Mesti ólukkufugl íslenzkra þjóðmála, Framkvæmdastofnun ríkisins, var tæplega búin að þurrka blekið af ábyrgð sinni á kaupum hins fáránlega Þórshafnartogara, þegar hún tók nýja og varanlega ábyrgð á hinni enn fáránlegri Olíumöl hf.
Stjórnmálamenn hafa rekið þetta fyrirtæki á vegum sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi og keyrt það í margfalt gjaldþrot með svo ótrúlegri óráðsíu, að henni mundi enginn útlendingur trúa, ekki einu sinni Friedman hagfræðingur.
Gjaldþrotameðferð Olíumalar hf. hefði jafngilt endalokum stjórnmálaferla og persónulegum fjárhagsskaða. Sverrir Hermannsson, yfirsósíalisti Íslands, þarf að bjarga flokksbróður sínum, Ólafi G. Einarssyni, formanni þingflokks sjálfstæðismanna.
En í stað hins illskárra, að gefa einum manni eitt hús, er málið leyst með því að taka ónýtt og vonlaust fyrirtæki upp á arma ríkisins og reka það hér eftir á kostnað skattgreiðenda. Með því verður tjónið margfaldað endalaust inn í framtíðina.
Framþróun úti í heimi hefur gert blöndunarstöðvar og olíustöð Olíumalar hf. úreltar. Þetta eru 12-14 ára gamlar stöðvar og væru komnar í brotajárn, ef þær hefðu verið reknar í nágrannalöndunum. Með lagi má líklega láta þær skarka í örfá ár enn.
Fyrir þessar verðlausu eignir, sem eru bókfærðar út í loftið, lætur Framkvæmdastofnun ríkisins af hendi tvær milljónir nýkróna í hlutafé og breytir hálfrar milljónar nýkróna skuldum í hlutafé. Hvort tveggja er fé skattgreiðenda.
En þetta er ekki nóg. Til viðbótar lánar Framkvæmdastofnunin þessu gæludýri sínu aðrar skuldir upp á rúmlega hálfa þriðju milljón nýkróna og veitir því nýtt lán upp á eina milljón nýkróna, einnig á kostnað skattgreiðenda.
Staðan er nú þannig, að Framkvæmdastofnun ríkisins á 43% í Olíumöl hf., ríkið sjálft 23%, Útvegsbanki ríkisins 20% og Norsk Fina 14%. Öll sveitarfélög og allir einkaaðilar hafa hlaupið í burtu eins og lífið ætti að leysa.
Samkvæmt rekstrarspám þarf markaður fyrirtækisins að nema 50 þúsund tonnum olíumalar fyrsta árið og 80 þúsund tonnum á ári eftir það. Þetta þýðir, að nú byrja hinir opinberu eignaraðilar að reyna að kvelja vegagerðina til olíumalarkaupa.
Vegagerðin hefur í nokkur ár gert tilraunir með svokallaða klæðningu á vegi á nokkrum stöðum. Fyrst varð útkoman nokkuð misjöfn, en síðan hefur árangur verið nokkuð jafn og góður. Því hefur klæðning vikið olíumöl til hliðar.
Klæðningin er miklum mun ódýrari en olíumöl og ætti að gera okkur kleift að fá bundið slitlag umhverfis allt land miklu hraðar en hingað til hefur verið álitið mögulegt. Svigrúmið milli klæðningar og malbiks til lagningar olíumalar er því lítið.
En stjórnmálamennirnir, sem ráða ferðinni, verða varla í vandræðum með að útvega Olíumöl hf. viðskipti með því að knýja vegagerðina til of dýrs slitlags og þá af fjárhagsástæðum á styttri kafla en ella hefði orðið.
Bandamaður Sverris Hermannssonar í þessu óþrifamáli er Ragnar Arnalds fjármálaráðherra, sem þykist þurfa að bjarga óráðsíumönnum í hópi flokksbræðra sinna í Kópavogi. Sósíalistarnir eru eins, í hvaða flokki sem þeir standa.
Handlangarar þeirra félaga eru svo sósíalistarnir Matthías Bjarnason, Steinþór Gestsson, Eggert Haukal, allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmenn Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þeir hafa lyft 32 milljón nýkróna óreiðu á bak okkar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið