Óvinir bænda finnast

Greinar

Sauðfjár- og nautgripabændur eru að leita leiða til að losna úr ógöngum kerfis, sem byggt hefur verið upp með gífurlegum kostnaði til að vernda þá fyrir markaðslögmálum, en einkum þó til að byggja upp og viðhalda miklu bákni bændavina í ýmsum höllum Reykjavíkur.

Aðalfundir hagsmunasamtaka sauðfjárbænda og nautgripabænda að undanförnu hafa fjallað um margvísleg atriði, sem bændum eru að verða ljós fyrst núna, af því að þeir hafa of lengi talið gagnrýnendur vera óvini bænda og virkin í bændahöllum vera í sína þágu.

Glöggur sauðfjárbóndi fór til Skotlands og komst að raun um, að þar er sláturkostnaður lamba tæplega fjórðungur af því, sem hann er hér á landi; og að áburðarverð er þar helmingur af því, sem það er hér á landi. Þetta virtust aðalfundarmönnum vera nýjar fréttir.

Sláturkostnaður er hár hér á landi, af því að örlátt sístreymi almannafjár hefur verið notað til að byggja hallir fyrir vinnslu og dreifingu búvöru. Engin markaðslögmál hafa stjórnað kostnaði við rekstur þessarar starfsemi, heldur útreikningar í bændahöllum Reykjavíkur.

Áburðarverð er hátt hér á landi, af því að virkisverðir kerfisins í Reykjavík hafa komið upp áburðareinokun til verndar einstæðri áburðarverksmiðju, sem þeir reka meira eða minna eftir útreikningum um tekjuþörf, en þurfa ekki að reka eftir markaðslögmálum nútímans.

Dæmin um slátrun og áburðargerð eru angar af þeirri staðreynd, að fjáraustur í landbúnaði hefur að litlu leyti ratað til bænda, en að mestu brunnið upp í hátimbruðu kerfi, sem svokallaðir bændavinir hafa byggt upp til að stýra landbúnaði og til að vinna búvöru og dreifa henni.

Nú koma sauðfjárbændur á fund og ræða í fullri alvöru um, að frelsi eigi að ríkja í vinnslu og dreifingu búvöru. Sumir leggja jafnvel til, að komið verði upp búvörumarkaði til að lækka milliliðakostnað. Þetta er þungur áfellisdómur yfir bákninu í bændahöllunum.

Undanfarin ár hafa ríkið og báknið tekið saman höndum í afar dýrum auglýsingaherferðum til að reyna að koma í veg fyrir, að neytendur minnki kaup á dilkakjöti. Þetta hefur ekki tekizt. Sauðfjárbændur sjá því fram á mikinn niðurskurð á kvóta yfir alla línuna.

Bændur eru nú að byrja að sjá, að verndaða kerfið gerir þeim ókleift að komast að vilja markaðarins og að það seigdrepur þá raunar með minnkaðri eftirspurn. Þeir vilja brjótast í átt til frelsis, sem boðað hefur verið af þeim, sem kallaðir hafa verið óvinir bænda.

Nautgripabændur eru farnir að átta sig á, að neytendur hafa önnur sjónarmið en þeir, sem setja upp gæðamat og verðformúlur og halda að slík pappírsgögn geti leyst markaðsöflin af hólmi. Þeir eru að breyta forsendum flokkunarinnar, en miða þó enn við miðstýringu.

Öðru vísi væri um að litast í landbúnaði, ef gamalkunnug sjónarmið úr leiðurum DV hefðu ráðið ríkjum um langan aldur. Þá væru bændur í hefðbundnum búgreinum miklu færri en þeir eru, en þeir hefðu frjálsari hendur og vissu betur, hvers konar vörur rynnu út.

Í staðinn hafa ráðið ferðinni steindauð sjónarmið. Mikill árangur hefur náðst í að hafa fé af skattgreiðendum og neytendum, en jafnframt hefur orðið til verndað umhverfi, sem gerir bændum nánast ókleift að lifa af hægfara aðlögunargerðir af hálfu báknsins í Reykjavík.

Aðalfundir hagsmunasamtaka bænda benda til, að þeir séu að byrja að skilja, að hinir raunverulegu óvinir bænda eru á skrifstofum í bændahöllum Reykjavíkur.

Jónas Kristjánsson

DV