Óttinn við Tyrkjann lifir

Greinar

Blaðamaðurinn Nicholas Kulish segir í New York Times frá ferðum sínum um Úkraínu, þar sem lögreglumenn reyndu alls staðar að hafa af honum fé. Mútur voru heimtaðar af honum á klukkustundar fresti á þjóðvegum landsins. Þessi var staða landsins í sumar, eftir appelsínugulu byltinguna í vetur.

Kulish lýsir því, hvernig koman til Rúmeníu og Búlgaríu frá Úkraínu var eins og að koma út úr myrkrinu inn í ljósið. Í Rúmeníu og Búlgaríu eru stjórnvöld nefnilega önnum kafin við að reyna að koma málum sínum í nógu gott lag til þess að þau standist kröfur Evrópusambandsins um viðræður um aðild.

Hvergi var Kulish krafinn um mútur í Rúmeníu og Búlgaríu. Honum leið eins og hann væri í Vestur-Evrópu. Kulish notar samanburðinn við Úkraínu til að benda á, að von Tyrkja um aðild að Evrópusambandinu hefur leitt til mikilla framfara í landinu á síðustu árum. Þannig virkar Evrópusambandið.

Tyrkir hafa afnumið dauðarefsingu, leyft Kúrdum að nota sitt eigið tungumál, sett borgaralega stjórn á herinn, leyst pólitíska fanga úr haldi, afnumið tolla á iðnaðarvörum, mildað afstöðu sína til Kýpur og samþykkt samkeppnislög. Þeir eru á hraðri leið til vesturevrópsks þjóðskipulags.

Margt er enn eftir. Tyrkir þurfa að viðurkenna Kýpur, lina tök hersins á stjórnvöldum, hraða endurbótum í dómsmálum, sanna að mannréttindi séu á sama stigi og í Evrópu, minnka niðurgreiðslur í iðnaði, koma upp evrópskum reglum í heilsu og umhverfi, minnka verðbólgu og halla á ríkisrekstri.

Í þessari viku samþykkti Evrópusambandið að hefja viðræður við Tyrkland um aðild að Evrópu. Það stóð tæpt, af því að kynþátta- og trúarhatur ræður enn miklu í álfunni. Fremst stóð þar Austurríki, þar sem gömlu nazistarnir voru aldrei hreinsaðir. En Evrópusambandinu tókst að kúga Austurríki.

Miklir og erfiðir samningar við Tyrkland munu taka tíu til tuttugu ár. Allan þann tíma mun Tyrkland reyna að verða evrópskara. Gamlir dómarar verða reknir eða siðaðir til. Gamlir skriffinnar ríkisins verða reknir eða siðaðir til. Hætt verður að fangelsa fólk fyrir móðgun við Tyrkland.

Þótt ferlið virðist ófært í árslok 2005, mun hvert skref, sem Tyrkir stíga, færa landið nær Evrópu og færa íslam nær kristni. Óttinn við Tyrki mun vonandi sefast í Vínarborg.

DV