Óvinsæl ótíðindi

Greinar

Erfiðleikar lögreglunnar í samskiptum við almenning stafa af vandamálum, sem eiga rætur sínar hjá lögreglunni sjálfri, en ekki hjá fjölmiðlum, sem stundum segja frá þessum erfiðleikum. Fráleitt er að kenna sögumanni um atburði, sem hann skyldu sinnar vegna segir frá.

Skaftamálið rak á sínum tíma fleyg milli lögreglunnar annars vegar og hluta almenningsálitsins hins vegar. Hið nýlega Sveinsmál hefur breikkað gjána og aukið vantrú meðal fólks á lögreglunni. Í báðum tilvikum voru gerendur lögreglumenn, en ekki fjölmiðlungar.

Viðbrögð yfirstjórnar lögreglu eru yfirvegaðri og betri núna en þau voru áður. Horfin er hin skilyrðislausa vernd, sem fyrri lögreglustjóri veitti liði sínu, á hverju sem dundi. Núverandi lögreglustjóri hefur meiri tilhneigingu til að meta slík mál eftir aðstæðum.

Að vísu er óþægilegt, að lögreglumenn þeir, er nú síðast hafa varpað skugga á stéttina, eru skjólstæðingar lögreglustjórans, sem hann flutti með sér úr héraði, þegar hann tók við embætti. En viðbrögð hans við vandanum benda til, að hann átti sig á þeim mistökum.

Í öllum lýðræðisþjóðfélögum þarf lögreglan að skilja vandamál í samskiptum við þá, sem hún er ráðin til að vernda, það er að segja borgarana. Sums staðar hefur lögreglan haft frumkvæði að bættum samskiptum. Annars staðar ber hún höfðinu við steininn.

Fyrir nokkrum árum leiddi rannsókn brezkra lögregluyfirvalda í ljós, að ekki var mark takandi á vitnisburði lögreglumanna fyrir rétti, ef hann varðaði stéttarbræður þeirra. Ennfremur leiddi hún í ljós algenga fyrirlitningu lögreglumanna á smælingjum og sérvitringum.

Samt þykir brezka lögreglan hafa náð betri árangri í samskiptum við fólk en lögregla flestra landa. Rannsóknin, sem sagt er frá hér að ofan, dugði þó ekki til að hindra Stalker-málið, sem varpað hefur alvarlegum skugga á álit brezkra borgara á lögreglumönnum.

Stalker var einn helzti rannsóknalögreglumaður Bretlands, ofsóttur og beittur ljúgvitnum af lögreglumönnum og loks hrakinn úr starfi, þegar honum var falið að rannsaka meint mistök lögreglumanna og í ljós kom, að hann tók það hlutverk sitt alvarlega.

Stalker hefur síðan verið hreinsaður og þykir hafa staðið sig af miklum hetjuskap gegn sameinuðu fölsunarafli lögreglunnar. Hið sama er að segja um tvo norska fræðimenn, sem lentu í útistöðum við lögregluna í Björgvin, er verndaði ofbeldismenn í röðum sínum.

Eins og í Bretlandi kom í ljós í Noregi, að lögreglumenn lugu fremur fyrir rétti en að vinna gegn starfsbræðrum sínum. Þar kom einnig í ljós, að lögreglan sem stétt bar ábyrgð á, að hinir fáu ofbeldismenn stéttarinnar komust upp með að misþyrma varnarlausu fólki.

Viðbrögð íslenzkrar lögreglu voru mjög slæm í Skaftamálinu, en mun betri í Sveinsmálinu. Svo virðist sem yfirvegaðir lögreglumenn sjái nú betur en áður, að ekki er í þágu stéttarinnar, að haldið sé verndarhendi yfir skaphundum, sem ekki eiga erindi í starfið.

Samt er í þessu tvískinnungur. Öðrum þræði bölsótast yfirmenn í lögreglunni út af fréttum af slíkum málum. Þeir gagnrýna meðal annars, að fjölmiðlar séu of opnir fyrir alls kyns umkvörtunum á hendur lögreglunni, og séu jafnvel neikvæðir í umfjöllun sinni.

Orkan, sem fer í að kenna sögumanni um ótíðindin, kæmi að meira gagni í virkari aðgerðum lögreglunnar til að hreinsa til í stéttinni og aga hana betur.

Jónas Kristjánsson

DV