Ótti og skelfing
Það, sem við köllum hryðjuverk, kalla flestar evrópskar þjóðir terrorisma. Íslenzka orðið nær aðeins hluta hins vestræna innhalds orðsins, hluta af vopnabúri terrorista. Markmið þeirra eru ekki hryðjuverkin sjálf, heldur óttinn og skelfingin, sem stafar af ítrekuðum ógnunum terrorista.
Mikill þýðingarvandi af þessu tagi stafar sumpart af orðafæð íslenzkrar tungu og sumpart af leti þeirra, sem snara erlendum fréttum á íslenzku. Til dæmis lýsa þeir vegakorti friðar í Miðausturlöndum sem vegvísi. En vegvísir er allt annað en vegakort og skekkir upphafshugtakið “road map”.
Vegna notkunar íslenzka orðins hryðjuverk fyrir hugtakið terrorisma hættir okkur til að telja sjálfum okkur trú um, að markmið svonefndra hryðjuverkamanna sé að fremja hryðjuverk. Við skiljum ekki, að markmiðið er að framkalla hughrif og gagnaðgerðir, sem þjóna hagsmunum terrorista.
Ef frá eru taldar ýmsar ríkisstjórnir eru Al Kaída skelfilegustu ógnarsamtök nútímans. Þau dafna frá degi til dags og nærast mest á aðgerðum Bandaríkjanna gegn ýmsum ríkjum Íslams og eindregnum stuðningi þeirra við Ísrael, róttækt hryðjuverkaríki, sem níðist á Palestínumönnum.
Bandaríkin einbeita sér ekki að Al Kaída með fjölbreyttum aðgerðum, sem hæfa andstæðingi, er kemur og fer eins og þjófur á nóttu. Í staðinn senda þau hefðbundinn her til að níðast á Írökum, sem ekki hafa árum saman haft nein gereyðingarvopn og höfðu engin samskipti við Al Kaída.
Osama bin Laden finnst ekki. Engu máli skiptir, hvort hann er lifandi eða dauður. Aðferðafræði hans þenst út með ógnarhraða. Hún er þegar farin að hafa umtalsverð áhrif á lífshætti Vesturlandabúa, einkum Bandaríkjamanna, sem sætta sig við, að ríki þeirra er að breytast í lögregluríki.
Gegn vilja alþjóðasamtaka flugmanna og fjölmargra ríkisstjórna verða vopnaðir vígamenn settir um borð í allar flugvélar, sem fljúga til og frá Bandaríkjunum. Fólk verður fyrir margvíslegum óþægindum, sem ná hámarki í að vera fangelsaður árum saman án dóms og laga vegna misskilnings.
Varaforseti Bandaríkjanna faldi sig neðanjarðar vikum saman. Töluverður hluti þjóðarinnar hefur látið skelfinguna heltaka sig og sér óvini í hverju horni. Þetta notar ríkisstjórnin sér til að afla stuðnings við ofbeldi gegn umheiminum, sem leiðir til sívaxandi straums í raðir sjálfsmorðssveita.
Hér getum við lítið gert gegn vítahringnum annað en að reyna að forðast að láta terrorista komast upp með að sá ótta og skelfingu í hugsun og viðbrögð okkar og ráðamanna okkar.
Jónas Kristjánsson
DV