Ef Morgunblaðið og siðanefnd Blaðamannafélagsins væru ráðandi öfl í Kaliforníu, hefði ekki verið sýnd í sjónvarpi mynd af barsmíðum, sem Rodney King hlaut af hálfu lögreglumanna. Ofbeldið hefði ekki komizt í hámæli og engan hefði þurft að sýkna af því.
Í heimi hræsninnar, Morgunblaðsins og siðanefndarinnar er talin ástæða til að átelja, að fjölmiðlar skuli hafa myndað og hljóðritað, þegar barnaverndarnefnd og lögregla gerðu aðför að ellefu ára dreng í Sandgerði og handtóku hann með valdi fyrir alls engar sakir.
Í þessum heimi hræsninnar kemur Morgunblaðið fram sem umboðsmaður barnaverndaryfirvalda, enda eru bæði ný og söguleg persónutengsli þar á milli. Af þessum ástæðum segir blaðið ekki frá mistökum slíkra yfirvalda, nema það sé í Tyrklandi eða Rúmeníu.
Þegar barnaverndarnefndir og lögregla handtaka ellefu ára dreng með þeim hætti, sem varð í Sandgerði, er nauðsynlegt að fjölmiðlar sýni á ljóslifandi hátt, hvílík vanvirða er á ferðinni. Ef þeir gera það ekki, er hætt við, að fólk haldi, að allt sé með felldu.
Það er ekki nýtt, að barnaverndarnefndir lendi í afglöpum af þessu tagi. Af kærumálum Barnaverndarráðs á hendur fjölmiðlum má ráða, að framvegis verði fréttir af slíkum afglöpum kærðar til siðanefndar Blaðamannafélagsins, þar sem úrskurðað verður á færibandi.
Siðanefndin er önnur stofnun, sem á langa afglapasögu að baki. Blaðamaður, sem vill vinna heiðarlega að starfi sínu samkvæmt stöðlum, sem tíðkast í löndum, þar sem blaðamennska á bezta sögu, getur ekki tekið mark á þessari siðanefnd, sem er út úr miðaldakú.
Ísland er þjóðfélag í þróun. Mjög algengt er, að réttum yfirvöldum verði á mistök í starfi, ekki síður í viðkvæmum málum en hversdagslegum. Það er hluti í ferli slíks þjóðfélags, að fjölmiðlar skýri bæði í máli og myndum frá slíkum mistökum, svo að fólk viti af þeim.
Ef opinberar stofnanir, hvort sem þær heita Barnaverndarráð eða Hæstiréttur eða Staðarhaldari í Viðey, ganga fram með þeim hætti, að vakið geti undrun almennings, er brýnt, að upplýsingar um slík mál liggi á lausu, en séu ekki þaggaðar niður af öflum hræsninnar.
Barnaverndarráði og umboðsblaði þess er auðvitað illa við, að dagblað sýni mynd af handtökuofbeldi barnaverndaryfirvalds og að útvarp láti fólk heyra grát ellefu ára drengs. En glæpurinn er ekki sögumanns frekar en fyrri daginn, heldur skipuleggjenda verknaðarins.
Fjölmiðlum ber að láta Barnaverndarráð, Morgunblað og siðanefnd ekki kúga sig í slíkum málum. Sameinuð framganga hræsnara ætti fremur að gefa fjölmiðlum tilefni til að fylgjast betur en áður með óvönduðu starfi sumra barnaverndarnefnda og Barnaverndarráðs.
Ekki er síður brýnt, að blaðamenn fari að gefa því betri gætur, hver saga siðanefndar er orðin. Í fleiri málum en þessu hefur hún komið fram sem verndari hræsninnar og kerfisins í þjóðfélaginu. Hún gat raunar um langt skeið notað Garra Tímans sem nefndarmann.
Blaðamenn eiga hvorki að hafa reglur né lögreglunefnd, sem stuðla að þögn um afglöp og aðrar uppákomur einstakra þátta stjórnkerfisins. Það er arfur frá þeim tíma, er sumir blaðamenn vildu taka þátt í fínimannsleik kerfisins og töldu sig meðal “heldra fólks”.
Uppákoma Barnaverndarráðs, Morgunblaðsins og siðanefndar er nýtt dæmi um anga af gömlum vanda, sem felst í, að sögumanni er kennt um ótíðindi.
Jónas Kristjánsson
DV