Katalúnja nær sjálfstæði

Punktar

Ýmis dæmi eru um minnihlutaþjóðir, sem una ekki að vera í ríki með fjölmennari þjóð. Þekktustu dæmin eru Kúrdar og Katalúnar. Nær okkur eru Baskar og Skotar. Slík mál þarf að höndla af mikilli gætni. Falangistastjórnin á Spáni hefur ekki borið gæfu til þess gagnvart Katalúnju. Saga Kúrda sýnir, að harkan sex mun ekki duga. Katalúnar munu öðlast sjálfstæði, ef þeir vilja. Og þeir munu vilja það eftir óeirðir spænskra villimanna. Allt slíkt framferði stappar stálinu í minnihlutaþjóðir. Þetta er ekki spurning um praktíska niðurstöðu, heldur ferli, sem enginn getur stjórnað. Bretar hafa sýnt betri lagni í samskiptum við Skota.

Panama-stjórnin bíður

Punktar

Vilji breytingasinnar mynda ríkisstjórn, verða þeir fyrst að vinna kosningar. Því víðar, sem þeir leita samstarfs, þeim mun þyngra er undan fæti. Vinstri græn, Samfylkingin og Píratar geta unnið saman og treysta hver öðrum. Eigi svo að bæta gömlu Framsókn við, þá vandast málið. Þá taka við ýmiss konar sérhagsmunir og einkahagsmunir, sem þurfa að fá sitt. Auðveldara er að prófa Viðreisn, þar eru daufari sérhagsmunir og einkahagsmunir og meira af hugsjónum. Þetta eru prófin tvö, sem Katrín Jakobsdóttir þarf að standast. Hugsanlega gæti það gengið upp á nokkrum dögum. Ef ekki, þá bíða Bjarni og Sigmundur með grautfúla Panama-stjórn.

Flottur sigurleikur

Punktar

Gagnsókn kvenna: Sex konur gangi á fund forseta og segi honum, að þær vilji mynda meirihlutastjórn. Katrín Jakobsdóttir hefur orð fyrir þeim sem formaður stærsta stjórnarflokksins. Með henni verða Lilja Alfreðsdóttir (gamla Framsókn), Helga Vala Helgadóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Inga Sæland og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þær segist vera tilbúnar að mynda sex flokka kvennastjórn. Flott útkoma á erfiðri kosningu. Aftur kæmist Ísland í heimsfréttirnar, nú fyrir kvennafrumkvæði og brottvísun Panama-greifa, en ekki fyrir einhver heimskupör. Stundum skapast tækifæri til að leika sigurleik, þrátt fyrir fyrri afleiki.

Drífðu í því

Punktar

Hafi Katrín Jakobsdóttir unnið heimavinnuna sína. Hafi hún talað hreint út við Ingu Sæland og Sigurð Inga Jóhannsson. Þá getur hún sagt Guðna Th. Jóhannessyni forseta, að hún sé nokkurn veginn tilbúin með nýja ríkisstjórn. Þá fær hún umboð til að mynda þá ríkisstjórn. Hlutirnir gerast hratt, en sumir hugsa of hægt. Ef vöfflur verða á henni, fær Bjarni Benediktsson umboðið og hangir á því í fjórar vikur. Svo einfalt er það. Katrín getur boðið Ingu, að uppfylltar verði allar kröfur hennar og hún fái velferðarráðuneytið. Getur boðið Sigurði, að varlega verði farið í kvótann og verndarhendi haldið yfir búvörusamningum. Drífðu í því.

Væg vinstri stjórn

Punktar

Stjórnin kolféll í kosningunum. Í staðinn kemur fimm flokka stjórn með fremur vægum vinstri svip. Líklega undir forustu Katrínar, ef hún hefur kjark. Þetta verður B+F+P+S+V stjórn. Eða líka +C. Í slíkri stjórn verða engir Panama-greifar. Það er gott fyrsta skref til endurreisnar. Hún mun auka peninga í velferð. Það er annað skrefið í átt frá bófaflokknum. Hvort tveggja lagar þjóðarsáttina og bætir stöðu landsins gagnvart vestrænu almenningsáliti. Við verðum að frysta úti bófa og Panama-greifa og bæta stöðu sameiginlegra áhugamála stjórnarflokkanna. Bjarni reynir þó að hrifsa völdin í viðræðum við forseta, en það mun honum ekki takast.

Bara spurning um vilja

Punktar

Forustufólk Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata getur vel talað saman og gefið eftir í stjórnarviðræðum. Gamla Framsókn hefur hreinsað sig af Panama-prins og er farin að líta til vinstri. Katrín, Logi, Þórhildur Sunna og Sigurður Ingi geta vel talað sig saman inn í ríkisstjórn. En þau hafa of lítinn meirihluta. Þurfa að ná inn Ingu, sem verður aðeins erfiðara. Vilji er allt, sem þarf, segir máltækið. Í þessum hópi eru engar gamlar illdeilur, sem oft einkenndu pólitíska foringja í gamla daga. Spurningin er, hvort þessi hópur hefur vilja til að ráða ferðinni eða hrökklast undan síbyljandi frekju bófaflokksins undir stjórn Panama-prins.

36 vinstri þingmenn

Punktar

Þjóðin endurreisti sig ekki í gær. Vinstri græn töpuðu af mikla sigrinum, sem þeim hafði verið spáð. Allir aðrir segjast hafa unnið, þótt það gildi varla um aðra en Samfylkinguna, Miðflokkinn og Flokk fólksins. Ekki er loku fyrir skotið, að báðir Panama-prinsarnir verði í ríkisstjórn. Kjósendur hafa hlaupið út og suður í tæpan áratug. Stundum hafa þeir stigið framfaraskref og jafnan stigið þau strax til baka. Ísland er því sama díki spillingar í dag og það var í gær. Bófaflokkar Panama-prinsa hafa þriðjunginn af öllu fylgi. Bezta vonin eru Vinstri græn, Samfylkingin, gamla Framsókn, Píratar og Flokkur fólksins, alls 36 á þingi.

Engir Panama-prinsar

Punktar

Reyndir pólitíkusar taka varla í mál að reyna að vinna með Sigmundi Davíð. Hann er einfaldlega ekki stjórntækur. Of margir vita það. Gerir þrautina þyngri fyrir Bjarna Ben. Valið er er svo lítið hægra megin við miðju. Og enginn til vinstri treystir sér til slíks samstarfs. Reynslan sýnir, að það jafngildir pólitísku sjálfsvígi. Katrín verður því næsti forsætis, líklega í samstarfi Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og eins flokks í viðbót, trúlega Framsóknar. Slík stjórn verður hátíð í samanburði við fráfarandi stjórn, þótt ekki verði hraðað nýrri stjórnarskrá eða uppstokkun atvinnuvega. En þar verða engir Panama-prinsar.

Stefnan mín:

Punktar

1. Nýja stjórnarskráin afgreidd
2. Opin skjöl og opnir fundir
3. Skattaþyngd frá fátækum til ríkra
4. Ókeypis heilsa – ókeypis menntun
5. Frjáls uppboð á leigu aflakvóta
6. „Sparkassen“ að þýzkri fyrirmynd
7. Almenningur í stjórn fyrirtækja
8. Rökfræði og siðfræði kennd
9. Undirbúin borgaralaun
10.Frelsi – jöfnuður – bræðralag
Sumir flokkar bjóða sum þessi atriði og enn færri meina nokkuð með loforðum sínum. Píratar komast næst þessum lista.

(Endurbirt, fyrst birt 2017.10.24)

Heimsfræg bófaþjóð

Punktar

Enn erum við orðin heimsfræg. Núna vegna kosninganna. Sumir af helztu fjölmiðlum heims furða sig á frumstæðum stjórnmálum Íslendinga. Þetta eru uppsláttarfréttir í Guardian, Financial Times og Süddeutsche. Á Norðurlöndum hafa Politiken, norska og sænska ríkissjónvarpið flutt rækilegar fréttir um málið. Almennt eru miðlarnir hissa á, að Panama-prinsarnir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skuli enn vera í framboði. Hvarvetna erlendis væru slíkir bófar sjálfkrafa úti í yztu myrkrum. Hér auglýsa þeir sig sem hornsteina stöðugleikans og flytja fávitum ævintýraleg loforð. Landið er fagurt, en þjóðin verður sér ævinlega til skammar.

Vinstri – hægri

Punktar

Við höfum tvenns konar þverstæðar myndir úr kosningabaráttunni:

1. Við viljum nýju stjórnarskrána – Nýja stjórnarskráin er ekki til
2. Hækkum tekjur fátæklinga – Hafið þið ekki séð veizluna drengir
3. Endurræsum ókeypis heilsuþjónusta – Þjóðin er heilsugóð
4. Færum skattbyrði af fátækum – Brauðmolar falla af borði ríkra
5. Bjarni er bófi samkvæmt gögnum – Það eru stolin gögn
6. Þjóðin fái aðild að þjóðareignum – Snertið ekki við pilsfaldaliðinu
7. Sjálfstæðisflokkurinn hækkaði ótal skatta – Hí á Skatta-Kötu
8. Ríkir taka fé úr þjóðfélaginu og fela – Ríkir fjárfesta í framförum
9. Minnkum ójöfnuðinn – Hvaða ójöfnuð?
10.Hér er allt í skralli – Ísland er bezt í heimi

Sú, sem er vinstra megin, er töluvert raunsærri.

Snákaolía gefst vel

Punktar

Því meira sem fjallað er um ósæmilegt brall forsætisráðherra í skattaskjóli aflandseyja, því hærra rís fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum. Því meira sem hlegið er að fyrirhugaðri seðlaprentun Wintris-sjónhverfingamannsins, því hærra rís fylgi Miðflokksins. Samtals þriðjungur þjóðarinnar lætur sér ekki bregða við augljós rök og flykkist að sölumönnum snákaolíu. Meðan svo er, verður þjóðinni ekki bjargað. Hún mun í tímans rás lenda í öðru hruni, þar sem kemur í ljós nýtt skítabrask, sem hún mun sætta sig við. Ísland mun ekki komast inn í vestrænan nútíma, heldur velkjast um úthaf gengismála á fúnum árabát krónunnar.

Fjórir helmingaskiptaflokkar

Punktar

Af þeim flokkum, sem ná mönnum á þing, eru fjórir helmingaskiptaflokkar. Báðir hefðbundnu helmingaskiptaflokkarnir hafa fjölgað sér með kynlausri æxlun og eru orðnir fjórir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur getið af sér Viðreisn og Framsókn hefur getið af sér Miðflokkinn. Samanlagt hafa flokkarnir fjórir væntingar um helming þingmanna. Vinstri flokkarnir eru hættir að tala um Katrínu Jakobs og farnir að mála Panamagreifana (andskotann) á vegg. Minnir dálítið á síðustu kosningar, þegar sæludraumurinn breyttist í martröð fortíðar, sem nú hefur tvöfaldazt. Við erum aldeilis ekki búin að bíta úr nálinni með okkar bófa og bjána.

Skýjaborgir Sigmundar

Punktar

Ég er enginn sérstakur aðdáandi Viðskiptaráðs, en eitt nytsamlegt hefur það gert, borið saman skattastefnur flokkanna. Segir, að Miðflokkurinn sé með „áberandi óskýrustu stefnuna“. Skýra stefnu hafa tveir, Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar, sem ganga þó sinn í hvora áttina. Sigmundur Davíð fær í samanburði Viðskiptaráðs algera falleinkunn. Miðflokkur hans er búinn til utan um einn sjónhverfingamann og mútara, sem byggir skýjaborgir til að láta kjósendur halda sig fá gefins pening. Tólf prósent kjósenda eru nógu ruglaðir og gráðugir til að gína við skrautflugum hans. Fólkið, sem ekkert skilur, en lætur auðveldlega heillast.

Meðvirka kjósendafélagið

Punktar

Gunnar Smári Egilsson lýsir vel stjórnmálaástandinu með samlíkingu við brotna fjölskyldu. Alkóhólistinn (Sjálfstæðisflokkurinn) kemur heim fárveikur eftir langvinnan brennivínstúr til Panama. Kvartar yfir, að engir peningar séu til á heimilinu og heimtar afréttara. Ofurmeðvirk fjölskyldan (aðrir flokkar) tiplar um á tánum til að styggja ekki sjúklinginn og koma sér í mjúkinn hjá honum. Hann er nefnilega höfuð fjölskyldunnar. Við má bæta, að í fylgd hans frá Panama kom drykkjufélaginn (Miðflokkurinn). Sá býðst til að strauja gullkortið hans afa og gefa viðstöddum af því, enda þjálfaður í slíkum sjónhverfingum. Líður svo skjótt að næsta hruni …