“Óþolandi höfuðverkur”

Greinar

“Það getur ekki verið okkar höfuðverkur”, sagði formaður Stéttarsambands bænda fyrir nokkrum dögum í blaðaviðtali. Hann var að tala um, að ríkið er á þremur mánuðum búið að greiða milljarð ársins í útflutningsuppbætur og framleiðnisjóð landbúnaðar.

Rétt fyrir páska kom í ljós, að einungis voru eftir 30 milljónir af 550 milljónum, sem skattborgararnir áttu samkvæmt fjárlögum ársins að greiða til útflutningsuppbóta. Ennfremur kom þá í ljós, að eftir voru 90 milljónir af 500, sem áttu að fara til framleiðnisjóðs.

Til að endar nái saman á þessu ári í ríkisrekstri íslenzkrar sauðfjárræktar vantar 800 milljónir í viðbót. Formaður Stéttarsambands bænda telur, að skattgreiðendur eigi kost á að greiða aukafjárveitinguna á árinu eða taka hana að láni og borga á næstu árum.

En það er ekki höfuðverkur Stéttarsambandsins, hvernig þessar 800 milljónir verða fundnar og greiddar. Formaðurinn bendir á, að ríkið hafi gert samning um að tryggja landbúnaðinum sölu á föstu magni af kindakjöti. Raunar nær tryggingin líka til verðs kjötsins.

“Það er óþolandi”, segir formaðurinn um þá ósvinnu, að ríkið er farið að safna upp ógreiddum birgðum af kindakjöti, sem búizt er við, að nemi um 2.400 tonnum í lok verðlagsársins. Þá hefst ný slátrun, sem mun fela í sér 1.500 tonna offramleiðslu kindakjöts til viðbótar.

Samningurinn, sem vísað er til, var eitt síðasta verk núverandi landbúnaðarráðherra, þegar hann var landbúnaðarráðherra næstu ríkisstjórnar á undan þessari. Hann samdi þá við landbúnaðinn um ríkisábyrgð á offramleiðslu hans heil fjögur ár fram í tímann.

Með þessu setti Jón Helgason þjóðina og núverandi ríkisstjórn í skuldafangelsi. Lítið er hægt að gera til að byggja upp þjóðfélagið á því kjörtímabili, sem nú stendur, af því að allt fé, sem tiltækt er, og meira til, er frátekið til að borga samninginn við landbúnaðinn.

Komin er hefð á, að ráðherra og ráðuneyti landbúnaðar gæta ekki hagsmuna ríkisins, heldur landbúnaðarins. Raunar er ráðuneytið helzti málsvari landbúnaðarins. Samningurinn illræmdi frá í fyrra var í raun samningur landbúnaðarins við sjálfan sig.

Í ráðuneyti og öðrum stofnunum landbúnaðarins hafa frá ómunatíð verið smíðaðar áætlanir, sem kerfisbundið gera ráð fyrir meiri neyzlu landbúnaðarafurða en síðan reynist verða. Í að minnsta kosti aldarfjórðung hefur ekki verið hlustað á aðvaranir óháðra aðila.

Reynt er að halda neyzlunni uppi með því að láta yfirdýralækni banna innflutning samkeppnisvöru á borð við kjöt og smjör og með því að setja fjallhá gjöld á innlenda samkeppnisvöru, svo sem kjúklinga og svínakjöt. Samt torga Íslendingar ekki öllu því, sem spáð er.

Ef ríkið hætti þessum afskiptum, sparaðist nægur gjaldeyrir í aðföngum landbúnaðar til að mæta auknum innflutningi búvöru. Ennfremur lækkaði matvöruverð og kaupmáttur neytenda ykist verulega. Loks spöruðu ríki og skattgreiðendur sex milljarða króna á ári.

Kerfið er samt ekki afnumið, heldur fært nær því að verða sjálfvirkt. Landbúnaðurinn fær fyrst sitt, sem er það, er hann hefur samið um við sjálfan sig. Síðan fær þjóðfélagið afganginn, ef einhver er. Þetta er þrælahald nútímans á Íslandi, ákveðið til fjögurra ára í senn.

Ef ríkið sligast svo undir byrðunum, að það borgar ekki í grænum hvelli, er ástandið “óþolandi” að mati bændastjóra, enda hafna þeir slíkum “höfuðverk”.

Jónas Kristjánsson

DV