Ótraust miðlungsveldi

Greinar

Ósigur Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í nýjustu slagsmálunum við Saddam Hussein Íraksforseta er meiri en talið var í fyrstu. Hussein hefur tekizt að þurrka út njósna- og undirróðursstarfsemi bandarísku leyniþjónustunnar í bænum Arbil á verndarsvæði Kúrda.

Bandaríska leyniþjónustan hafði eytt meira en milljarði króna í þjálfun hundrað manna liðs og fullkominn tækni- og tölvubúnað. Hussein hefur náð búnaðinum á sitt vald og látið taka alla málaliða Bandaríkjanna af lífi. Bandaríkin eru aftur á upphafsreit í Íraksmálinu.

Sézt hefur, að her Íraka er orðinn öflugur á nýjan leik og er aftur orðinn hættulegur umhverfi sínu. Hussein er aftur orðinn ráðandi afl á verndarsvæðum Kúrda. Raunar hafði bandaríska hermálaráðuneytið ýkt tjón Írakshers í Persaflóastríðinu fyrir fimm árum.

Mestur ósigur Bandaríkjanna felst í að hafa skilið menn sína eftir til að deyja drottni sínum. Með því sendir Clinton Bandaríkjaforseti þau skilaboð til stuðningsmanna á hættulegum svæðum, að þeir hafi ekkert bakland hjá sér. Griðasvæði þeirra séu einskis virði.

Bandaríkin gengu að vísu lengra en bandamenn þeirra og skutu nokkrum sprengjum út í loftið til málamynda. Margir bandamenn voru ósáttir við aðgerðina og töldu betra að hafa ekki afskipti af málinu. Fremst var þar í flokki franska stjórnin, sem vill viðskipti við Írak.

Munurinn á Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra, einkum Bretlandi og Frakklandi, er þó sá, að síðarnefndu ríkin eru fyrir löngu hætt að vera heimsveldi. Þau gera ekki kröfu til þess. Þau hafa hins vegar reynt að vera evrópsk veldi, með hrapallegri niðurstöðu í Bosníu.

Umheimurinn er hættur að taka sérstakt mark á Bretlandi og Frakklandi sem evrópskum veldum. Þau eru bara orðin lönd eins og önnur lönd. En Bandaríkin urðu eina vestræna heimsveldið eftir síðari heimsstyrjöldina og eftir fall Sovétríkjanna urðu þau eina heimsveldið.

Að undanförnu hafa Bandaríkin verið að afsala sér þessum völdum. Það gerist af sjálfu sér, þegar ríki láta innanríkismál hafa forgang yfir utanríkismál. Bandaríkjamenn hafa gerzt innhverfir sem þjóð á undanförnum árum og vilja minna en áður af umheiminum vita.

Hver, sem vill, stendur uppi í hárinu á Bandaríkjunum. Ríki neita að lúta frumkvæði þeirra og beita gagnaðgerðum, er Bandaríkin hyggjast refsa útlendum fyrirtækjum fyrir að lúta ekki pólitískum vilja Bandaríkjanna í viðskiptum. Þetta magnar bandarísku innhverfuna.

Bandarískir kjósendur eru raunar áhugalitlir um utanríkismál og vilja ekki, að forsetar sínir séu of uppteknir af þeim. Þeir eru ánæðgir með Clinton, sem hefur alls enga stefnu í utanríkismálum aðra en þá að láta þau ekki trufla gang stjórnmálanna innanlands.

Clinton er hins vegar með gott lið markaðs- og ímyndunarfræðinga. Með hjálp þess hefur honum tekizt að telja kjósendum trú um, að hann sé fastur fyrir í utanríkismálum og hafi tök á þeim málaflokki. Kjósendur eru til dæmis ánægðir með sýndarsprengingarnar á Persaflóa.

Clinton sendi herlið til Bosníu til að blekkja kjósendur og dregur það senn til baka til að blekkja kjósendur. Hann lét sprengja til málamynda á Persaflóa til að blekkja kjósendur. Gerðir hans í utanríkismálum lúta hagsmunum hans í innanríkismálum á hverjum tíma.

Clinton hefur rýrt möguleika Bandaríkjanna til áhrifa á erlendum vettvangi hraðar en nokkur annar forseti. Hann hefur gert Bandaríkin að ótraustu miðlungsveldi.

Jónas Kristjánsson

DV