Össur Skarphéðinsson yrði fínn borgarstjóri í Reykjavík. Hann losnaði við steinbarn í maganum, þegar hann tapaði formannskjöri Samfylkingarinnar fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hann er farin að blogga ákveðið og skemmtilega og sýna önnur merki þess, að hann sé að finna sig að nýju.
Reykjavíkurlistinn þarf lausn á borð við hann til að halda borginni í byggðakosningum að ári. Undirbúningur mála af hálfu listans hefur verið í steik í sumar. Listinn hefur vikum saman verið í þeirri stöðu, að allar fréttir úr borginni eru vondar og verstar þær sem koma úr sáttanefnd.
Þeir Reykvíkingar, sem reyna að fylgjast með, hafa það á tilfinningunni, að minni háttar flokksjálkar séu í sátta- eða framboðsnefnd að reyna að búa til nýtt kerfi ráðamanna, sem tryggi hagsmuni hinna ýmsu eigenda Reykjavíkurlistans. Kjósendur hafa hins vegar ekki áhuga á þessum hagsmunum.
Allir hinir mörgu stjórar Reykjavíkurlistans bera ábyrgð á slæmri stöðu listans í mikilvægum máli, einkum þó á rugli í skipulagsmálum, sem virðist engan enda ætla að taka. Listinn getur ekki einu sinni breytt strætisvagnaferðum án þess að lenda í því klúðri að ná breytingunni ekki fram strax.
Frá því í vor hefur frumkvæði í umræðu um borgarmál verið í höndum Sjálfstæðisflokksins. Allt þetta samanlagt hefur leitt til þess, að fylgi Reykjavíkurlistans hefur sigið niður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Aðstandendur listans sjá, að þeir verða að standa saman til að tapa ekki borginni.
Lausnin er að fá mann að utan, einhvern sem er laus við ábyrgð á gerðum Reykjavíkurlistans á kjörtímabilinu, sem getur komið með nýja vinda og hagað málum þannig, að góðar fréttir fari að koma að nýju úr borginni. Reykjavíkurlistinn verður að endurfæðast með nýju blóði og með nýjum vindum.
Össur Skarphéðinsson er rétti maðurinn á þessum stað og tíma. Mjög auðvelt er að sjá hann fyrir sér sem borgarstjóra með reisn, sem gæti minnt á velmegtardaga Davíðs Oddssonar. Hann væri fínn í tækifærisræðum og hann ætti auðvelt með að halda hinum ýmsu örmum Reykjavíkurlistans á þægilegu snakki.
Ef ráðamenn listans líta upp úr sandkassanum, má þeim ljóst vera, að með einu höggi er hægt að sópa vandamálunum út af borðinu og sannfæra kjósendur um betri tíð með blóm í haga.
DV