Páfi skiptir um trú

Greinar

Bankastjóri og helzti málsvari Landsbankans sagði í ræðu á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á föstudag, að kreppan á Íslandi stafaði af óráðsíu, offjárfestingu og gegndarlausri eyðslu vegna kunningsskapar, fyrirgreiðslu og atkvæðakaupa stjórnmálamanna.

Það eru ekki nýjar fréttir, að kreppan á Íslandi sé framleidd af stjórnmálamönnum. Þessu hinu sama hefur til dæmis verið haldið fram í leiðurum DV um langt skeið. Það er hins vegar nýtt, að helzti málsvari langstærsta viðskiptabanka landsins komist að sömu niðurstöðu.

Það er ekki lengur sérvizka utan úr bæ, að íslenzka kreppan sé heimatilbúin. Þeirri skoðun er nú einnig haldið fram innan úr kerfinu sjálfu og það af manni, sem hefur áratuga reynslu af stjórnmálum sem þingmaður og ráðherra, er fékk að lokum bankastjórastól í verðlaun.

Hinn harðorði bankastjóri er Sverrir Hermannsson, sem á stjórnmálaferli sínum var einn þekktasti fulltrúi pólitíska fyrirgreiðslu- og atkvæðakaupakerfisins. Að einmitt hann skuli nú hafa tekið rétta trú, jafngildir því, að páfinn í Róm fari skyndilega að boða Lúterstrú.

Áður en Sverrir varð ráðherra, var hann um langt skeið forstjóri viðamestu fyrirgreiðslustofnunar stjórnmálanna, Byggðastofnunar. Hann var í senn þingmaður og Byggðastofnunarstjóri og þannig einn af valdamestu mönnum landsins á sviði úthlutunar til gæluverkefna.

Hvaða augum sem menn líta á stjórnmálaferil bankastjórans, þá fer ekki hjá, að þeir taki eftir, að einn helzti fulltrúi kerfisins prédikar skyndilega, að kerfið sé svo óalandi og óferjandi, að það sé nánast búið að koma í veg fyrir rekstur sjálfstæðs þjóðfélags á Íslandi.

Eitt sérkenna Íslendinga er, að þeir hneigjast margir til að hafa meiri áhuga á, hver segir hvað, en hvað er sagt. Þess vegna hljóta kenningar utankerfismanna um stjórnmálaóreiðu að öðlast aukið vægi við, að hinar sömu kenningar koma nú innan úr herbúðum kerfisins sjálfs.

Sverrir Hermannsson sagði líka í ræðunni, að stanzlaust góðæri gæti verið á Íslandi, ef þjóðin lærði af mistökunum. Samkvæmt því verður þjóðin þá fyrst fullnuma á þessu sviði, þegar hún hættir að endurkjósa stjórnmálamenn, sem hafa stundað fyrirgreiðslu og atkvæðakaup.

Ef þjóðin leggur niður þá, sem stundað hafa vitfirringu í efnahagspólitík, skiptir um fólk á Alþingi og ríkisstjórnum, fær sér nýja leiðtoga, sem ekki þurfa að hafa mikið annað til brunns að bera en að hafna fyrirgreiðslu og atkvæðakaupum, þá fer aftur að vora í efnahagslífinu.

Það er gott, að helzti talsmaður stærsta bankans skuli vera kominn á þessa línu. Það leiðir vonandi til þess, að starfsbræður hans í valdakerfi efnahags- og fjármála færi sig opinberlega á hina sömu línu og fari að segja þjóðinni og pólitískum leiðtogum hennar til syndanna.

Þjóðin hefur hingað til ekki viljað hlusta á sjónarmiðin, sem komu fram í ræðu Sverris Hermannssonar á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Hún hefur til dæmis látið gott heita, að árlega eru brenndir til ösku tæpir tveir tugir milljarða króna í landbúnaði einum.

Staðreyndin er nefnilega sú, að hér væri gósenland með nóg af arðvænlegum verkefnum fyrir komandi kynslóðir, ef peningar fengju eðlilega framrás og væru ekki fiskaðir upp til fyrirgreiðslu, atkvæðakaupa, gæluverkefna og annarrar óráðsíu á vegum pólitíkusa.

Ábyrgðin hvílir á herðum kjósenda, því að það er í umboði þeirra, sem stjórnmálamenn stunda fjármálasukkið, er trúskiptingurinn lýsti í ræðu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV