Óvinir þjóðarinnar

Greinar

Hér á landi hefur fólk á hverjum degi greiðan aðgang að tugum dagblaða af margs konar gerðum. Ef það sættir sig ekki við verð eða gæði innlendra dagblaða, getur það keypt útlend dagblöð í bókabúðum eða lesið úr þeim á netinu. Markaður dagblaða er frjáls hér á landi.

Ríkið leggur ekki stein í götu innfluttra dagblaða. Það skattleggur þau ekki umfram innlend dagblöð. Sami virðisaukaskattur er á erlendum og innlendum dagblöðum. Þetta ástand er kallað frjáls markaður og er almennt talið vera hornsteinn ríkidæmis Vesturlanda.

Þegar markaður er frjáls, þurfum við enga reiknimeistara til að segja okkur, hvort vara eða þjónusta sé of dýr eða ekki. Sjálfvirkni markaðarins finnur jafnvægi, sem er nærtækara og sanngjarnara en ákvarðanir þeirra, sem taka sér vald til að ákveða verðlag.

Um grænmeti eins og tómata og gúrkur gilda hins vegar ekki markaðslögmál eins og um dagblöð og flestar aðrar vörur. Tómatar og gúrkur njóta sérstakrar verndar ríkisvaldsins eins og aðrar garðyrkjuvörur sem og raunar aðrar afurðir innlends landbúnaðar.

Við getum hvorki valið milli innlendra og erlendra tómata né keypt innflutta tómata á tollfrjálsu verði eins og innflutt dagblöð. Það eru voldugir aðilar í landbúnaðarráðuneytinu og hagsmunasastofnunum landbúnaðarins, sem taka um þetta ákvarðanir fyrir okkur.

Ákveðið er að ofan, hvenær erlendir tómatar mega fást á Íslandi og hve miklir ofurtollar eru lagðir á þá. Þetta er angi af þeim fjötrum, sem stjórnmálamenn og aðrir hagsmunagæzlumenn landbúnaðarins hafa bundið íslenzkum neytendum og skattgreiðendum.

Þessi glæpsamlega iðja er þjóðhættulegri í grænmetisverzlun en í öðrum þáttum landbúnaðarins, af því að hún heldur niðri neyzlu á grænmeti, sem Íslendingar borða allt of lítið af samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum. Ríkið heldur þjóðinni frá neyzlu grænmetis.

Til að bæta gráu ofan á svart hindrar ríkið, að íslenzkir neytendur geti utan innlenda uppskerutímans neytt þess grænmetis, sem hollast er, það er lífrænt ræktaðs grænmetis. Slíkt grænmeti er dýrt í innkaupi og margfaldast svo í verði vegna ofurtolla ríkisins.

Með innflutningshöftum og ofurtollum á grænmeti spilla ráðamenn landsins heilsu landsmanna og magna upp ýmsa sjúkdóma. Forustuna hefur Guðmundur Bjarnason landbúnaðar- og umhverfisráðherra, sem hefur reynzt óvenjulega forhertur hagsmunagæzlumaður.

Ríkið er þessa dagana er að kikna undir kostnaði við sjúkrahús og aðra þætti veikindageirans. Það ætti að leggja áherzlu á forvarnir með því að tryggja algert markaðsfrelsi þeirra matvæla, sem bezt áhrif hafa á heilsuna, svo að ódýrt og gott grænmeti fáist allt árið.

Íslenzk garðyrkjusamtök hafa heimtað innflutningshöft og ofurtolla ríkisins og bera á þeim fulla ábyrgð. Þau bera jafnframt fulla ábyrgð á kostnaðaraukanum, sem þetta hefur valdið íslenzkum heimilum, og heilsutjóninu, sem stafað hefur af neyzlustýringu þessari.

Þeim hæfir vel að nota hluta af illa fengnum gróða til að framleiða nafnlausa auglýsingu, sem kastar ríkisreknum tómötum í þá framleiðendur, sem keppa við erlenda framleiðslu án nokkurra innflutningshafta eða tolla af hálfu ríkisins, það er að segja innlend dagblöð.

Ekki verður dregin fjöður yfir svívirðilegt ástand í vöruúrvali og verðlagi grænmetis af völdum samsæris stjórnmálamanna og garðyrkjusamtaka gegn þjóðinni.

Jónas Kristjánsson

DV