Ótrygg framtíð íslenzku

Greinar

Ungu fólki er enska töm, enda er hún allt í kringum okkur. Unglingarnir hafa alizt upp við hana í textuðum kvikmyndum og alþýðutónlist. Margt ungt fólk getur beinlínis hugsað á ensku og þar með náð þeim tökum á málinu að geta talizt reiprennandi enskumælendur.

Þetta er sumpart gott og að minnsta kosti hagkvæmt. Enska er orðin alþjóðatunga heimsins, lykill að viðskiptum og öðrum samskiptum milli landa. Færir enskumenn hafa betri aðgang að þessum mikilvæga samskiptaheimi en hinir, sem stirðmæltir eru á alþjóðatungumálið.

Enska er beinlínis móðurmál fólks í ríkjum í öllum álfum. Það er arfur frá tímum brezka heimsveldisins. Þar við bætast yfirburðir Bandaríkjanna í alþjóðastjórnmálum, alþjóðlegri fjölmiðlun og í alþjóðlegum skemmtiiðnaði. Bandarískir leikarar eru viðmiðunartákn.

Þær þjóðir, sem lengst ganga í vörn gegn linnulausu áhlaupi enskunnar, eru gömul stórveldi á borð við Frakkland og Þýzkaland, sem til dæmis láta talsetja bandarískar kvikmyndir. Þetta veldur því, að leikni í ensku er lakari í þessum löndum en í hinum, sem minna mega sín.

Íslenzk stjórnvöld hafa ekki tekið upp jafn harða afstöðu og frönsk og þýzk, enda þarf stóran markað til að standa undir talsetningu kvikmynda. En á sumum sviðum hafa landsfeðurnir gert minna af því að halda uppi vörnum en starfsbræður þeirra í öðrum smáríkjum.

Sem dæmi um þetta má nefna, að Innkaupastofnun ríkisins og menntaráðuneytið hafa árum saman látið viðgangast að til notkunar í skólum landsins sé mælt með stýrikerfi og algengum hugbúnaði á ensku, þótt nóg framboð sé af slíku á íslenzku og mikið notað.

Eðli málsins samkvæmt er það fremur ritmálið en talmálið, sem á erfitt uppdráttar. Töluverð gjá er milli þessara tveggja útgáfna tungumálsins, af því að ritmálið hefur breyzt hægar en talmálið og raunar verið fryst í eldra formi. Ritmálið vefst fyrir sífellt fleirum.

Önnur gjá er að myndast milli þeirra, sem kunna í stórum dráttum að nota íslenzkt ritmál og eru óhræddir við að nota það, og hinna, sem eiga erfitt með það og forðast því að láta texta frá sér fara. Að þessu leyti er til undirstétt, sem fer sífellt stækkandi.

Vegna fámennis þjóðarinnar, yfirburðastöðu enskunnar í umhverfinu og mikilla utanríkisviðskipta og -samskipta á íslenzk tunga í vök að verjast. Það er neikvæða hliðin á innrás enskunnar í samfélagið hér á landi. Með sama áframhaldi leggst íslenzka niður.

Þetta kann að vera svartsýni. En staðreyndir líðandi stundar eru ljósar. Enska sækir á og íslenzka víkur sess. Engin merki eru á lofti um marktækt viðnám af hálfu íslenzkumanna og menningarvita, menntaráðuneytisins eða annarra yfirvalda. Nema smíði nýyrða.

Þótt íslenzka sé nokkuð fornt mál, hefur áhugamönnum tekizt að búa til íslenzkan orðaforða á flestum nútímasviðum. Þannig tölum við um síma, þotur og tölvur með góðum árangri. Í verkfræði og tölvutækni eru til íslenzk orð yfir flest hugtök, sem mestu máli skipta.

Afrek nýyrðasmiða sýna, að efnislega er íslenzka hæf til að vera nútímamál á tækni-, tölvu- og samgönguöld. Það er ekkert, sem kemur í veg fyrir, að íslenzka geti haldið áfram að blómstra, nema áhugaskortur þjóðarinnar og þeirra, sem eiga að gæta hagsmuna tungunnar.

Tími er kominn til að stinga við fótum og snúa málum í þann farveg, að íslenzka geti áfram lifað góðu lífi á þessari eyju við hlið alþjóðatungumálsins.

Jónas Kristjánsson

DV