Óvís vermir í vaskinum

Greinar

Flokkspólitískum dagblöðum og héraðsblöðum getur orðið skammgóður vermir að skiptum á jöfnu milli virðisaukaskatts og aukins ríkisstyrks. Eins og aðrir skattar verður vaskurinn ekki aftur tekinn, þegar hann er einu sinni kominn, en ríkisstyrkurinn er afar ótryggur.

Ríkisstyrkur til flokkspólitískra blaða ræðst af pólitískum valdahlutföllum hverju sinni. Ef Sjálfstæðisflokkurinn fær meirihlutafylgi í stíl við skoðanakannanir, er hætt við, að hann framkvæmi stefnu sína og leggi niður ríkisstyrki blaða, en sennilega ekki vaskinn.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn verður kjölfesta í enn einni samsteypustjórninni, er líklegt, að óbeit kjósenda þess flokks á styrkjum af því tagi muni leiða til, að samstarfsaðilinn í stjórninni verði að sætta sig við annaðhvort minnkaða eða stórminnkaða styrki til blaða.

Stóri bróðir gefur og stóri bróðir tekur. Þetta eru aldagömul sannindi, sem aðstandendur flokkspólitísku dagblaðanna og héraðsblaðanna mættu gjarna minnast, þegar þeir gamna sér við hugmyndina um, að þeir fái vaskinn endurgreiddan í auknum ríkisstyrkjum.

Óháðu héraðsblöðin, sem hafa vaxið upp úr grasrótinni á undanförnum árum, munu ekki heldur eiga sjö dagana sæla, þegar þau hafa fengið vaskinn í hausinn. Þessi útgáfa, sem orðin er til með þrotlausri vinnu og óheftum áhuga, mun öll ramba á barmi dauðans.

Það eru draumórar hjá aðstandendum óháðra héraðsblaða, ef þeir ímynda sér, að velvild stjórnmálamanna í garð flokkspólitískra héraðsblaða muni breiðast út til óháðu héraðsblaðanna og veita þeim mola af nægtaborði hinna mjög svo ótryggu ríkisstyrkja.

Við höfum búið við ósanngjarnan og menningarsnauðan söluskatt á bókum. Nú á að bæta gráu ofan á svart með vaskinum, hækka skattinn og breiða hann yfir allt prentað mál. Það mun bæta samkeppnisaðstöðu innflutnings á prentuðu máli og erlendum tungum.

Ekki hefur fjármálaráðherra skatthugmynd sína frá Svíþjóð. Þar er ekki lagður vaskur á dagblöð, meðal annars af því að stjórnvöld vilja verja sænska tungu gegn innflutningi blaða og tímarita á erlendu máli. Og ekki er hún frá Noregi, þar sem ekki er vaskur á blöðum.

Fjármálaráðherra hefur heldur ekki hugmynd sína frá Danmörku, því að þar er ekki heldur lagður vaskur á dagblöð. Og ekki frá skólaárum sínum í Bretlandi, því að ekki einu sinni þar er lagður virðisaukaskattur á dagblöð. Það verður að leita sunnar til að finna vaskinn.

Hinn æruskerti vinur fjármálaráðherrans, Andreas Papandreou, lagði virðisaukaskatt á dagblöð í Grikklandi. Eins og Ólaf dreymdi hann um að geta með millifærslum fært fé frá óháðum blöðum til vinveittra blaða. Nú er öll sú spilaborg maklega hrunin þar syðra.

Andreas Papandreou var þó ekki stórtækari en svo, að gríski vaskurinn er aðeins 3% á dagblöð eða aðeins rúmlega einn níundi hluti af vaski hins íslenzka fjármálaráðherra. Af þessu má sjá, að 26% virðisaukaskattur á blöð er afar róttæk hugmynd í samfélagi þjóðanna.

Ekki er skatturinn til að auka samræmið, því að íslenzk stjórnvöld hyggjast leggja hálfan vask á sumt og engan vask á annað, þar á meðal þjónustu, sem áður laut söluskatti, svo sem bílatryggingar. Það er ekki samræmisást sem ræður ferð, heldur gamalkunnur geðþótti.

Að venju verða áhrifin önnur en þau, sem fyrirhuguð voru. Það verða ekki Morgunblaðið og DV, sem lúta að velli, heldur önnur blöð, þar á meðal flokkspólitísk.

Jónas Kristjánsson

DV