Ótímabær öskustó.

Greinar

Uppgjöf og vonleysi gera vart við sig í sjávarútvegi um þessar mundir. Sumpart stafar þetta af vantrú á, að stjórnvöld dragi úr millifærslum frá sjávarútvegi til annarra þarfa í þjóðfélaginu. Vegur þar þyngst, að ríkisstjórnin er andvíg markaðsgengi á erlendum gjaldeyri.

Þótt stjórnvöld skipuleggi taprekstur í sjávarútvegi, eru í greininni enn til fyrirtæki, sem rekin eru með hagnaði. Það bendir til, að svartsýnin sé meiri en efni standa til. Fleiri forstjórar gætu tekið sér tak og náð fyrirtækjum sínum upp úr taprekstri og annarri eymd.

Sjávarútvegurinn er almennt séð of íhaldssamur um þessar mundir. Hann hefur glatað forustunni í hagkvæmni, sem hann hafði í alþjóðlegum samanburði fyrr á tímum. Hann er of seinn að tileinka sér nýjungar í tækni og rekstri, hráefni og afurðum.

Fyrr á þessu ári leiddi athugun í ljós, að dönsk fiskvinnsla keypti fiskinn á 40 krónur á meðan hin íslenzka keypti hann á 18 krónur. Á sama tíma greiddi danska fiskvinnslan 260 krónur á tímann í kaup, en hin íslenzka 126 krónur. Samanlagt stóðu Danir sig fjórum sinnum betur en við.

Tilraunir talsmanna frystiiðnaðarins til að útskýra þennan hrikalega mun hafa ekki verið sannfærandi. Ormatínslan, sem kostar okkur um hálfan milljarð króna árlega, skýrir ekki nema lítinn hluta þessa. Og skortur á sérhæfingu fiskvinnslustöðva er engin afsökun.

Þeir, sem kaupa íslenzkan gámafisk og annan ísfisk á markaði í Bretlandi, eru oft að sækjast eftir ákveðinni fisktegund af ákveðinni stærð, sem hentar nákvæmlega hinni sérhæfðu vinnslu þeirra. Þeir láta sig ekki muna um að aka fiskinum nokkurhundruð kílómetra.

Víða um land hagar hér svo til, að forstjórar fiskvinnslustöðva gætu komið upp sérhæfingu. Svo er til dæmis í Eyjafirði, utanverðu Ísafjarðardjúpi og á norðanverðu Snæfellsnesi, svo ekki sé talað um allt suðvesturhornið frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur.

Ef akstur með fisk er tiltölulega ódýr í samanburði við hagnaðinn af sérhæfingu, er sjálfsagt fyrir íslenzka fiskvinnslustjóra að læra af erlendri reynslu, hætta að líta á sína stöð sem eina í heiminum og hefja samstarf sín í milli um sérhæfan og arðsaman rekstur.

Markaðsverð á fiski við löndun er aðferðin, sem erlendir keppinautar okkar nota til að ná árangri á þessu sviði. Hér á landi er of lítið hlustað á þá, sem mæla með fiskmarkaði í stað núverandi nefndarákvörðunar á fiskverði. Þetta er dæmi um íhaldssemi sjávarútvegsins.

Heldur betur hefur útgerðinni gengið að feta sig á braut nýjunga. Stöðugt fjölgar frystitogurum. Þeir eru reknir með örlitlum hagnaði á sama tíma og aðrir eru reknir með dúndrandi tapi. Þetta er ein leið af mörgum til að mæta andúð ríkisvaldsins á sjávarútvegi.

Þá er fólk smám saman að átta sig á, að ferskur fiskur er verðmætari en frystur, þótt enn vaði stjórnmálamenn í villu og svima og kvarti um, að “óunninn” fiskur sé fluttur úr landi. Sú kvörtun er raunar jafnvitlaus og fullyrðingin um, að markaðsgengi henti ekki sjávarútvegi.

Ýmis önnur atriði gætu orðið til framfara svo sem endurfrysting í landi, nýting á slógi, lifur og marningi, beiting enzyma, skelfrysting rækju og veiði krabbategunda. Þótt ríkisvaldið sé sjávarútveginum harðdrægt um þessar mundir, er ekki ennþá ástæða til að leggjast í öskustó.

Jónas Kristjánsson.

DV