Laskað lýðræði

Punktar

Sýslumaður bófaflokksins var látinn reyna að stöðva fréttir fjölmiðla af Bjarna Benediktssyni, fjárglæfrum hans, forréttindum og aðkomu pabbans að ýmsum málum stráksins. Dómarar bófaflokksins munu gæta þess, að úrskurður komi ekki fyrr en eftir kosningar. Lýðræði er hér að færast í sömu átt og í Venezúela. Bófarnir grípa hvert hálmstráið á fætur öðru í lygum og þöggun. Mogginn spilar í dag ekki með bófaflokknum, hvað sem síðar verður. Aðeins Viðskiptablaðið hlýðir flokknum. Nú getur fólk farið á opna fundi bófaflokksins og spurt, hvers vegna flokkurinn hætti ekki afskiptum af pólitík. Skrípó bófanna er gengið út fyrir allar öfgar.

Umræðan er stjórnlaus

Punktar

Nokkur mál hafa ekki náð nægri umfjöllun og teljast tæplega kosningamál. Þar er fremst Stjórnarskráin, sem bara Píratar fjalla um. Næst kemur uppboð veiðileyfa, auðlindarentan, sem jafnvel Píratar eru hættir að fjalla um. Selja væntanlega ekki nógu vel. Önnur mál hafa fengið töluverða umfjöllun. Sjálfstæðisflokknum hefur aldrei þessu vant mistekizt að stýra umræðunni. Forusta Viðskiptablaðsins hefur gefizt illa. Fölsuðu gröfin um stöðu Íslands í umheiminum hafa jafnóðum verið sprengd upp. Misskipting ríkra og fátækra hefur raunar aukizt um langan tíma. En við bíðum enn eftir stóru bombunni, sem ruglar allar fyrri kannanir.

Ei má birta um bófann

Punktar

Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur fallizt á lögbannskröfu þrotabús Glitnis gegn Stundinni og Reykjavík Media. Gögnin, sem ekki má birta, fjalla að mestu leyti um fjárglæfra Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Ekkert lögbann hefur verið sett á Guardian, sem er þriðji útgefandi þessarar sorgarsögu. Fyrsti kaflinn var birtur í Stundinni um síðustu helgi og von var á næsta kafla í þessari viku. Enginn veit, hvort þjóðin fær frekari upplýsingar um, hvers vegna Bjarni Ben er óhæfur um að vera í pólitík, hvað þá að vera forsætisráðherra. Honum ber að segja af sér. Nú þegar. Við getum ekki lengur verið athlægi nágrannaþjóða.

Þrír flokkar telja

Punktar

Furðulegt er, að sumt fólk vilji kjósa flokka undir forustu Panama-greifa, sem hugsa eingöngu um sjálfa sig, bófaflokkinn eða Sigmund. Furðulegt er, að sumt fólk vilji kjósa eins manns flokka með varhugaverða undirsáta, Flokk fólksins eða Sigmund. Skynsamlegt er af þessum ástæðum að hafna Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum og Flokki fólksins. Tveir flokkar eru komnir niður fyrir 5% og munu ekki fá kjörna þingmenn. Rétt er því að hafna hækjum bófanna, Bjartri framtíð, Viðreisn og nokkrum örflokkum öðrum. Eftir standa þá Vinstri græn, Píratar og Samfylkingin. Þeir eru líklegir til að geta myndað stjórn um hag almennings.

Óbærilegar kosningar

Punktar

Óbærilegt er, að tveir stjórnmálaflokkar snúist um skattaparadísar-prinsa frá aflandseyjum. Óbærilegt er að annar flokkurinn einbeiti sér að ráni á eigum landsmanna með einkavinavæðingu. Óbærilegt er, að hinn sé hinum megin við borð í liði með hræfuglasjóðum. Óbærilegt er að hugsa til þess, að þúsundir Íslendinga muni kjósa þessa tvo bófa, sem hafa leikið samfélagið grátt og munu gera það áfram. Þar að auki er óbærilegt, að svonefndur fjórflokkur skuli enn fá atkvæði meirihluta kjósenda. Eins er óbærilegt, að hundruð kjósenda trúi, að flóttafólk geti borgað brýna lagfæringu á kjörum aldraðra, öryrkja og húsnæðislausra.

Hér vantar „Sparkasse“

Punktar

Ríkið þarf að reka einn samfélagsbanka, til dæmis Landsbankann. Sá verði utan við allt brask, eingöngu rekinn fyrir almenning. Bezt reynsla af samfélagsbönkum er í Þýzkalandi, þar sem hvert land hefur sinn Sparkasse. Gott væri að senda nokkrar persónur þangað til að kynna sér mismun á Sparkasse og bönkum. Síðan þarf ríkið að semja við lífeyrissjóði um fjármögnun slíks banka. Og semja við Seðlabankann um lægri grunnvexti. Ríkið gæti spýtt nokkrum milljörðum í slíkan banka. Markmiðið er, að lántakendur njóti 2% vaxta, sem er ærið nóg. Eini flokkurinn, sem er líklegur til að halda Sparkasse til streitu, eru Píratar.

Loksins horft til framtíðar

Punktar

Áratugum saman, í hálfa öld, hef ég umgengist stjórnmálamenn og flokka af varúð. Þetta lið hefur flest svarta áru, er siðblint, hugsar um eigin hag og lýgur af miklum móð fyrir kosningar. Til dæmis er Sjálfstæðisflokkur hreinn bófaflokkur og aðrir flokkar meira eða minna undirförulir gagnvart kjósendum. Píratar komu inn á þennan vettvang, meira eða minna ungir og áttavilltir. Hafa á nokkrum árum þroskazt upp í heildstæðan flokk með vel hugsaða stefnu í þágu almennings. Flokk með lausnir fyrir húsnæðislaus ungmenni og fyrir auralausa aldraða og öryrkja. Flokk, sem horfir til framtíðar, þar sem tæknin hefur umturnað lífi almennings.

Heima er bezt

Punktar

Kjósendur yfirgáfu Samfylkinguna og Vinstri græn um skeið í könnunum og döðruðu við Pírata. Eru nú á leið til baka í gömlu flokkana sína. Hafa fyrirgefið þeim hreingerningar á tíma Jóhönnu og Steingríms. Telja Katrínu og Loga ekki munu svíkja mikið að þessu sinni. Á sama tíma gerðu Píratar ýmis mistök, skiluðu auðu á alþingi og misstu Birgittu. Hafa að vísu fengið frábæra Þórhildi Sunnu sem ígildi formanns, en flagga henni ekki nándar nærri nóg. Þau hafa beztu stefnuna og hafa ekki svikið neitt, en hafa of mikla óbeit á foringjaræði. Þau munu verða samstarfsfús um stjórnarmyndun, en tími endurræsingar virðist ekki vera kominn.

Deyjandi bófaflokkur

Punktar

Í fyrsta sinn í langan tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki haft tök á slagnum. Er dottinn í 23% fylgi og lyftir sér ekki upp. Tvær vikur til stefnu og góð ráð dýr. Hörðustu baráttusveitirnar eru atvinnurekendafélagið og Viðskiptablaðið, en Mogginn rambar stundum í átt til Wintris. Gömlu lygarnar og lummurnar virka ekki lengur. Fjölmiðlar og hagsmunasamtök hafa glatað miklu af áhrifavaldi sínu. Í staðinn hafa aukizt áhrif samfélagsmiðla og þeir hafa mótað slaginn að þessu sinni. Ekki er lengur minnst á Flokkinn sem hornstein hverrar ríkisstjórnar. Og fólk er farið að fyrirgefa hreingerninguna Vinstri grænum og Samfylkingunni.

Falskar staðreyndir

Punktar

Almannatenglar telja sig hafa uppgötvað, að séu staðreyndir erfiðar flokkum, sé bezta ráðið að framleiða falskar staðreyndir. Þær séu svo endurteknar nógu lengi til að kjósendur fari að trúa upplognum staðreyndum. Bófaflokkurinn er með röð af fölskum staðreyndum, studdum gröfum og súlum. Í fölsku staðreyndunum er haldið fram, að fé til heilsuþjónustu hafi sprungið út. Að bil milli ríkra og fátækra hafi minnkað. Staðreyndirnar eru þveröfugar. En það skiptir ekki máli fyrir bófaflokkinn, sem reynir bara að draga til sín fylgi hinna fáfróðustu. Keppir í fjölbreyttu og vinsælu lýðskrumi við Sigmundista og Flokk fólksins.

Að draga úr ójöfnuði

Punktar

Hér á landi og almennt á Vesturlöndum hefur skattbyrði láglaunafólks aukizt, en skattbyrði auðjöfra minnkað síðustu áratugi. Munur ríkra og fátækra hefur aukizt verulega, samanber tölur OXFAM. Við munum minnka muninn eftir stjórnarskiptin. Hækka persónuafslátt, hækka skattleysismörk. Vonandi tökum við aftur upp skatt á stóreignir, þó ekki á eigin íbúð. Síðasta ríkisstjórn lagði þennan skatt niður. Einnig munum við færa fjármagnstekjuskatt nær vinnutekjuskatti. Við munum loka fyrir holur í skattakerfinu, skattleggja kennitöluflakk og alla „hækkun í hafi“. Þetta er í stórum dráttum það, sem píratar vilja gera til að draga úr ójöfnuði.

Augljóst ofsóknaræði

Punktar

Hatur Sigmundar Davíðs á fjölmiðlum minnir á Donald Trump. Telur þá meðal annars hafa myndað samsæri gegn sér að tilhlutan George Soros auðkýfings. Hvernig Soros hefur komið með sér að borði Guardian og Stundinni er mér óskiljanlegt, enda hefur Sigmundur ekki skýrt það nánar. Athyglisvert er, að hann getur fabúlerað óskilgreindar ofsóknir gegn sér án þess að stjarfir stuðningsmenn fari að efast. Þetta er augljóst ofsóknaræði, sem ekki er gott vegarnesti stjórnmálamanns. Þið sjáið, hvernig stjórnarmyndunarviðræður munu ganga, þegar Sigmundur rýkur brott af fundi eða mætir ekki á fundi. Hann er ágætis dæmi um óstjórntækan pólitíkus.

Bezta fólkið sígur

Punktar

Píratar síga í könnunum, enda hafa þau beztu stefnuna. Vilja lækka skatta fólks með hærri skattleysismörkum. Vilja auka gegnsæi í pólitík, stofnunum og bönkum. Og girða fyrir aðild bófa að stjórnmálum með því að gegnumlýsa þá. Píratar eru með góðar lausnir fyrir húsnæðislausa, lægri byggingakostnað og lægri vexti. Þau vilja láta gamlingja fá það til baka, sem tekið hefur verið af þeim, afturvirkt eins og laun þingmanna. Vilja ná fullri auðlindarentu af kvótagreifum og fullum auðlegðarskatti af ofsaríkum. Vilja, að allir fái ókeypis heilsuþjónustu. Hafa útskýrt fjármögnun allra þessara góðu verka. Kjósendur hallast meira að skrumi.

Tveir eins manns flokkar

Punktar

Tveir flokkar skera sig úr. Hvor tveggja er eins manns flokkur, sem byggist bara á lýðskrumi. Sigmundur Davíð er ósamstarfshæfur og verður aldrei í ríkisstjórn framar. Auðvelt er að sjá af reynslunni, að hann vinnur ekki með öðrum og getur það hreinlega ekki. Mætir ekki í vinnu. Getur hins vegar látið illa í ræðustóli eins og sölumaður snákaolíu, sem gabbar sveitamanninn. Inga Sæland er að sumu leyti svipuð, samt ekki beinlínis klikkuð. En lýðskrumið flýtur viðstöðulaust upp úr henni. Ég á erfitt með að sjá hana í ríkisstjórn. Þau tvö eru afturhvarf til fortíðar, þegar predikarar gátu dáleitt fjölda fávita inn í rússíbana.

Horn skella á nösum

Punktar

Nýjasta skoðanakönnunin sýnir nokkurn veginn tvær fylkingar. Annars vegar undir forustu Vinstri grænna og stuðningi Pírata og Samfylkingarinnar, 46,7%. Hins vegar örlítið smærri hóp undir forustu Sjálfstæðisflokksins og stuðningi Simma, Framsóknar og Flokks fólksins, 45,1%. Ég efast þó um, að Simmi og Framsókn fari saman í stjórn. En þetta eru kostirnir, annað hvort þrír flokkar til vinstri eða fjórir flokkar til hægri og í lýðskrumi. Síðari útgáfan er nánast óframkvæmanleg og yrði aldrei nein kjölfesta. Hugsið ykkur Sigmund, Bjarna og Ingu á sama tíma í kasti. „Horn skella á nösum og hnútur fljúga um borð“, eins og á Glæsivöllum. Niðurstaðan verður svo VG+D.