Bombay Bazaar beztur

Punktar

Asískir matstaðir eru sjaldan merkir, flestir á hádegismarkaði fyrir vinnandi fólk. Ég undanskil sérstaka matreiðslu Japans. Að öðru leyti er krydd aðalmálið í Asíu, ekki fiskur eða kjöt eða grænmeti. í Kína er það til dæmis soya, satay eða hoisin, í Indlandi masala, korma, karrí og tandoori og vindalou. Indverskar sósur eru oftast sterkari og villtari en kínverskar. Austur-Indíafélagið, fínn og dýr staður, er aðeins opinn á kvöldin. Af indverskum stöðum á frekar lágu verði er beztur Bombay Bazaar í Ármúla, áður í Kópavogi. Feitt íslenzkt lambakjöt í Bombay lamb, hrásalat, raita jógúrt eru meðal hins góða í þessum notalegu innréttingum.

2% húsnæðisvextir

Punktar

Ríkissjóður reynist geta fengið erlend lán með 1% vöxtum. Leysa má hinn mjög svo brýna húsnæðisvanda með því að gera Landsbankann að Sparkasse að þýzkri fyrirmynd. Bankinn verði eini bankinn með ríkisábyrgð og láni almenningi til íbúða með 2% vöxtum. Fyrir lánið verði reistir tugir þúsunda af litlum íbúðum til leigu, búsetu eða eignar ábúenda. Engir milliliðir verði í málinu aðrir en Sparkasse ríkisins, Landsbankinn. Gott væri að fá lífeyrissjóði almennings til að taka þátt í þessu, til dæmis með stofnun búsetufélaga og húsfélaga. Ganga verður þannig frá málum, að óðir gróðafíklar komist hvergi með puttana. Þessi leið þrengir ekki að ríkissjóði.

Gögnum eytt um bófann

Punktar

Upplýst er, að gögnum í sakamáli á hendur kynferðisbrotamanninum Robert Downey var eytt 24. febrúar 2015 hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Var ekki hluti af almennri aðgerð, heldur sértæk aðgerð af hálfu einhvers stórhvelis. Ekki er einleikið, hve rækilegur varnarhringur hefur verið sleginn um þennan vandræðamann Flokksins. Samkvæmt lögum má ekki eyða þessum gögnum, heldur afhenda þau Þjóðskjalasafni. En nú nýtast skjölin ekki í nýjum málum gegn Robert. Feril skjalanna og nýrrar æru Roberts þarf að kanna ofan í kjölinn. Var þetta eitthvert sérmál fyrir Engeyinga eða aðra valdaklíku landsins. Fölsun og eyðing gagna er mjög alvarlegur glæpur.

Fyrir hina allra ríkustu

Punktar

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er lítilfjörlegt. Aðeins 2%  munur er á því og frumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar. Ekki er sjáanlegur munur á velferð, húsnæði og heilsu. Þessir afvelta málaflokkar verða áfram afvelta. Ekkert átak í velferð, allra sízt í velferð gamla fólksins. Ekkert átak í húsnæði, þótt þar sé allt á hvolfi. Um Landspítalann er fátt að segja, sami sparðatíningur og venjulega. Ríkisstjórn íhaldsflokkanna þriggja er í engu frábrugðin þeirri hægri stjórn, sem hún leysti af hólmi. Þetta er ríkisstjórn hinna ríku fyrir hina allra ríkustu. Vinstri græn eru komin á þá endastöð, sem hentar íhaldskjósendum þeirra.

Burt með alla bófana

Punktar

Bónusgreiðslur stjórnenda Klakka og Lykils upp á 60 milljónir króna á mann fara illa í fólk. Eru þær til komnar út af væntingum bankstera til velvildar stjórnar íhaldsflokkanna? Er verið að efna í nýtt hrun? Eru þessir karlar geimverur í eigin blöðruheimi? Auðsöfnunarfyrirtæki virðast ekki hafa lært neitt af hruninu og fara á hvolf í græðgi. Allt eru ímynduð verðmæti, sem verðlögð eru upp úr öllu valdi. Þessa siðblindu bankstera þarf að stöðva strax. Níu ár eru liðin frá hruni, án þess að neitt hafi verið gert til að girða af siðblinduna og koma helztu bófunum í varanlegt fangelsi. Líklega mun stjórn Katrínar ekki snerta á þessu stórvandamáli.

MeToo breytir öllu

Punktar

Styrkur MeToo hreyfingarinnar kom mér eins og sumum öðrum á óvart. Við höfum lifað miklar breytingar á samskiptum kynjanna á þessari öld, meira jafnvægi í pólitík og menntuðum stéttum. MeToo er þó mesta byltingin og mun gerbreyta þessum samskiptum. Hún verður mesta framför kvenna í sögunni. Hundruð og þúsundir kvenna hafa sagt frá óþægilegri og óbærilegri hegðun margra karla, sem ég kalla flagara. Hegðunin er miklu útbreiddari og óbærilegri en mér gat dottið í hug. Málið er svo þungvægt, að skipuleggja þarf kennslu í mannlegum samskiptum í skólum landsins. Setja þarf skýra línu milli daðurs og dólgsku, sem konur hafa lýst í átakanlegum sögum sínum.

Sumir ofbeldishneigðir

Punktar

Nú raðast inn upplýsingar um ofbeldisglæpi í Danmörku, Noregi og Þýzkalandi. Í ljós kemur, að strákar af ættum múslima bera hlutfallslega mesta ábyrgð á slíkum glæpum. Sérstaklega súnnítar af trúflokkum salafída og wahabíta. Ofbeldishneigð er einkum rík hjá þeim, sem taka þátt í hryðjuverkahópum í Sýrlandi og flytja síðan aftur til Evrópu. Börn í þessum hópi eru einna hættulegust. Allur þorri múslima er friðsamur og lagast að nýjum heimi. Þótt hinir séu fáir, kannski bara 1% múslima, gætu þeir verið 1-2 hér á landi. Mikilvægt er, að þeir haldi ekki í kvenhatur og miðaldasiðferði. Og lagist sem bezt að siðum og reglum í löndum, sem þeir flýja til.

Aftenposten

Sigrar með furðuleikjum

Punktar

Nýja skákforritið Alpha Zero gersigraði heimsmeistara tölva, Stockfish, 28-0, í 100 skákum. Stockfish teflir eins og beztu skákmenn, Alpha Zero eins og geimvera. Stockfish teflir jafnteflislega, en Alpha Zero teflir eins og brjálæðingur. Fórnar peðum og mönnum út og suður til að ná taktískum yfirburðum í stöðu. Alpha Zero lærði nefnilega bara mannganginn og lét alla sögu skáklistar eiga sig. Kenndi sér sjálf skáklistina, kastaði út mannkynssögu hennar. Leikur furðulega leiki, sem reynast innsæir. Alpha Zero kann ekki bara splunkunýja skák, heldur leikur sömu listir í annars konar forritun. Tölvan er komin fram úr fólki og tekur við af því.

Með ofurbros á yztu brún

Punktar

Meðan Katrín hélt upp á stjórnarmyndunina, rak dómsmálaráðherra hennar lítið barn úr landi undir lögregluvernd. Þegar vika var liðin af stjórn Katrínar, voru gefin út bandarísk fjárlög, sem fela í sér endurheimt herliðsins á Keflavíkurvelli. Þar á milli sagði Katrín, að hér væri ekki til siðs að spilltir ráðherrar segi af sér. Þar með þarf helmingur ríkisstjórnar hennar ekki að segja af sér. Veifa í staðinn aflátsbréfi Katrínar. Um þær mundir er vestrænir leiðtogar fordæmdu aðgerðir Trump vegna Jerúsalem, lýsti Katrín yfir vonbrigðum með þær. Meðan hyldýpið blasir við henni, þeim mun breiðar brosir hún. Íslenzki ofur-pólitíkusinn með ofurbrosið.

Ráðherrum er orða vant

Punktar

Ríkisstjórnin byrjar varlega og flestir ráðherrar fela sig. Katrín Jakobsdóttir segist þó verða fyrir vonbrigðum með upphlaup Donald Trump vegna Jerúsalem. Flestir vestrænir leiðtogar kusu að fordæma upphlaupið, er sýnir harðari andstöðu. þeirra. Og Katrín segir fátt um bandarískar hugleiðingar um að senda hingað aftur her í land. Svandís Svavarsdóttir segir enga einkavæðingu í heilsu verða á sinni vakt. Flestir flokksmenn töldu að hún mundi snúa við leyndó einkavæðingu síðasta kjörtímabils. En hún vill bara stöðva, ekki snúa við. Dregur nokkuð úr slagkrafti orða hennar. Og Katrín segir afsagnir ónýtra ráðherra ekki til siðs hér á landi.

Mannasiðir ráðherra

Punktar

Hætt er við, að mannasiðabók ráðherra fái erfiðar fæðingarhríðir. Sjálf Katrín Jakobsdóttir hefur logið út og suður um fyrirætlanir sínar í vor og sumar. Bjarni Benediktsson er á kafi í að skrapa upp ríkisfé handa Engeyingum. Sigurður Ingi eyðilagði heila Fiskistofu til að gera hana bitlausa. Sigríður Andersen brýtur lög til hægri og vinstri. Ásmundur Daði er í þjónustu Kaupfélags Skagfirðinga og Kristján Þór er vinnuþræll og áður stjórnarmaður Samherja. Hvorugur ætti að sjást á almannafæri. Ásmundur gubbar meira að segja á fólk og stundar innbrot. Burt með dólgana. Guðmundur Ingi einn er húsum hæfur, kurteis og kann fagið fram í fingurgóma.

Fjölbreytt rafmagnsöld

Punktar

Víðtæk skipulagsmistök hafa að venju verið framin í Reykjavík síðustu árin. Verst er, að þétting byggðar verður ekki aftur tekin. Nema fólk telji málið  svo vont, að sprengja þurfi upp nýlega steypu, einkum við umferðarhorn, hraðbrautir og í húsagörðum gömlu Reykjavíkur. Verktakar hafa tekið öll völd í samskiptum við Skipulagsstofnun og Skipulagsráð. Bjóða gámaklasa út í lóðarhorn og glerblokkir í húsagörðum. Dagur B. Eggertsson hefur að mestu sloppið við ábyrgð, en gagnrýnin beinist að Hjálmari Sveinssyni. Hann er ekki sagður hafa neitt fegurðarskyn. Og vita minna en þú og ég um framtíð umferðar á rafmagnsöld fjölbreyttra farartækja.

Mannasiðabókin mín

Punktar

Af ókunnum ástæðum gaf systir mín mér mannasiðabók, þegar ég var um tvítugt. Þar var kennt, hvernig karlar ættu að daðra við konur. Bjóða í mat á huggulegum stað. Þú fylgir henni heim og kveður hana. Þetta gerist í þrígang. Þið getið splittað reikningnum, ef konan vill. Í þriðja skiptið máttu kyssa konuna. Í fjórða skiptið færðu að koma inn á herbergi til hennar. Bannað er að vera fullur. Ég efast um, að flagarar þyldu að fara gegnum svona ferli. Það felur líka í sér, að þið hafið spjallað heilmikið saman og fundið, hvort ykkur líður vel með það. Ætti ekki að kenna Esquire Etiquette eða aðra slíka í menntaskólum, líklegra þó yngri útgáfu?

Evrópa stækkar til Japans

Punktar

Evrópusambandið fór í gær fram úr Bandaríkjunum sem stærsta viðskiptaveldi heims. Gerði fríverzlunarsamning við Japan, sem stækkar áhrifasvæðið upp í 600 milljón íbúa. Tollar munu hrynja á þessu svæði og spara milljarða evra. Um leið verður evran áhrifameiri sem alheimsgjaldmiðill, ekki gefin út af neinu einkafélagi eins og dollarinn. Talið er, að samningurinn nái fljótt til Evrópska efnahagssvæðisins, þar á meðal Íslands. Ætti að efla sjávarútveg okkar og ferðaþjónustu. Vegna Brexit missa Bretar hins vegar af kostum Evrópusambandsins. Því mætti Guðlaugur Þór fara enn einu sinni fýluferð til London að gráta í faðmi Boris Johnson Brexit-greifa.

Risasamningur

Norðmenn eða Herúlar

Punktar

DNA-rannsóknir á eldfornum mannabeinum sýna, að mannkynið er tvöfalt eldra en áður var talið. Fyrir 120.000 árum í stað 60.000 ára hófust þjóðflutningar frá Afríku og dreifðust þaðan um alla jörðina. Nútímafólk ber enn í sér 4% leifar af genum frá Neanderdalsfólki og íbúar Suðurhafseyja bera í sér 5% leifar af áður óþekktum forvera mannsins, Denosovan-fólkinu. Ferðir frummannsins hafa tekið langtum meiri tíma en áður var talið og leitt til flóknari samblöndunar ættkvísla en áður var talið. Gaman verður, þegar DNA-rannsóknir geta rakið hlutföllin í stöðu Íslendinga í þessari þróunarsögu. Erum við Norðmenn eða Herúlar eða eitthvað allt annað.