Ótrygg matvörusamkeppni

Greinar

Verðsamkeppni í matvörum er of lítil hér á landi. Yfirleitt eru stórmarkaðir með svo jafnt verð, að það minnir á fáokun olíufélaganna. Þetta eru ekki nýjar fréttar, en þær hafa rækilega verið staðfestar í nýrri verðkönnun Neytendasamtakanna og verkalýðsfélaganna.

Niðurstöðurnar eru mjög svipaðar þeim, sem komu fram í verðkönnun DV í upphafi þessa árs. Keðjuverzlanir og beztu kaupfélög eru í hnapp á verðbili, sem nær frá 91% af meðalverði upp í 95% af meðalverði. Í þessum hópi eru 10-11 búðirnar, Hagkaup og Nóatún.

Ljósi punktur könnunarinnar er Bónus sem fyrr. Matvörðuverðið er þar 73% af meðalaverði. Raunar er mjög ánægjulegt, að helmingseign Hagkaups að Bónusi hefur ekki dregið úr samkeppni þessara aðila. Það hefur til dæmis komið skýrt fram í lyfjabúðakeppni þeirra.

Þetta er hins vegar ótryggt ástand, sem gæti breytzt fyrirvaralítið. Verzlunin, sem heldur niðri matvöruverði, er bara ein. Öruggara fyrir neytendur væri, ef Bónus hefði samkeppni annarra verzlunarkeðja, sem einnig legðu áherzlu á einfalda þjónustu og lágt verð.

Ástandið er raunar eins og það var fyrir nokkrum áratugum, þegar Hagkaup var sér á parti á matvörumarkaðinum og gerði meira fyrir almenning en samanlögð stéttarfélög landsins. Ekkert hefur gerzt annað en að Bónus hefur tekið að sér sparnaðarhlutverkið.

Auðvitað er gott að hafa eina verzlun, sem fórnar vöruúrvali og þjónustu til að koma matvöruverði niður í 73% af meðalverði. Það kemur hins vegar sífellt á óvart, að keðjuverzlanir, sem búa við hagkvæmni magninnkaupa, skuli ekki koma sínu verði neðar en í 91-95%.

Eðlilegt væri, að hér á landi væru til keðjuverzlanir, sem ekki fórnuðu vöruúrvali eða þjónustu, en næðu samt vöruverði, sem næmi innan við 90% af meðalverði smásöluverzlana. Þær gætu það með magninnkaupum sínum og beinum viðskiptum við framleiðendur.

Athyglisvert er við könnun þessa og fyrirrennara hennar, að kaupmennirnir á horninu standa sig tiltölulega vel miðað við stórverzlanir og keðjuverzlanir. Margir kaupmenn eru með um 105% af meðalverði án þess að eiga kost á magninnkaupum og beinum viðskiptum.

Einnig er athyglisvert, að ýmis staðbundin kaupfélög hafa bætt stöðu sína og standa jafnfætis keðjuverzlunum. Skagfirðingabúð kemst niður í 86% af meðalverði, Samkaup í Reykjaneskjördæmi í 91% og Kaupfélag Árnesinga í 94%, svo að nokkur þekkt dæmi séu nefnd.

KEA á Akureyri hefur sérstöðu, sem felst í að hafa þrjá verðflokka verzlana undir sama hatti. Þar er Nettó- búðin með 77% af meðalverði, Hrísalundur með 92% og venjulegar KEA-búðir með 101% af meðalverði. Eyfirðingar ná því nokkurri samkeppni undir sama hatti.

Engum kemur á óvart, að kaupmenn og kaupfélög á afskekktum stöðum, einkum á Vestfjörðum, skuli hafa hæsta verðið, 110-120% af meðalverði. Aðdrættir eru þar erfiðastir og markaðurinn minnstur. Þetta er einn þáttur herkostnaðarins af of mikilli dreifingu byggðar.

Í heild sýnir verðkönnunin töluverða samkeppni í matvöruverzlun. Verðsveiflan er frá 73% í 120% af meðalverði. Könnunin sýnir líka, að ódýri kanturinn hvílir of mikið á úthaldi og áræði eins kaupmanns. Loks sýnir hún, að keðjuverzlanir eru of miðlægar í verði.

Matvöruverzlun snýst auðvitað um fleira en verðlagið eitt. Það er samt mikilvægasti þátturinn, af því að það hefur veruleg áhrif á lífskjör almennings í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV