metra hæð. Þar er jeppavegur suður í Öskju, sem við fylgjum. Fyrst um Grjót suður að Jökulsá á Fjöllum, suður að Ferjuási og meðfram honum vestanverðum, síðan vestan við Yztafell og aftur að Jökulsá norðan við Miðfell. Þar er fjallakofi. Við förum austan við Miðfell og Fremstafell að Grafarlöndum, þar sem við förum yfir Grafarlandaá. Síðan förum við vestan við Ferjufjall og um Grafarlönd austari að Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum í 470 metra hæð. Frá skálanum förum við áfram suður með Jökulsá. Þegar við nálgumst Hlaupfell, sveigir leiðin til vesturs að Herðubreiðartöglum. Við förum suður með töglunum austanverðum og síðan vestur yfir Vikursand fyrir sunnan Vikrafell. Þar sem við komum að Dyngjufjöllum, er fjallaskálinn Dreki í 780 metra hæð.

33,4 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Miðfellskofi: N65 23.630 W16 07.929.
Herðubreiðarlindir: N65 11.560 W16 13.390.
Dreki: N65 02.493 W16 35.710.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Péturskirkja.
Nálægar leiðir: Almannavegur, Veggjafell, Biskupaleið, Upptyppingar, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort