Ósýnilegt gegnsæi

Punktar

Ég sé ekki gegnsæið, sem ríkisstjórnin grobbar af. Ég sé hins vegar, að hún hindrar fólk í að sjá greinargerð um orsakir hrunsins. Ég sé, að hún heldur leyndu, hverjir eiga jöklabréfin svonefndu. Ég sé, að skilanefndir bankanna halda leyndum samskiptum sínum við einangraða hópa fjárfesta. Í stað þess að hafa sölu eigna á opnum markaði. Ég sé, að stjórnin tekur ekki saman lista yfir pólitíkusa og kúlufólk, sem fengu skuldir afskrifaðar í bönkunum fyrir bankahrunið. Ríkisstjórnin er svo harðlæst í krumpuðu hugarfari leyndar, að draga varð þingsályktunaruppkast um Evrópuaðild upp úr henni með töngum.