Orðaflaumur og bull

Punktar

Stjórnarsáttmálinn er orðaflaumur utan um, að ekki verði snert á viðkvæmum málum og að fagur vilji sé til að gera eitthvað ótiltekið á öðrum sviðum. Ótal nefndir, „þverfaglegir hópar“, á máli sáttmálans eiga að sofa á ýmsum málum. Ástæða er þó til að ætla, að umhverfismálum verði betur sinnt. Og eitthvað ætti að nást út úr bönkunum í heilbrigðismál. „Stórsóknir“, „markviss skref“ og „sóknaráætlanir“ eru ótímasettar. Fyrst og fremst er sáttmálinn innantómur orðaflaumur almannatengsla, þar sem ekki er hægt að festa hendur á neinu. Textinn hæfir auðvitað ríkisstjórn, sem snýst ekki um mál, heldur um stóla og völd ráðherra, sem sumir eru lögbrjótar.

Harmsaga hersins

Punktar

Bandaríkin hafa farið hörmulega út úr styrjöldum eftirstríðsáranna. Náði jöfnu í Kóreu, en síðan hefur sigið í ógæfuhliðina. Í Víetnam var Agent Orange málið. Svo komu Afganistan og síðan Írak. Í Persaflóastríðinu átti Patriot að vera málið. Svo flæktu Bandaríkin Atlantshafsbandalaginu í Balkanskagastríð. Allt kom fyrir ekki. Alltaf áttu töfravopn að leysa málið. Eldflaugar að hitta beint í klósett hjá vondu köllunum. Aldrei hittu flaugarnar neitt nema almenning úti um víðan völl. Bandaríski herinn hefur verið mesta manndrápsvélin á óbreyttum borgurum síðustu áratugi. Og aldrei haft nein áhrif. Nú eru það flygildin, sem eru áhrifalaus.

Svikin lengi í minni

Punktar

Fréttir af stjórnarmynduninni staðfesta ótta um að nýja stjórnin vilji helzt engu breyta. Allt verði áfram eins og það hefur verið frá aldamótum. Þá sprakk í hæstu hæðir öfgafrjálshyggja og greifadekur bófaflokksins. Eini munurinn er, að Vinstri græn taka að sér að verja íhaldið og misskiptingu auðs. Skattar verða óbreyttir að mestu. Heilsan fær einhverja aura úr bönkunum. Öll stóru málin verða látin liggja milli hluta. Þetta er fullkomna íhaldsstjórnin, þar sem breytingasinnar verða í stjórnarandstöðu. Kjósendur völdu þessa útkomu með því að taka VG fram yfir aðra kosti. VG kom aftan að fólki í þessari stjórnarmyndun. Það verður lengi munað.

Reykvísk smekkleysa

Punktar

Verktakar, kennitöluflakkarar og mansalsgaurar hafa borgarstjórn Reykjavíkur í vasanaum. Allar hömlur fyrri tíma eru horfnar. Einu viðmiðin eru hraði og gróði. Meðan borgarstjórn spöglerar um ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk, er reistur lúxus á lúxus ofan. Byggingarflötur er úti í lóðarmörkum, bílgeymslur vantar og húsgerðin í glergámastíl. Horfin er tilfinning fyrir stíl og umhverfi. Vondur er kastalinn við Kalkofnsveg, verri er fyrirhugaður kastali við Lækjargötu og verstur er sá, sem fyrirhugaður er neðan við Gamla-Garð. Þar nær smekkleysa borgarstjórnar sínum botni. Eini gimsteinninn í þessu kvosar-helvíti er endurgert hús Rammagerðarinnar.

Tilgangsleysi fjárlaga

Punktar

Dæmigert fyrir tilgangsleysi stefnumála er, að þau eru síðust rædd á maraþonfundum tilvonandi stjórnarstjóra. Að lokum var stjórnarandstöðunni boðið upp á að gamla fjárlagafrumvarpið Benedikts Jóhannessonar. Hinn kosturinn var, að lagt yrði fram nýtt fjárlagafrumvarp. Maraþonfólkinu var alveg sama, hvor leiðin yrði farin, þau voru búin að skála í freyðivíni og velja sér ráðherrastóla. Stjórnarandstaðan hafnaði auðvitað því afleita frumvarpi, sem hún hafði séð. Ný ríkisstjórn verður því ekki kynnt fyrr en á fimmtudaginn. Hún er mynduð á dularfyllri hátt en fyrri ríkisstjórnir. Mest leyndó ríkisstjórn sögunnar. Þverast um geð er henni gegnsæi.

Katrín og gömlu gengin

Punktar

Fólk hélt, að kosningarnar snerust um þetta gamla, vinstri, hægri, miðja. En fólk vissi ekki, að gömlu flokkarnir höfðu laumast til að láta þær snúast um íhald eða breytingar. Sjálfstæðisflokkurinn vildi losna við nýju Viðreisn. Framsókn vildi losna við Miðflokk Sigmundar Davíðs. Vinstri græn vildu losna við Samfylkinguna. Allt tókst. Gömlu flokkarnir sigruðu, mynda stjórn og sjá um, að ekkert breytist. Allt verði eins og það hefur alltaf verið, siðspilling, siðblinda og siðþrot. Ofan á sukkið sezt drottningin Katrín með 50% persónufylgi. Fólk veit ekkert um, hvert er innihald samsærisins. Treystir Katrínu til að sjá um, að svindl verði í hófi.

Þrýst niður kokið

Punktar

Þetta er farið að taka töluvert lengri tíma en rósrauðar yfirlýsingar Katrínar hafa gefið í skyn. Enn í dag er einhver hængur á ríkisstjórninni. Frá sjónarmiði fjórflokksins er skynsamlega staðið að verki, þess vandlega gætt, að ekkert leki út um viðræðuefnin. En allir eru kátir og farnir að þamba freyðivín, svo þetta hlýtur að fara að nálgast. Katrín myndar þessa stjórn fyrir íhaldið, hvað sem hver segir. Það er varið með því, að hún hafi ekki fyrirfram hafnað neinum brúðguma. En hver vissi, að það yrði sá ljótasti og versti. Ekki kemur á óvart, að erfiðasti hjallinn er að þrýsta samkomulaginu niður kokið á helzta vitfólki Vinstri grænna.

Gagnslaus seinkun klukku

Punktar

Fólki mun ekki líða betur, þótt tölur séu færðar til á hring klukkunnar. Vandinn stafar ekki af tölustöfum, hann stafar af árstíðabundnu myrkri. Fólk fer að tala um að færa klukkuna í nóvember, þegar það vaknar í myrkri. Einkum er þetta erfitt á norðlægum slóðum, þar sem mikill munur er á sólargangi eftir árstíðum. Þegar vorar, hættir fólk að tala um að færa klukkuna. Forfeður okkur unnu úti dag og nótt á sumrin og sváfu mestan tímann á veturna. Núna vinnur fólk sem næst átta stunda vinnudegi vetur jafnt sem sumar. Af því stafa óþægindin, en ekki af því, að þú þurfi að vakna klukkan sjö en ekki átta. Seinkun klukkunnar er gagnslaus lausn.

Fjölmiðlar blekktu kjósendur

Punktar

Spurningalistar fjölmiðla fyrir kosningar brengluðu pólitískt útsýni fólks. Var látið meta samhljóm í stefnuskrám flokka og sínum skoðunum. Alveg tilgangslaus samanburður. Stefnuskrár flokka eru einskis virði. Það getur fólk raunar séð með samanburði stefnuskráa fyrri kosninga við efndir loforða eftir þær. Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins er til dæmis jafnan í andstöðu við gerðir flokksins. Allir bjóða „alls konar fyrir aumingja“, en flestir gera fátt í því. Þótt spurninga-listar fjölmiðla hafi skemmtigildi, eru þeir villandi í samanburði við vilja og skoðanir kjósenda. Næst þarf að vanda þá betur, miða við efndir, ekki við loforð.

Barnalegur Bretlandsvinur

Punktar

Guðlaugur utanríkis er barnalegur Bretlandsvinur. Væri gott í meira hófi, Bretar eru ekki nein sérstök fyrirmynd. Hafa ítrekað sýnt okkur margfalt meira ofbeldi en aðrar þjóðir. Í Evrópusambandinu er Bretland á jaðrinum, reynir mest að spilla fyrir. Í staðinn hafa meginlandsríkin tekið völdin, einkum Þýzkaland. Það byggist á hinum ofsaflotta fíniðnaði í Þýzkalandi og sparsemi þarlendra í meðferð fjár. Í Bretlandi er iðnaður að mestu hruninn og allt byggist á bönkum og braski. En nú eru bankarnir að flytja til Frankfurt, þar sem er aflvél Evrópu. Bretar fóru verst með sig á tíma Thatcher og Blair. Meðan Þjóðverjar héldu sig við norræna velferð.

Katrín blekkti kjósendur

Punktar

Eftir á að hyggja voru kosningarnar vonbrigði. Datt að vísu ekki í hug að kjósa Vinstri græn. Það gerðu þó margir, sem ég þekki. Almennt hafa þeir síðan ekki verið mönnum sinnandi. Mest snýst hugsunin um Katrínu, sem margir höfðu tekið trú á. Þeim er óbærileg hugsunin um að hafa verið höfð að fífli. Því fleiri dagar sem líða, þeim mun grimmar sígur inn ósigurinn. Katrín blekkti kjósendur sína, á því er enginn vafi. Fyrstu tilraun hennar um stjórn með Samfylkingunni, Framsókn og Pírötum var ekki ætlað að takast. Auðveldlega hefði komið í ljós, að hægt væri að bæta Viðreisn og Flokki fólksins við. Mun léttara en núverandi stjórnarmyndun.

Útrýming mannkyns

Punktar

Stephen Hawking, eðlisfræðiprófessor við Cambridge, telur, að mannkynið geti liðið undir lok vegna tæknilegra framfara. Fljótt fari gervigreind að keppa við greind mannkyns. Endi með því að fara framúr henni. Byrji að geta endurbætt sig sjálf án hjálpar mannkyns. Það verði nýtt lífsform, sem ryðji mannkyni til hliðar. Ef þetta gerist ekki, muni mannkynið spilla og eyða lífsafkomu sinni. Við séum sjálf ófær um að gæta Móður Jarðar. Ekki kemur fram hjá Hawking, að sigur gervigreindar geti bjargað Jörðinni með skynsamlegri ákvörðunum. Þar á meðal með því að útrýma fólki, áður en það gerir jörðina óbyggilega. Hvernig væri að láta sig hlakka til þess?

Hjálp Danmörk hjálp

Punktar

Eftir aldagamla hjálpsemi Dana urðu Íslendingar fullvalda 1918. Fyrsti ráðherrann var Hannes Hafstein. Hann lagði grundvöll að klíkuveldinu, þar sem sýslumannssynir urðu Stéttin og sjómenn og landverkafólk varð Undirstéttin. Stríðin í útlandinu björguðu fjárhag hinnar fullvalda þjóðar fyrstu áratugina. Stóra hrunið varð ekki fyrr en 2008, þegar vitgrannir pólitíkusar og seðlabankastjóri leyfðu bönkunum að fara á hvolf. Varnir amatöra reyndust vera fát, fálm og fúsk. Flestir treystu á reigðan Davíð, sem reyndist mesta fíflið. Nú er að ljúka árinu 2008 og pólitíkin komin í súrrealískt hjónaband við bófaflokka kvóta og áls. Hjálp, Danmörk, hjálp.

Skrímsli og blóðsugur

Punktar

Skelfileg er þessi ríkisstjórn, sem er verið að mynda. Stærsti flokkur hennar er bófaflokkurinn. Ráðherraefni fjármála er prinsinn af Panama. Aðalráðherra þriðja stjórnarflokksins er sá, sem eyðilagði Fiskistofu. Útkomuna sáuð þið í Kastljósi í vikunni. Engin siðferðileg viðmið koma til álita á þessum bæjum. Guðfaðirinn eða Toto Riina hennar er kvótagreifinn samanlagður, sem stelur hundrað milljörðum árlega á hækkun í hafi. Talsmaður stjórnarmyndunar er Björn Valur, varaformaður Vinstri grænna. Hann ræðir þetta eins og um heiðarlegt fólk sé að ræða. Ég sé hins vegar fátt nema skrímsli og blóðsugur kvótans. En þjóðin vill bara sjá Katrínu.

Erindisleysa Geirs

Punktar

Geir H. Haarde fór erindisleysu til Strasbourg. Evrópski dómstóllinn úrskurðaði, að málsmeðferð hafi verið lögum samkvæmt. Geir var engum órétti beittur. Augljóst er af meintu símtali hans og Davíðs Oddssonar, að þeir voru báðir úti að aka eins og hverjir aðrir leikmenn síðasta kortérið fyrir hrun. Litlir karlar voru að gera út um mál, sem var þeim mörgum stærðarflokkum ofauki. Davíð var sekari aðilinn, því hann átti að passa gjaldeyri Seðlabankans. Í staðinn fleygðu þeir restinni af gjaldeyrinum í Kaupþing, sem báðir voru sammála um, að ekki gæti endurgreitt. Hrikalegt dæmi um, hvernig fát, fúsk og vanhæfni hafa einkennt stjórnvöld allan fullveldistímann.