Ótímabær gestur

Greinar

Nú er ekki rétti tíminn til að taka með viðhöfn á móti nýjum sendiherra Ísraels á Íslandi, sem á að afhenda trúnaðarbréf á miðvikudaginn. Oft hefur Ísrael gengið fram af okkur, en aldrei eins og þessa síðustu daga, þegar herinn þar í landi gerir árásir á sjúkrabíla og hindrar umönnun slasaðra.

Ísland hefur að vísu diplómatískar skyldur gagnvart ríkjum í stjórnmálasambandi. En hægur vandi er að fresta um óákveðinn tíma ýmsum formsatriðum til að sýna milda útgáfu af óánægju með framvinduna í stefnu Ísraels gagnvart þrautkúgaðri þjóð á hernumdu svæðunum.

Ekki er síður óviðkunnanlegt að halda um þessar mundir ráðstefnu í Reykjavík um ferðalög til Ísraels. Hvað á sýna ferðamönnum, hvernig Ísraelsher myrðir sjúkraliða í Betlehem eða allar hinar hundrað tegundir brota Ísraels á Genfarsáttmálanum um meðferð hernumins fólks?

Íslendingum er þetta einkar sorgleg framvinda, því að sú var tíðin, að sérstaklega gott samband var milli þjóðanna. Þá var ástæða til að taka vel á móti sendiherrum Ísraels og mæta á ráðstefnur til að skipuleggja ferðir fólks um sögustaði biblíunnar. Sá notalegi tími er liðinn fyrir löngu.

Um langt skeið hefur Ísrael verið að breytast í æxli, sem ógnar heimsfriðnum. Í skjóli neitunarvalds Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, sækir Ísrael óþvingað fram með sífellt fjölbreyttari brotum á Genfarsáttmála, sem Ísrael og Bandaríkin hafa raunar ritað undir.

Þetta er ekki verk einnar ríkisstjórnar Ísraels, heldur hefur æxlið vaxið á löngum tíma. Þjóðin þar í landi ber ábyrgð á stjórnarskrá sinni, sem heimilar pyndingar, og stjórnmálamönnum sínum, sem sækja sér fylgi með því að láta skýrt koma fram, að þeir líti á Palestínumenn sem hunda.

Ástandið hefur hríðversnað, síðan Ísraelsmenn völdu sér Ariel Sharon sem forsætisráðherra, af því að hann lofaði að sýna Palestínumönnum í tvo heimana. Það hefur alltaf verið stefna Sharon að efla byggðir ísraelskra landtökumanna og hindra samningaviðræður með hörðum skilyrðum.

Frá upphafi hefur það líka verið stefna núverandi ríkisstjórnar að reyna að kúga Palestínumenn til hlýðni með því niðurlægja þá sem allra mest og eyðileggja efnahagslíf þeirra. Nú hefur ofbeldið verið hert og Sharon segir opinberlega, að drepa verði Palestínumenn, unz þeir hlýði.

Stefna ríkisstjórnar Ísraels og forvera hennar er ein helzta forsenda hatursins á Vesturlöndum, sem oft brýst út í löndum íslams og mælist skýrt í skoðanakönnunum. Alvarlegasta birtingarmynd þessa haturs eru tilraunir múslima til að fremja hryðjuverk á Veturlöndum í hefndarskyni.

Hatur múslima á raunar eingöngu að beinast að Bandaríkjunum, því að þau bera ein fjárhagslega, hernaðarlega og pólitíska ábyrgð á Ísraelsríki. Í skjóli ofurvalds Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi eru Palestínumenn drepnir með bandarískum vopnum fyrir bandarískt gjafafé.

Því miður gefur Evrópa líka höggstað á sér með því að taka Ísrael inn í evrópskan ríkjahóp á ýmsum sviðum. Ísland hefur gengið skrefinu lengra með stuðningi við Ísrael eða hjásetu í fjölþjóðlegum atkvæðagreiðslum. Þennan óbeina stuðning Íslands þarf að stöðva þegar í stað.

Íslendingar mega ekki taka neina óbeina ábyrgð á krabbameini Miðausturlanda, sem mest ógnar heimsfriðnum um þessar mundir, og allra sízt láta ferðaskrifstofur ginna sig til ófriðarsvæða.

Kristjánsson

FB