Leiðsögn fyrir nýja vendi

Punktar

Margs þarf að gæta, ef nýir vendir fara að sópa blóðsugunum út úr Eflingu, öðrum stéttarfélögum og Alþýðusambandinu. Ekki nægir að flytja innblásnar útifundaræður um bágindi láglaunafólks. Einnig þarf að koma með tillögur um lausn vandans. Í fyrsta lagi þarf að koma „hækkun í hafi“ inn í umræðuna. Það er sú staðreynd, að atvinnurekendur koma árlega tugum milljarða, ef ekki hundrað milljörðum árlega undan skiptum og sköttum. Þeir peningar eiga að koma fram í hagtölum og teljast með í sköttum og skyldum. Í öðru lagi þurfa kjósendur að styðja til valda þá flokka, sem vilja setja lög um lágmarkslaun. Ekki er nóg að boða til verkfalla.

Þau fundu sér skjól

Punktar

Skoðanakönnun MMR bendir til, að fylgi flokka sé tiltölulega fast. Vinstri græn tóku í janúar 3,5% frá Sjálfstæðisflokknum. Aðrir flokkar eru í plús eða mínus einu prósenti í mánuðinum. Athyglisverðast er, að Vinstri græn auka fylgið, þótt þau hafi sætt þungri gagnrýni fyrir samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Hingað til hafa flokkar glatað fylgi á samstarfi við bófana. Líklega standa Vinstri græn nær íhaldi en aðrir flokkar. Kjósendur hans eru altjend harla sáttir við samstarf um stuðning við kvótagreifa og söltun nýrrar stjórnarskrár. Sáttir við samstarf við ráðherra í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og Samherja. Og samstarf við frú Andersen.

Karlrembt þrælafélag

Punktar

Efling er ömurlegt stéttarfélag með fátækasta fólkið innanborðs. Hefur lítið gert fyrir félagsfólk sitt um liðna áratugi, einkum í störfum kvenna og innflytjenda. Lengi hefur verið kurr meðal félagsfólks, en stjórnarklíkan hefur látið sig það litlu skipta. Efling og VR eru stærstu félögin í Alþýðusambandinu og ráða þar mestu. Á báðum stöðum er sár biturð út af Salek-samkomulagi og undirlægjuhætti stéttarfélaga. Ef kurrinn yfirtekur þau, fer að hitna undir Gylfa Arnbjörnssyni forseta og sendisveini atvinnurekenda. Byltingin er í gangi í VR og vonandi tekst líka að ryðja karlrembdum kreppukörlunum burt úr Eflingu og öðrum þrælafélögum.

Ráðast að Gylfa sendisveini

Punktar

Lög og reglur Eflingar eru sérstaklega samdar til að gera nýjum framboðum erfitt fyrir. Þau fá ekki kjörskrá og verða að geta sér til um kosningarétt. Sumir eru borgandi félagsmenn, en samt ekki á kjörskrá. Fylgismenn nýs framboðs verða að finna 120 meðmælendur á einni viku, án þess að hafa aðgang að hinni dularfullu kjörskrá. Þetta er verkalýðsfélag, sem kærir sig ekki um lýðræði. Eigi að síður standa vonir til. að hin ágæta Sólveig Anna Jónsdóttir nái að klifra múrinn um syfjaða fráfarandi stjórn. Yrði fyrsta atlaga almennings að miðaldra karlaveldi umhverfis ASÍ og forseta þess, Gylfa Arnbjörnsson, sendisvein atvinnurekenda.

Sótsvartar skoðanir

Punktar

Einn í forvali fyrir borgarstjórn hefur sótsvartar skoðanir á velferð: „Ég hef sagt, að skattborgarinn eigi ekki að borga fyrir fólk í sjálfstortímingu, og mun ég skera niður við trog í þessum málaflokki. Það er undarlegt að hugsa til þess, að útlendir rónar ferðist heimshorna á milli til þess að leggjast á félagslega kerfið hér í Reykjavík, en þetta er raunin. Reykjavík virðist stefna í að verða einhverslags félagsleg ruslakista fyrir menn í sjálfstortímingu. Á minni vakt verður félagsleg aðstoð skorin niður við nögl. Væntanlega mun mannréttindaskrifstofa borgarinnar súpa hveljur. en óttist ekki, það mun verða mitt fyrsta verk að loka henni.“ En Viðar Guðjohnsen fékk bara 65 atkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki frumskógarlögmál markaðshyggjunnar.

Siðar ekki siðleysingja

Punktar

Katrín Jakobsdóttir er eitt helzta vandamál þjóðarinnar. Hindrar eðlilega þróun mannasiða í pólitíkinni. Segir það „ekki vera hluta af pólitískri menningu hér á landi“, að ráðherrar taki ábyrgð á siðleysi sínu með því að segja af sér. Notar það sem rökstuðning fyrir frekari setu Sigríðar Andersen í ríkisstjórn. Viðheldur þannig gömlu siðleysi, sem þjóðin þarf að losna við. Ekki bara í þessu máli neitar Katrín að láta ráðherra segja af sér. Tekur ekki heldur afstöðu til þess, hvort Bjarni Benediktsson hafi brotið siðareglur. Hann lá í ár og yfir kosningar á tilbúinni skýrslu um aflandseignir auðgreifa. Katrín er því orðin framvörður hins íslenzka siðleysis.

Klofin nefnd um pilsfald

Punktar

Nefnd um rekstrarvanda einkarekinna fjölmiðla klofnaði eins og við mátti búast. Meirihluti vildi ríkistyrkja þá. Með brennivínsauglýsingum, afslætti eða afnámi vasks og auglýsingabanni á Ríkisútvarpið. Gagnið af slíku fyrir almenning er þó næsta óljóst. Tap auðmiðla stafar ekki af Ríkisútvarpinu, heldur af vefmiðlum, frímiðlun frétta og samskiptamiðlum almennings. Tækninýjungar hafa skafið af auglýsinga- og áskriftatekjum gamalla miðla. Í staðinn vilja auðmenn komast undir pilsfald ríkisins. Það er meginstefna Sjálfstæðisflokksins að mjólka ríkið í þágu auðgreifa. Og Brynjar segir gömlu flokkblöðin hafa verið skárri en blöð nútímans.

Fram í rauðan dauðann

Punktar

Sigríður Andersen hyggst hafa það eins og Nixon. Þegar plöggin fóru að koma í ljós smám saman, hopaði hann úr ytra vígi í innra og hélt vörninni áfram. Það tók ár að losa hann úr embætti. Þá var siðleysið orðið víðtækara en í upphafi máls. Þannig fór líka fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Ætlaði að þrauka, varð að hopa úr einu vígi í annað unz hún gafst upp eftir ár. Siðleysið var þá orðið mun víðtækara og verra en í fyrstu. Sigríður er tvisvar dæmd í Hæstarétti fyrir ólöglega ráðningu flokksbræðra í Landsrétt. Plögg sýna, að allt ráðuneytið reyndi að hafa vit fyrir henni. En hún hyggst hafa það eins og Nixon, þráast við fram í rauðan dauðann.

Tvídæmd situr enn

Punktar

Tvisvar dæmd í Hæstarétti og vöruð við í ráðuneytinu heldur Sigríður Andersen áfram sem dómsmálaráðherra. Skjöl úr ráðuneytinu sýna, að henni var ráðlagt að handvelja ekki flokksmenn sína í dómaraembætti. Hún segir, að breyta þurfi lögum, en ekki ráðherrum. Enda hefur tíðkast frá fyrsta innlenda ráðherranum, Hannesi Hafstein, að ráða klíkufélaga í öll sjáanleg embætti. Katrín forsætis ver hana með óskiljanlegu masi og þrasi. Sigríður er yzt í öfgaarmi bófaflokksins. Brýnt er að leggja fram á alþingi tillögu um vantraust. Þótt atkvæðavélar stjórnarinnar allar verji hana falli, er það samt blettur á mannorði þeirra, þegar næst verður kosið.

Léttir skatta á greifum

Punktar

Mest af eignum þessara 1000 manna, 0,3% þjóðarinnar, er stolið með hækkun í hafi, með aðstöðumun í braski. Sanngjarnt, að þær verði meira skattlagðar og sektaðar. Upphæðin notuð til að auka velferð þeirra 30.000, 10% þjóðarinnar, sem hafa verið skildir eftir í fátækt vegna húsnæðisverðs, örorku, veikinda, elli. Ríkisstjórnin fer öfuga leið, léttir skatta á eignagreifum og eykur byrðar á fátæka. Undir forsæti Vinstri grænna arkar hún sömu leið misskiptingar og fyrri ríkisstjórnir. Ég held, að öllum megi vera það ljóst, að við stýrið sitja sáttir hægri greifar. Allir eru þeir bófar, hver með sínum hætti, þar á meðal ráðherrar vinstri grænna.

Skipt um þjóð

Punktar

Lágmarkslaun eru hér 214.000 krónur á mánuði. Sem enginn getur lifað af. Hver fjölskylda þarf því tvær fyrirvinnur til að bjargast. Í Evrópu dugir ein og hálf fyrirvinna. Lífsgæði eru því miklu meiri suður í Evrópu. Fólk hefur þar meiri tíma til að sinna börnum og eiga frístundir. Þess vegna er fólk að flýja Ísland, fólk úr öllum stéttum. Láglaunastörf eru betur borguð í Noregi og háskólastörf í öllum þeim löndum, þar sem fólk stundar framhaldsnám. Í staðinn fáum við Pólverja og Eystrasaltsmenn til að halda þjóðfélaginu gangandi. Auðgreifarnir 1000 eru að skipta um þjóð í landinu. Hinir innfluttu sætta sig við minna en þeir brottfluttu.

Rassskellum ferðabransann

Punktar

Nauðsynlegt er að taka ærlega til í ferðabransanum. Hindra þarf skussa í að flytja inn starfsmenn, sem sætta sig við minna en lágmarkslaun. Setja þarf stjóra Primera Air í járn og draga þá á lögskipaðan samningafund hjá sáttasemjara. Setja þarf stjóra Primera og Wow Air og draga þá á fund hjá viðeigandi stofnun til að ræða hatur þeirra á viðskiptafólki sínu. Gera þarf húsrannsókn hjá AirB&B útleigjendum og gistihúsum, sem hafa vont orð á sér fyrir okur og vont húsnæði. Tvær hægri stjórnir í röð hafa ekki opnað neitt almenningsklósett í landinu. Svo má telja áfram endalaust. Við þurfum strangari reglur og harðskeytt eftirlit hins opinbera.

Dagleg framlenging okkar

Punktar

Tölvur og símar eru mikilvæg framlenging okkar. Heimurinn ferst ekki, þótt margir drepi tímann við leiki og annað skemmtiframboð. Þarna gleymist ekki dagbókin. Í Google flettir þú upp rétt skrifuðum tilvitnunum, föðurnöfnum fólks og rithætti á ótal tungumálum. Þú notar gagnagrunna umfram flata töflureikna til að finna samhengi upplýsinga í fleiri víddum. Bankaviðskipti eru orðinn leikur einn og taka engan tíma. Öpp halda utan um viðskipti við Strætó. Þetta eru okkar hversdagsnot. Sérfræðingar fara dýpra í mál með því að tengja kynslóðir fyrir þúsundum ára við nútímafólk. Og nú tefla tölvur margfalt flóknari skákir en snillingar gátu áður.

Ráðherra fyrir einmana

Punktar

Bretland er fyrsta ríkið til að fá sérstakan ráðherra um vanda, sem ekki þekktist fyrir einni öld. Tracey Crouch er nýr „minister for loneliness“ í ríkisstjórn Theresu May. Staðan í landinu er sú, að hálf milljón manns talar einu sinni í viku eða sjaldnar við annan mann. Slík einvera er talin vera jafn heilsuspillandi og 15 sígarettur á dag. Hluti vandans er, að margir vilja ekki viðurkenna einmannaleika sinn. Draga þarf þetta fólk úr skelinni. Þetta er dæmi um, að alls konar atferli, sem lítið þekktist áður fyrr, er orðið að stórfelldum heilsuvanda. Nútíminn er erfiður, veldur streitu, kvíða, þunglyndi, drykkjusýki og ótal öðrum sjúkdómum.

Stefna er einskis virði

Punktar

Fjölmiðlarnir eiga nokkra sök á, hversu illa er komið fyrir þjóðinni í pólitík. Helzta efni þeirra í tvær vikur fyrir kosningar er að leggja fram vefspurningar, þar sem kjósendur geta borið sig saman við stefnu stjórnmálaflokkanna. Svo veltir fólk fyrir sér niðurstöðunni og ber afstöðu sína síðan saman við annarra. Engin virðist gera fyrirvara um tilgangsleysi þessa. Algengt er að flokkar hafi allt aðra kosningastefnu en ríkisstjórnarverk. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi hafa sósíaldemókratíska kosningastefnu en dólgafrjálshyggju í stjórnarverkum. Í vetur höfðu Vinstri græn þveröfuga stefnu við þá, sem síðan kom í ljós í ríkisstjórn.