Samþjöppun Evrópu

Punktar

Vesturþýzkir sósíaldemókratar samþykktu í gær að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Angelu Merkel kanzlara frá Kristilegum demókrötum. Martin Schulz, formaður krata, setur það skilyrði, að samstarfið í Evrópusambandinu verði þéttað. Það breytist smám saman úr ríkjasambandi í sambandsríki árið 2025. Sýn hans á Stór-Evrópu er þó verkalýðsvæn, fremur en stórfyrirtækjavæn sýn Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Meðan auðugu ríkin í Vestur-Evrópu sækjast eftir sterkari einingu álfunnar, heltast fátæku ríkin í Austur-Evrópu aftan úr lestinni vegna harðskeyttrar þjóðrembu og andstöðu við útlendinga, sem jaðrar við fasisma.

Konur sigra flagara

Punktar

Konur munu bera sigur af hólmi í stríði þeirra gegn kynferðislegri áreitni. Þar með munu eflast líkur þeirra á stöðuhækkunum, er óviðkomandi atriði trufla síður metorðastigann. Í upphafi stríðsins kom í ljós, að margar konur og margir karlar voru ekki sammála um, hver væru mörk daðurs og kynferðislegrar áreitni. Nú verða flagarar að sætta sig við hin nýju mörk, er konur hafa ákveðið því sem næst einar. Þetta er hið bezta mál eins og önnur kvennamál, sem hafa leitt til betri jafnstöðu kynja. Hún er raunar betri hér en víðast annars staðar, svo sem sjá má í aðild kvenna að stjórnmálum. Enn þarf að taka harðar á mismunun karla- og kvennastétta.

Röddin heyrist varla

Punktar

Svo mikill hluti þjóðarinnar telst til einhvers konar miðstéttar, að rödd fátækra heyrist nánast ekki. Flest baráttufólk, sem kallað er vinstri sinnað, er í raun miðstéttarfólk. Til dæmis fólk, sem vinnur í stjórnmálum eða félagsmálum. Það er komið í töluverða fjarlægð frá undirstéttinni og býr ekki við sömu kjör og hún. Þess vegna er hér enginn verkafólksflokkur. Sjómenn Samherja reka til dæmis erindi kvótagreifa á útifundum. Flokkur fólksins nær varla inn á þing án þess að vera í bandalagi með útlendingahöturum. Hann hlífir þannig greifunum við ábyrgðinni og færir hana yfir á valdalaust fólk. Næsta bylting mun því koma frá miðjunni.

Tíu prósent eru gleymd

Punktar

Samherji á einn fulltrúa í ríkisstjórninni, Kristján Þór Júlíusson. Kaupfélag Skagfirðinga á annan fulltrúa, Ásmund Einar Daðason. Svo grunnmúrað er eignarhald kvótagreifa á þjóðfélaginu. Auk Sjálfstæðis og Framsóknar taka Vinstri græn ábyrgð á þessari hefð stéttaskiptingar. Við höfum því eitt prósent þjóðarinnar, sem lifir á að dæla þjóðarauðlindinni yfir til sín. Tæplega 80% þjóðarinnar hafa það gott eða sæmilegt og eru sátt við ástandið. Styðja ríkisstjórn, sem er byggð svona upp. Um 10% þjóðarinnar eru undirstétt, sem hefur það skítt. Þar eru húsnæðislausir, öryrkjar og aldraðir. En meirihluta finnst það bara þolanlegt eða allt í lagi.

Friður og spekt

Punktar

Skoðanakönnun Fréttablaðsins sýnir styrk hinnar nýju íhaldsstjórnar, 78% gegn 22%. Fólk leitar í öryggið og finnur traust í bræðingi frá vinstri til hægri. Fólk er ekki lengur svo hrætt, að það leiti öryggis í breytingum. Af breytingaflokkunum næðu aðeins Samfylkingin og Píratar inn þingmönnum, en Viðreisn og Flokkur fólksins mundu falla út. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hægt um sig og Katrín Jakobsdóttir leikur á als oddi með allt sitt persónufylgi. Þetta verður sælutími, unz fer að gefa á bátinn. Kannski þarf að smala köttum, þegar frá líður, en nú sjást fá tilefni til slíks. Við skoðum svo málið betur, þegar breyttu fjárlögin koma fram.

Forstjórabófi stöðvaður

Punktar

Ríkisstjórnin mun auka framlög til velferðar minna en sem nemur auknum kostnaði. Þannig var það hjá fráfarandi ríkisstjórn og þeirri þar á undan. Síðan reynir forstjóri Sjúkratrygginga að deila fénu þannig, að meira fari til einkavina á borð við sjúkrahótel Albaníu-Höllu og annarra slíkra einka-sjúkrahúsa. En minna til Landspítalans, spítala alls almennings. Bófaflokkurinn á trygginga-forstjórann og hefur þetta allt í hendi sér, hvað sem segir í stjórnarsamningi. Á newspeak heitir þetta að „efla kostnaðarvitund“ aumingja. Eins og árleg hækkun á hlut sjúklinga í lyfjakostnaði. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðis mun þó stöðva þessa vitleysu.

Ekki sama tóbakið

Punktar

Stefna Pírata er hugsuð frá grunni í málefnanefndum. Hafa þróað mál, sem aðrir flokkar hafa lítið fjallað um. Til dæmis réttindi höfunda. Sum málin hafa fengið norræna eða sósíaldemókratíska niðurstöðu. Ekki vegna Samfylkingarinnar, heldur vegna þess að norræna og þýzka velferðarkerfið eru heillandi og í samræmi við hug og hjörtu fólks. Þótt stefna Pírata sé í sumu hliðstæð stefnu Samfylkingarinnar, er hún ólík í öðrum atriðum. Samfylkingin er frekar stjórnlynd, en Píratar eru frekar frjálslyndir. Að sumu leyti standa þeir nær Viðreisn en Samfylkingunni. Of mikið er gert úr spegilmyndum í samanburði á Samfylkingunni og Pírötum.

Tveir virkir ráðherrar

Punktar

Tveir ráðherrar íhaldsstjórnarinnar ætla að skera sig úr aðgerðaleysinu og starfa eins og aktívistar. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ætlar að stöðva einkavinavæðingu fyrri ríkisstjórnar. Vill fylgja þeim eindregna þjóðarvilja, að heilsugeirinn verði rekinn af opinberum aðilum. Annar ráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlinda, hyggst líka starfa sem aktívisti. Hann vill þjóðgarð, engar raflínur á hálendinu og ekki virkja í óbyggðum á Vestfjörðum. Hann er líka vís til að dempa þingeyskar hugsjónir um 60 orkuver í sýslunni. Þessi tvö mál, heilsa landsmanna og verndun hálendis eru núna öndvegisþarfir Íslendinga.

Vantar rödd fátækra

Punktar

Vel ráðið er hjá þremur minnihlutaflokkum á alþingi að mynda málefnabandalag. Þeir eru allir breytingaflokkar, öfugt við kyrrstöðuflokka meirihlutans. Píratar, Samfylkingin og Viðreisn eiga margt sameiginlegt, miklu frekar en þeir, sem skipa ríkisstjórnina. Stjórnarskráin, kvótakerfið, landbúnaðarkerfið og viðræður við Evrópu eru sameiginleg stórmál. Mér þætti gott, ef Inga Sæland frá Flokki fólksins fengi aðild að þessum klúbbi. Þar þarf að vera hrein rödd fátækra. Húsnæðislausir, láglaunafólk, öryrkjar og öldungar hafa sterka rödd í þeim flokki. Mundi bæta mynd þriggja flokka, sem myndaðir eru af miðstéttarfólki og skortir rödd almennings.

Skattalækkun vel stæðra

Punktar

Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að lækka neðra þrep tekjuskatts á þann hátt, að fólk með yfir 835 þúsund króna mánaðartekjur fær þrefalt hærri afslátt en fólk á lágmarkslaunum. Í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins að færa skattbyrði af vel stæðu fólki yfir á fátæklinga. Hækkun persónuafsláttar hefði hins vegar skilað öllum tekjuhópunum jafnri skattalækkun. Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á hinni ójöfnu dreifingu skattalækkunarinnar með myndrænum hætti í sjónvarpinu. Þetta fyrsta verk stjórnarinnar sýnir, að í stórum dráttum er þetta sama ríkisstjórn og hin fyrri. Þetta er stjórn Sjálfstæðisflokksins og hinna ríku.

Óhófleg sáttfýsi

Punktar

Prinsípfesta er ekki elítismi eða verkleysa fremur en að opnun í alla enda hafi  sáttfýsi og vinnusemi í för með sér. Prinsípfesta og sáttfýsi hafa hvort um sig neikvæðar hliðarverkanir. Nú stöndum við andspænis þeirri vissu, sem áður var bara grunur, að einn flokkur er hreinn bófaflokkur. Í Sjálfstæðisflokknum eru nánast allir fjárglæframenn landsins, þar á meðal formaðurinn. Flokkurinn er krabbamein í pólitíkinni, rétt eins mafían væri beinn aðili að stjórn Ítalíu. Svik og svindl, lögleysa og leyndarhyggja einkenna flokkinn. Vinstri grænum ber engin lýðræðisleg skylda til að leysa stjórnarkreppu í samstarfi við bófa-smáflokk með 25% fylgi.

Vinstri grænar virkjanir

Punktar

Þjóðvarnarfólk í sveitum hefur ekkert á móti orkuverum í sveitum sínum, ef þau eru innan við 10 MW og þurfa ekki umhverfismat. Draumur fólks snýst um tímabundin verkefni fyrir vinnuvélar sínar. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur áhuga á að reisa 50-60 slík orkuver í héraðinu. Hvar sem fólk er statt í sýslunum, hefur það þá orkuver í augsýn. Hlýtur að vera mikill unaður öllu þjóðvarnarfólki og öðrum kjósendum forseta alþingis. Ekki veitir af að hafa landverndarstjóra og Svandísi Svavarsdóttur sem ráðherra til að verjast áreitni þingeyskra þjóðvarnarsinna og hers Steingríms. Þar mun hrikta einna fyrst í stjórnarsamstarfinu. Innan Vinstri grænna sem oftar.

Evra betri en króna

Punktar

Hér er rekinn farsalegur áróður gegn meginlandi Evrópu og einkum evru. Birtar eru fréttir um, að evran sé að hrapa, en aldrei um, að hún sé að rísa. Samt er evran mjög stabíl, öfugt við fallandi pund. Evran hefur hækkað úr 0,7 pundum í 0,9 pund frá árinu 2013 til dagsins í dag. Skammt er til þeirra tímamóta að evran fari upp fyrir verðgildi pundsins. Alls konar vandræði í Evrópu hafa ekki megnað að draga úr risi evrunnar. Ekki vandræðin í Grikklandi og ekki erfiðleikar ríkja við Miðjarðarhafið. Slík vandræði eru að lagast og framtíðin er björt hjá evrunni. Við ættum sem fyrst að taka upp evru og fjölnotkun alþjóðlegra mynta, kasta krónunni.

Þreyttur ertu orðinn

Punktar

Þetta voru skilaboðin á símanum mínum í morgun: „Þreyttur ertu orðinn“. Ég fletti nokkrum punktum og sá, að þetta var rétt. Allan elegans vantar í texta minn. Þarf að taka mér frí eða að minnsta kosti lækka dampinn á vélinni. Pistlar mínir eru orðnir alls 23.687 frá 1973 til þessa dags. Kannski fækka pistlunum um einn á dag yfir háveturinn. Og minnka skrif um pólitík, hún verður smám saman þreytandi. Ég hef verið upptekinn af þeirri vissu, að Sjálfstæðisflokkurinn væri krabbameinið í þjóðfélaginu, sjálf rótin að spillingu og svínaríi. Margir fleiri skrifa í slíkum dúr, svo þetta er ekki leyndó lengur: Að VG leiddi bófana aftur inn í helgidóminn.

Mannval í ríkisstjórn

Punktar

Mannvalið virðist vera þetta: Panamaprins (Bjarni Ben) er fjármála og þar með yfirmaður allra fagráðherra. Dómsmála (Sigríður) er sami ósiðlegi fasistinn og hún var áður. Félagsmála (Ásmundur Einar) er flokkaflakkarinn, er greiddi laun undir taxta og svindlaði á opinberum gjöldum. Sjávarútvegs (Kristján Þór) er fyrrverandi stjórnarformaður kvótagreifanna í Samherja. Utanríkis (Guðlaugur Þór) er sá, sem flutti Sjálfstæðis úr hópi íhaldsflokka í hóp fasista með Erdoğan í Tyrklandi. Gott var þó að losna við Jón Gunnarsson, sem vildi skattleggja umferð til Reykjavíkur. Guð og Allah, Búdda og Óðinn blessi Ísland og ríkisstjórnina. Og Pál sem grætur.