Tryllt öskur ráðherra

Punktar

Bjarni Ben er að missa kúlið út af fréttum heima og erlendis um streitu hans við að sameina brask og stjórnmál. Á laugardaginn reifst hann við blaðakonu á 365, svo heyrðist vítt um húsið. Fólki brá þar við tryllt öskur forsætisráðherra. Á mánudaginn var hann svo leiðréttur af Guardian, einna áreiðanlegustu heimildinni í fréttabransanum. Búast má því við, að tryllt öskur Bjarna verði endurtekin víðar á skrifstofum fjölmiðla. Hann sér fram á fylgistap í kosningum og missi hans á stöðu formanns. Bófaflokkurinn getur ekki unað við formann, sem sleppir sér og öskrar. Ekki frekar en Framsókn gat unað við trylltan Sigmund Davíð.

Fjölflokka Viðreisn

Punktar

Benedikt frændi hallar sér að bófaflokknum. Segir, að skrítin mál, sem tengjast Bjarna Ben. séu að fullu útskýrð og eðlileg. Ekki hafi verið þörf á að slíta stjórninni. Þorsteinn Víglundsson hallar sér hins vegar að Karli Marx. Segir, að þeir skaffi, sem geta, og þeir fái, sem þurfa. Þriðja stefna flokksins er Þorgerðar Katrínar. Segir, að markaður sé allra meina bót, ekki sízt í heilsugeiranum. Er á sömu línu og kreddufólk nýfrjálshyggju. Svo virðist, sem kjósendur skilji ekki þessa þríeinu þverstæður, því að fylgi Viðreisnar mælist nánast ekkert. Allar stefnur í einum flokki virka undarlega. Skrítinn flokkur Viðreisn.

Líka svona bilaðir

Punktar

Sigmundur Davíð er hættur að hlaupa út í miðju fjölmiðlaviðtali. Nú hleypur hann út á síðustu sekúndunni, meðan annað forustufólk stjórnmálaflokka kveður siðum samkvæmt eða knúsast jafnvel. Sigmundur vill ekki tala við annað fólk. Ekki einu sinni væntanlegt samstarfsfólk á þingi. Þú nærð ekki samkomulagi við Sigmund, hann gargar bara. Gersamlega óstjórntækur. Flytur órökstudda óra og telur aðra sitja á svikráðum við sig. Býður sig fram til alþingis, en mætir nánast aldrei. Mesti óþurftarmaður íslenzkra stjórnmála. Hefur misst upprunalega hirð sína, en nær þó áhuga fjórtán þúsund kjósenda. Eru þeir líka svona bilaðir í hugsun?

Bezta mögulega líf

Punktar

Flokkarnir keppast um að lofa fólki gulli og grænum skógum. Vaxtalitlum íbúðum, hærri skattleysismörkum, efndum svikinna loforða. Bófaflokkurinn, Björt framtíð og Viðreisn og Framsókn lofuðu þessu í fyrri ríkisstjórnum. Nánast allir flokkar þegja um fjármögnun loforðanna. Píratar segja þau kosta auðlegðarskatt á þá ríkustu og minni afgang á ríkisreikningi. Þannig gengur dæmið upp, en ekki með innantómum loforðum. Bófaflokkurinn hins vegar segir okkur, að allir hafi það ofsalega gott og að við búum við bezta mögulega stjórnarfar. Þar hefur hann sagt í tæp fjörtíu ár. Og enn trúa um 50 þúsund manns, að þau lifi í ævintýri hans.

Í lífsins ölduróti

Punktar

Flokkarnir eru komnir langt frá uppruna sínum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur færzt frá sósíaldemókratískum flokki Ólafs Thors. Er orðinn að pilsfaldaflokki fyrir fjármálabófa, sem mjólka ríkissjóð með einkavinavæðingu. Vinstri græn eru hvorki vinstri né græn, heldur sveitaíhald að hætti gömlu Framsóknar. Framsókn missti ruglaðan formann, sem lofar gulli og grænum skógum. Svo er slæðingur af litlum flokkum, sem skjótast í eyðurnar hjá reköldum gömlu flokkanna. Píratar eru eini flokkurinn með framtíðarsýn, heilbrigðan eigin fjárhag og ungan og greindan mannskap. Sá flokkur greinir frá tekjum og útgjöldum við heillandi stefnu sína.

40 ára miðstéttarfólk

Punktar

Gunnar Smári hefur reiknað út stéttarstöðu helztu frambjóðenda Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Komst að raun um, að þar eru fáir eða engir úr undirstéttum samfélagsins. Nánast allir eru sérfræðingar eða embættismenn úr miðstéttum, vel stætt fólk. Lítið er um gamlingja á listunum og lítið um ungt fólk. Yfirleitt eru frambjóðendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna miðstéttarfólk um fertugt. Þessir tveir flokkar hafa alveg flutt sig burt frá sínum fyrstu umbjóðendum og gæta helzt lúxusvanda fertugs miðstéttafólks. Engin furða er, þótt skríllinn laðist að rakettum með töfrabrögð, Ingu Sæland og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Gunnar Smári

Skrítnir þessir píratar

Punktar

Píratar eru öðru vísi en aðrir. Borga skuldir flokksins, taka ekki kosningalán. Eru ábyrgari en Sjálfstæðis, sem hefur ekki grynnkað á skuldum í áratug. Píratar bjóða fram ungt, heiðarlegt fólk. Bjóða rækilega stefnu, byggða á fundum þeirra og sérfræðinga. Ekki varahjól undir vagni gömlu bófanna, úreltrar stjórnarskrár, stóriðjustefnu eða styrjaldar við fátæka og húsnæðislausa. Eru klettur í hafi stjórnlauss lýðskrums nýrra flokka. Vilja vita, hvað öll þráð atriði kosta í fjárlögum. Fyrst og fremst þjóna píratar engum sérhagsmunum eins og aðrir þjóna. Hyggjast opna stjórnkerfið frá degi til dags til að hindra samsæri gegn fólkinu.

Sjálfvirkar þýðingar batna

Punktar

Nota stundum Google Translate. Sjálfvirki þýðarinn hefur batnað mikið upp á síðkastið. Núna er nokkurn veginn hægt að skilja ensku þýðinguna á íslenzkum texta. Íslenzka er eitt af fjörutíu tungumálum heimsins, sem fá úrvalsþjónustu þessa hjá Google. Þessi fjörutíu tungumál verða heimsmálin, þegar þýðingarnar þroskast enn frekar. Sæmilegar horfur eru á, að þetta takist með íslenzku. Þó er hugsanlegt, að eftir sitji erfiðir hnútar. Að því leyti er líklegt, að íslenzka breytist með tímanum, verði einfaldari og flatari. Sú þróun ræður úrslitum um, hvort íslenzka lifir eða hvort þjóðin taki smám saman upp ensku sem tungumál.

Losum okkur við bófana

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn er ábyrgðarlaus. Stjórnir með honum innanborðs gefast upp innan árs. Hann vinnur fyrst og fremst fyrir 1% þjóðarinnar, þá allra ríkustu. Stefnuskrár hans fyrir kosningar eru einskis virði. Þær eru tálbeita fyrir alla hina. Yfirleitt hafa þær virkað á heimskasta hluta þjóðarinnar, en nú er fylgið komið niður í  20%. Yfirgangur flokksins og frekja eru slík, að rest af fundarfólki verður málstola. Þetta er einfaldlega flokkur hinnar íslenzku mafíu, bófaflokkur landsins. Við komumst ekkert fram á veg fyrr en við losnum við hann úr stjórn, ráðum og nefndum og embættum og dómstólum. Hann er hreint eitur í pólitíkinni.

Siðblindingjar verjast

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn flykkir sér að baki Bjarna Benediktssyni. Framámenn þar á bæ segja hann ekki hafa gert neitt ólöglegt. Það er að vísu ekki vitað enn. Hitt er víst, að formaður flokksins og öll hans ætt hefur verið og er á kafi í grófri siðblindu, sem hæfir ekki pólitíkusi og allra sízt forsætisráðherra. En líklega skiptir það kjósendur ekki máli. Þessi 22% þjóðarinnar, sem enn þverskallast samkvæmt skoðanakönnunum, eru bara kjósendur, sem láta sig siðblindu engu varða. En það eru þó um 50.000 kjósendur, sem eru haldnir siðblindu að meira eða minna leyti. Restin af þjóðinni þarf að einbeita sér að því að losna við bófaflokkinn.

Bjarni með skítuga putta

Punktar

Bjarni Benediktsson seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2.- 6. október 2008. Til dagsins, sem Geir kom með neyðarlögin og bankarnir hrundu. Það segja heimsblaðið Guardian, Reykjavík Media og Stundin í morgun. Bjarni sat þá fundi um alvarlega stöðu bankanna og seldi bréf fyrir 50 milljónir króna. Alls seldi Bjarni bréf í Glitni fyrir rúmlega 120 milljónir króna eftir fundi með Lárusi Welding, bankastjóra Glitnis. Slíkt innherjamál setti Baldur Guðlaugsson í tveggja ára fangelsi. Ekki er ljóst, hvað verður með Bjarna, en ljóst er, að siðblindingi getur ekki lengur þvælst fyrir í pólitík með sína skítugu putta.

Siðblinda er burðarvirki

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir, að ofsaríkir verði enn ríkari og fátækir fái aldeilis að kenna á því. Hann er eins og talsmenn flokksins í fjölmiðlum. Þeir skrifa um fátæka sem aumingja og um skattbyrði af þeirra völdum. Raunar telja þeir margs konar ólán, svo sem örorku og húsnæðismissi, vera refsingu guðs fyrir að vera aumingi. Erlend börn, sem hafa verið á flótta frá fæðingu, fá skammir fyrir að leita hælis hér á landi. Meðan almenningur furðar sig á mannvonzku innanríkisráðherrans, lofa talsmenn ráðherrann fyrir að hafna allri samúð. Það er greinilegt, að siðblinda er sjálft burðarvirkið í Sjálfstæðisflokknum.

Ríkir hafa ekki launatekjur

Punktar

Rangt er að tengja ójöfnuð við tekjumun. Fólk verður ekki ríkt af háum tekjum. Reynslan sýnir, að auður verður til af aðgangi að fjármagni. Fólk getur keypt og selt af sjálfu sér. Það getur hækkað verð í hafi. Það getur svikið undan skatti með millifærslum gjaldeyris. Heldur þú að frú Sigmundar borgi útsvar? Auðvitað ekki, en það gera skúringakonur. Árlega söknum við fjölda fólks af skattskrá, það borgar litla eða enga skatta. Á því verður fólk ríkt. Þess vegna á að tengja ójöfnuð við eignamun. Ekki bara við innlendar eignir, heldur líka í bönkum í skattaskjóli á aflandseyjum. Ekki rugla umræðuna. Ríkir hafa ekki launatekjur.

Hreinn eiturflokkur

Punktar

Einn er skattamunur á Sjálfstæðisflokknum og vinstri flokkum. Sá fyrstnefndi hækkar skatta á þá, sem minnst mega sín, samanber fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. Þannig hefur það ætíð verið í stjórnartíð bófaflokksins. Vinstri flokkar hækka hins vegar skatta á þá ríkustu, samanber auðlegðarskatt og auðlindaskatt. Baráttan á alþingi snýst annars vegar um þessa stéttaskiptingu og hins vegar um eitrun ríkiskerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn hleður sínu liði á alla pósta ríkisins og býr til nýja. Hann umgengst lög og reglur af fullkomnu ábyrgðarleysi. Hann drepur alla flokka, sem hann notar sem hækjur. Hreint eitur.

Eitt skref í einu

Punktar

Hækkandi sól Vinstri grænna gefur von um, að lokið sé valdaskeiði bófaflokksins. Það eitt mundi nægja til gleðjast yfir kosningunum í lok mánaðarins. Aðkoma Sjálfstæðisflokksins að pólitík snýst ekki um hana, heldur um herfang. Ekki er mark á einu orði takandi í stefnu bófaflokksins, hann hefur allt annað í huga. Að öðru leyti er ekki búið að innleiða neitt himnaríki á vegum Vinstri grænna. Flokkurinn er að mörgu leyti íhald í þjónustu kvótagreifa og vinnslustöðva. Og efast um nýja stjórnarskrá. Eins og oft verður ekki við öllu séð. Vinstri græn eru stór bati að lokinni bófastjórn. Stundum sættist þú við eitt skref í einu.