Firring og hatur

Punktar

Fésbók er full af dæmum fólks um andstöðu stjórnvalda við öryrkja, aldraða, veika og húsnæðislausa. Þetta er allt nákvæmlega rakið í tölum. Birtist okkur sem rótgróið hatur á smælingjum. Ráðherrar geta ekki meðtekið, að fólk sé að reyna að lifa af skiptimynt. Sama hvar í flokki þeir eru, þá ljóma þeir af sjálfsánægju. Gera enga tilraun til að mæta almenningsálitinu með öðrum tölum. Vísa bara í gervigröf frá fjölþjóðlegum stofnunum auðgreifa og valdagreifa og frá innlendum valdagreifum. Hatur stjórnarþingmanna svo grunnmúrað, að það er rökhelt. Í mörgum tilvikum hafa þeir aldrei kynnst fólki, sem þarf að reyna að lifa á skiptimynt.

Stefnan mín:

Punktar

1. Nýja stjórnarskráin afgreidd
2. Opin skjöl og opnir fundir
3. Skattaþyngd frá fátækum til ríkra
4. Ókeypis heilsa – ókeypis menntun
5. Frjáls uppboð á leigu aflakvóta
6. „Sparkassen“ að þýzkri fyrirmynd
7. Almenningur í stjórn fyrirtækja
8. Rökfræði og siðfræði kennd
9. Undirbúin borgaralaun
10.Frelsi – jöfnuður – bræðralag

Sumir flokkar bjóða sum þessi atriði og enn færri meina nokkuð með loforðum sínum. Píratar komast næst þessum lista.

Agnes í fortíðinni

Punktar

Ég hefði sagt mig úr þjóðkirkjunni eftir illa grunduð ummæli Agnesar biskups Sigurðardóttur. Var bara búinn að því áður. Hún hafnar þeirri skoðun nútímans, að vernda þurfi uppljóstrara. Sú skoðun er víðast lögfest á Vesturlöndum. En fyrir henni eru allar uppljóstranir þjófnaður. Það er svona gamaldags íhald eins og þjóðkirkjan var. Ekki einu sinni prestar eru hennar skoðunar. Betra væri, að hún héldi sig við að hamast í vörn og sókn í peningamálum, svo sem drátt á fiski í vötnum og önnur hlunnindi. En léti siðfræðingum eftir að gefa álit á siðferði. Þjóðkirkjan á sífellt á hættu að dragast aftur úr þjóðfélagi á framfaraskeiði.

Ofmat á loforðum

Punktar

Mér finnst mat á loforðum hafa um of yfirtekið kosningabaráttuna. Fólk tekur alls konar próf til að finna samsvörun með sér og flokkum eða frambjóðendum. Hafið þið ekki fattað, að orð eru oftast lygi í pólitík? Flokkur og frambjóðandi lofar öllu fögru, en hyggst ekki efna neitt af því. Efndi Sjálfstæðisflokkurinn eitt loforða sinni eftir síðustu kosningar? Það er ekki til marklausari iðja en að bera orð frambjóðanda saman við skoðanir þínar. Auðvitað skipta gerðir máli, ekki orð. Auðvelt er fyrir þig að sjá, að þeir, sem hafa verið í stjórn síðustu fjögur ár, eru ónothæfir. Einkum D, en líka C og A, B og M. Þetta er allra einfaldasta mál.

Farðu burt Bjarni

Punktar

Bjarni Benediktsson hefur í rúman áratug verið í braski um vanhelg sambönd sín í bönkunum. Ætlaði sér að græða á húsum í Macao, sem síðan reyndust vera í Miami. Á öllum stigum sagði hann rangt frá málavöxtum. Hann var í öllu því gráa, sem erlendis telst siðblinda, sem hæfi ekki pólitíkusi. Hann gekk um bankana, færði til peninga, flutti yfir í gjaldeyri og allt annað, sem venjulegir kúnnar gátu ekki. Á mörgum sviðum var hann siðvilltari en Sigmundur Davíð, sem lýgur fremur skýjaborgum um að gefa kjósendum fé. Farðu burt Bjarni, þú átt ekkert erindi hér lengur í þessu landi. Og mundu eftir að taka Sigmund Davíð með þér um borð.

Bara í fótunum

Punktar

Leifar fjórflokksins eru enn öflugar eftir að hafa hundrað sinnum spilað rassinn úr buxunum. Samtals eru þeir orðnir sex flokkar eftir klofning Sjálfstæðis og Framsóknar, með alls um 80% stuðning þjóðarinnar. Skýrara dæmi er ekki unnt að finna um dauðaþrá íslenzku þjóðarinnar. Eftir hverjar efnahagslegu hamfarirnar á fætur annarri, þráir þjóðin að umfaðmast af tveimur ríkisbubbum með stolið fé í skattaskjóli á aflandseyjum. Siðblinda þjóðarinnar er orðin aðhlátursefni víða um heim. Íslendingar hafa lítið í höfðinu, en geta spilað bolta. „Was man nicht im Kopf hat, hat man in den Beinen,“ segir þýzka spakmælið um okkar furðulegu þjóð.

Einn með lausnir

Punktar

Þú er kjósandi. Búinn að fá nóg af bófum og jafnvel fjórflokknum öllum. Búinn að fá nóg af súkkulaðidrengjum Engeyinga og Kögunar. Búinn að fá nóg af gerðum, sem ganga þvert á gefin loforð. Búinn að fá nóg af skattleysi þeirra allra ríkustu og annarra, sem safna haugum af gjaldeyri í skattaparadísum aflandseyja. Búinn að fá nóg af hruni af mannavöldum. Búinn að fá nóg af húsnæðisleysi ungs fólks. Búinn að fá nóg af skerðingum aldraðra og öryrkja. Búinn að fá leið á endalausu leyndó í kerfinu og bönkunum. Unga fólkið hefur af eigin hvötum stofnað flokk til að leysa vanda nútíðar og framtíðar. Píratar eru flokkur, sem hefur lausnir.

Orð standa ekki

Punktar

Ríkisútvarpið hefur útbúið kosningaspil, sem gerir fólk kleift að bera sig saman við flokka og frambjóðendur. Samt er spilið gagnslaust. Gerir ráð fyrir, að yfirlýsingar og loforð flokka og frambjóðenda séu marktæk. En það eru þau ekki. Ef við tökum hina deyjandi ríkisstjórn sem dæmi, þá reyndust verkin vera öfug við loforðin, ekki bara hjá bófaflokknum. Sama verður uppi á teningnum núna. Sá, sem samsvarar sig við Bjarna Ben eða Sigmund Davíð verður fyrir vonbrigðum eftir kosningar. Kosningaspil Ríkisútvarpsins er ágætis dægradvöl, en gefur jafnframt í skyn, að orð muni standa. Það er einmitt einkenni orða, að þau standast ekki.

Katrín er ógnin

Punktar

Ekki að ástæðulausu beinist kosningabarátta bófaflokksins sérstaklega að Katrínu Jakobsdóttur. Í fyrsta lagi hefur hún mun meiri kjörþokka en Bjarni Benediktsson fjárglæframaður. Í öðru lagi kemur á óvart, að fylgi skefst af bófunum beint til Vinstri grænna, án viðkomu í öðrum flokkum. Vinstri græn hafa nefnilega hagað kosningabaráttunni þannig, að hún er alls staðar og hvergi. Ekki mikið fyrir nýja stjórnarskrá, ekki heldur uppboð á veiðileyfum. Mestu máli skiptir þó, að bófaflokkurinn er eins skattafíkinn og hann sakar Katrínu um. Munurinn er sá, að bófarnir vilja leggja á fátæka, en Katrín vill færa byrðina yfir til hinna ríku.

Skortur á mannasiðum

Punktar

Öll þessi #MeToo bréf á samfélagsmiðum hafa skekið Vesturlönd, ekki síður Ísland en önnur lönd, jafnvel meira. Á Stéttinni í gærmorgun fékk ég að heyra nákvæmar sögur af köllum, sem ég þekki. Mér hafði ekki dottið í hug að til væri þvílíkt áreiti. Það stangast á við allt, sem ég hef lesið um siði og framkomu fólks. Ég hef lengi talið, að taka þurfi upp kennslu í rökfræði í menntaskólum, til dæmis í tíu algengustu rökvillum, sem taka yfir hálfa fésbókina. Nú sé ég, að ekki er síður þörf á kennslu í siðfræði í menntaskólum. Kennslu í mannasiðum, hvernig fólk hagar sér í samskiptum við annað fólk, einkum þó og sér í lagi við konur.

Tugþúsundir í ruglinu

Punktar

Mörgum finnst fréttnæmt, að Sjálfstæðis sé kominn niður fyrir 20% í fylgi. Mér finnst merkara, að 40.000 manns ætli að kjósa bófaflokkinn. Þrátt fyrir allt, sem gengið hefur á. Fréttir um leynireikninga Bjarna formanns í skattaskjóli á aflandseyjum og margs konar brask hans í beinu sambandi við glæpabanka á síðustu stundu fyrir hrun. Í evrópskum alvörulöndum sæti hann í fangelsi, misheppnaður fjárglæframaður með pólitískt öryggisnet. Eins finnst mér merkilegt, að annar fjárglæfrakall og spraðurbassi skuli eiga slíka reikninga í skattaskjóli og vera aðili að hrægammasjóðum. 20.000 ætla að kjósa Sigmund, sem ætti líka að sitja inni.

Sparkið bófum út

Punktar

Öryggisstofnun Evrópu hefur óskað eftir, að íslenzk stjórnvöld aflétti lögbanni hins pólitíska sýslumanns á birtingu efnis um fjárglæfra Bjarna Benediktssonar. Ríkisstjórnin er þannig orðin að vandræðabarni evrópskra siðaregla. Eins og við séum eins konar Kenía eða Egyptaland. Bjarni hefur ekki lyft litla fingri til að fá banninu aflétt, þótt hann segi það vera árás á sig. Bófarnir eru ekki í vanda við að hrópa: Ekki ég. Og kenna öðrum um. Þetta er eins og Mafían á Sikiley og á Möltu. Hér eru þó ekki blaðamenn sprengdir upp. En ljóst má vera, að fyrir þroska lýðræðis er Sjálfstæðis algert eitur, sem kjósendur einir geta sparkað út.

Tunnan valt og úr henni allt

Punktar

Nú fer að koma tími til að spá í skoðanakannanir. MMR kannaði í gær og í dag og komst að athygliverðum niðurstöðum. Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn eru komin niður fyrir 20%. Merkilegt er þó, að sá síðarnefndi tapar bara rúmu 1% á lögbannsmáli flokksins. Hér eftir verður erfitt að skafa meira utan af honum. Þá er bara eftir árleg minnkun vegna andláts aldraðra. Fylgishrunið er mest hjá Flokki fólksins, sem missir kjósendur í allar áttir. Mest til flokks Sigmundar Davíðs Panamagreifa, sem lengi hefur verið ófyrirleitnasti sölumaður snákaolíu. Samfylkingin og Píratar eru á uppleið, ánægjuefni fyrir miðjuna í pólitíkinni.

Bófar tala í kross

Punktar

Kosningastríð bófaflokksins er að fara í gang í dag efir að hafa verið truflað af tveimur stórmálum. Annað eru frásagnir fjölda kvenna, innlendra og erlendra, af kynferðislegri áreitni. Þær hafa runnið saman við stuðning föður forsætis við uppreist æru barnaníðings. Hitt er lögbann við birtingu frétta um fjárglæfra forsætis og efasamdir um, að hann kunni með fé að fara. Í dag fóru samtök atvinnurekenda af stað með nýja röð af lygagröfum um kostnað við skattahækkanir. Sama dag fer forsætis allt einu að tala jákvætt um auðlindarentu. Hagsmunirnir og bófaflokkur þeirra tala í kross í þessari síðbúnu bylgju kosningaáróðurs.

Bófar hristi sýslumann sinn

Punktar

Jæja, þá eru ráðherrar bófaflokksins hver á fætur öðrum búnir að lýsa furðu sinni á lögbanni sýslumanns bófanna. Þar á meðal forsætis. Næst að láta gerðir fylgja orðum. Þeir gangi á fund sýslumanns síns og segi honum þá meiningu sína, að hann sé glórulaust fífl. Þeir semji á fundinum afturköllun lögbannsins og láti sýslumann sinn undirrita. Annars eru orð þeirra einskis virði. Ljóst er, að ekki einu sinni gamlingjar flokksins taka að sér að verja sýslumann sinn. Létt er að fórna einum skjalfestum brotamanni flokksins til að létta á formannsstrák, sem á sér langa harmsögu fjárglæfra í skjóli pólitískrar aðstöðu og ætternis.