381.000 lágmark á mánuði

Punktar

Hagstofan hefur reiknað út, að 10% þjóðarinnar á tekjubotninum hafa minna en 381 þúsund krónur í mánaðartekjur. Þetta er ekki til að lifa af. Þarna er launafólk, t.d. við barnagæzlu, svo og aldraðir, öryrkjar, sjúklingar, líka húsnæðislausir. Öllum þeim þarf að lyfta upp í framanskráðar 381 þúsund krónur til þess að geta lifað af. Þetta eru fátækramörkin í landinu. Þýðir, að ríkið þarf að setja upp 381 þúsund krónur í lágmarkslaun fyrir alla. Nú eru lágmarkslaun miklu lægri, 280 þúsund. Þau eru skandall. Féð má fá af auðlegðarskatti og auðlindarentu og skatti á skattsvik Panamagreifa. Raunar mætti rúnna lágmarkslaun af í 400 þús.

Kjarninn mátaði SDG

Punktar

Þrátt fyrir Fréttablaðið og Morgunblaðið höfum við enn alvörufjölmiðla á borð við Kjarnann, sem grafa upp sannleikann. Morguninn eftir sjónarspil Sigmundar Davíðs var Kjarninn búinn að tæta allan málflutning sjónhverfingamannsins. Þegar upp komst um Wintris, breytti hann skattskýrslunni. Krafinn um endurgreiðslu, en fannst krafan of há. Kærði einn hluta, uppgjör Wintris í krónum með gengistapi. Fékk það að einhverju leyti viðurkennt, svo krafan var lækkuð um 50 milljónir. Úr mun hærri tölu, sem enn er leyndó. Allt málið er rakið skref fyrir skref í Kjarnanum og blaðra lygarans varð aldrei blásin út. Frussaði út og dó í fæðingu.

Birgitta í Barcelona

Punktar

Birgitta Jónsdóttir var ekki fyrr hætt á Alþingi en henni skaut upp í hópi eftirlitsmanna með kosningunum í Katalúnju. Í gær átti hún fund með forsetanum þar, Carles Puigdemont. Birgitta er höfðinu hærri en annað forustufólk Pírata og tveimur höfðum hærri en almennir þingdvergar. Það er von, að hún sé kölluð óstjórntæk. Það er nýyrði yfir þá, sem sætta sig ekki við spillingu. Ísland er of lítið fyrir hana, fullt af undirmálsfólki. Alvörufólk kemst ekki til valda á Íslandi vegna fávita. En úti í heimi er hún eini Íslendingurinn, sem pólitíkusar þekkja. Vont var að missa hana úr íslenzkri pólitík, en gott fyrir útlandið.

Kosningarnar tókust

Punktar

Falangismi Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, er búinn að vera. Sjónvarp um allan heim hefur sýnt ofbeldi spænska þjóðvarðliðsins í Katalúnju. Þjóðvarðlið á að verja fólk, en á Spáni beitir það kylfum og táragasi á almenning. Katalúnar, sem í fyrradag voru að hálfu fylgjandi aðild að Spáni, eru í dag yfirgnæfandi á móti aðildinni. Carles Puigdemont, forseti Katalúnju, mun leggja frumvarp um sjálfstæði fyrir þing landsins. Rajoy og falangistar hans hafa með ofbeldi sínu misst málið úr höndum sér. Er komið í sjálfstætt ferli, sem ekki verður snúið við með ofbeldi. Það segir alla söguna, að kosningarnar í Katalúnju tókust.

SDG þyrlar upp ryki

Punktar

Sigmundur Davíð mun því miður græða fylgi á stóru bombunni. Var saklaus, en af hverju? Hann mátti gera Wintris upp í krónum árum saman, þótt peningarnir hafi verið reknir erlendis. Vegna þess eru álagning á Wintris-hjónin lækkuð um 50 milljónir. Samkvæmt íslenzkum lögum má spara skatt með að útvega sér gengistap, segir nefndin, en ríkisskattstjóri hafði hafnað. Ekkert kemur fram um, hversu mikið álagning hafði verið hækkuð vegna tilfæringa þeirra hjóna umfram bókhald. Þau voru fjölmörg. Árum saman voru skattar ekki rétt metnir í bókhaldinu gráa. Sigmundur Davíð er sérfróður í að þyrla upp ryki, þykjast ofsóttur sakleysingi.

Einkaframtækið kolklikkaði

Punktar

Einkaframtakið hefur sýnt undanfarin misseri, að það er ófært um að sjá fólki fyrir húsnæði. Sambandslaust er milli tekna fólks og húsnæðiskostnaðar. Ég hélt, að ríkisrekstur hentaði bara heilsustofnunum og skólum, vegum og flugvöllum. En innviðir samfélagsins eru fleiri, þar á meðal húsnæði. Bezt er, að ríkið taki að sér frumkvæðið og stofni hagnaðarlaus húsnæðisfélög í samstarfi við sveitarfélög og aðra. Komið hefur í ljós erlendis, að einkavæðing heilsuþjónustu veldur auknum heilsukostnaði og það virðist líka eiga við um húsnæði. Við erum komin á þá öld, að fólk fattar, að einkavæðing er tálsýn, sem eykur vandræði almennings.

Topp tíu matarhúsin

Punktar

Fyrir rúmlega hálfu ári birti ég hér númeraðan lista yfir tíu beztu veitingahús borgarinnar. Hér kemur nýr listi, að þessu sinni ónúmeraður. Listinn er þéttari en áður og erfiðara að gera upp á milli staða. Nýir á listanum eru Essensia, Ostabúðin, MatWerk, Von (Hafnarfirði), allir með fyrsta klassa matreiðslu á fiski. Fyrir á listanum eru Sjávargrillið, Fiskfélagið, Matarkjallarinn, Matur & drykkur, Kopar og Kaffivagninn. Hér er fædd heimsborg með nægu úrvali afbragðs matarhúsa. Með eðalgóðri matreiðslu, vingjarnlegri þjónustu og notalegu umhverfi. Munið samt að fara í hádeginu, því þá er lágt verð á fiski dagsins.

Krísa í Katalúnju

Punktar

Katalúnar reyna að kjósa í dag um sjálfstæði frá Spáni. Lögregla frá Spáni hefur hertekið rúmlega helming af kjörstöðum landsins. Heimamenn hópast í aðra skóla til að hindra yfirtöku þeirra. Yfirvöld í Katalúnju halda fast við þjóðaratkvæði og sæta spænskum ákærum um landráð. Hægri sinnuð stjórn Mariano Rajoy á rætur í falangisma Franco-tímans og hefur haldið of stíft á deilunni. Svipað og Donald Trump heldur of stíft á deilunni við Norður-Kóreu. Á báðum stöðum er hætt við að upp úr sjóði. Katalúnar bregðast sífellt harðar við aðgerðum Spánverja. Alveg skelfilegt væri, ef kosningarnar í dag enda í blóðbaði og morðum í Barcelona.

Staðreyndir ekki til

Punktar

Almannatenglar hafa ráðlagt tveimur fyrrverandi forsætis að neita staðfastlega tilveru erfiðra mála. Bjarni Ben segir: Ný stjórnarskrá er ekki til. Sigmundur Davíð segir: Við hjónin áttum aldrei fé á aflandseyjum. Svo er þetta endurtekið eins og þurfa þykir. Þannig stimplast orðavalið inn hjá rétttrúðum, þótt aðrir viti betur. Fæstir spyrjendur þora að spyrja áfram til að fá upp sannleikann, því það er ekki hægt. Heiðarlegi formaðurinn í Samfylkingunni hlær hins vegar bara og segir: Ég var nakin fyrirsæta í myndlistarkennslu. Málinu er þar með lokið, meðan mál hinna tveggja snýst og snýst. Betra er að segja satt en rangt.

Hóflegar væntingar

Punktar

Fari kosningar eftir síðustu skoðanakönnun má telja víst, að Vinstri græn verði kjölfestuflokkur þjóðarinnar. Eina mikilvæga andstaðan við bófaflokkinn. Litlu flokkarnir kringum tíu prósentin gera bezt í að biðja Vinstri græn um að taka sig í ríkisstjórnina. Vald þeirra verður væntanlega mun minna en Vinstri grænna. Þeir gætu þó komið einu eða tveimur málum fram, sem er betra en ekki neitt. En ólíklegt er, að neinn kraftur verði settur í stjórnarskrána eða að uppboð á leigukvóta verði tekin upp. Íhaldið í Vinstri grænum mun setja því stólinn fyrir dyrnar. Fólk verður bara að sætta sig við árangurinn af fyrsta skrefinu, rothöggi á bófaflokkinn.

Yfirþjónn með stífa vör

Veitingar

Geiri Smart er smart veitingastaður á tveimur hæðum við Hverfisgötu, andspænis danska sendiráðinu. Humarsúpan (1900 kr) var mjög góð og matarleg. Langa dagsins (1900) var rétt elduð eins og á beztu stöðum borgarinnar. Þjónustan var íslenzk og elskuleg eins og vera ber. Er þar þó undanskilin yfirþjónninn. Stíf efri vör og yfirlæti hafa ekki sést í áratugi á íslenzkum veitingahúsum. En þarna var útlendingur yfir galtómum matsal. Við settumst við borð, sem ekki var merkt frátekið. Hún amaðist við okkur og sagðist kanna, hvort pláss væri laust! Kom svo og sagðist hafa getað fært pöntun annars fólk að öðru borði. Fleiri gestir birtust aldrei.

Mýtur atvinnurekenda

Punktar

Samtök atvinnurekenda eru í hringferð um landið til stuðnings pólitískum armi sínum. Þau fara með nokkrar mýtur, sem ljúft er að leiðrétta. Þegar talað er um mun þeirra ríkustu og fátækustu, á að nota eignir, en ekki tekjur. Í þeim felst vaxandi ójöfnuður. Þegar talað er um laun í evrum, á að nota nýtt gengi, en ekki gamalt. Þá kemur í ljós láglaunastaða Íslands. Þegar talað er um skiptingu þjóðartekna, þarf að taka tillit til „hækkunar í hafi“. Þá kemur í ljós lélegur hluti launafólks. Vegna „hækkunar í hafi“ er skattþyngd á stóreignafólk of lág. Mýtur atvinnurekenda eru þannig allar hefðbundið og ómarktækt hagsmunarugl.

Óþörf forsjárhyggja

Punktar

ISNIC, eigandi íslenzka lénsins .is hefur góðar reglur um skil á milli veitu og miðils. Isnic vill fara varlega í að loka síðum, af því að einhverjum líki ekki innihald þeirra. Afskiptaleysi er einmitt það rétta. Ef þér líkar ekki einhver síða, geturðu forðast hana. Þú þarft ekki að banna hana, það er forsjárhyggja úr hófi. Bandaríska nýnazistasíðan Daily Stormer er ekki á vegum hryðjuverkahóps, heldur fólks, sem er pínulítið ruglað í kollinum. Rugludallar eiga heima á netinu eins og aðrir, enda getur enginn skilið með vissu milli rugludalla og annarra. Í nútímanum æðir forsjárhyggja fram og er orðin að töluverðum vanda.

Sjúkraskýli Íslands

Punktar

Landspítalinn er hornsteinn íslenzkra heilsumála, kennsluspítali starfsliðs og samband landsins við erlenda lækningaþróun. Samt er hann enginn alvöruspítali eins og hliðstæð háskólasjúkrahús í Vestur-Evrópu. Hann líkist frekar því, sem kalla mætti sjúkraskýli á ófriðarsvæði. Eftir aðgerð er sjúklingum meira eða minna kastað út ótímabært til að rýma fyrir nýjum aðgerðum. Sjúklingar liggja á göngum og jafnvel í bílgeymslu, svo nefnt sé frægasta dæmið. Álag á starfsfólk er langt út úr kortinu. Skurðlæknar ná ekki yfir að þjálfa hinar ýmsu tæknilegu aðgerðir, sem tíðkast í Vestur-Evrópu. Það mundi kosta marga milljarða á ári og er þess virði.

Bófaflokkurinn óstjórntækur

Punktar

Þinglið bófaflokksins er óstjórntækt. Þingmenn flokksins hlaupa út og suður. Gerðu ekki athugasemd við fjárlög stjórnarinnar. Sömdu svo sín í milli að fella frumvarpið fyrir jól og sprengja stjórnina. Sigríður Andersen dómsmála notar tíu þumalfingur og fjögur handabök í ráðuneytinu. Bjarni sjálfur tók hvorki mark á ráðherrum hækjuflokka né stjórnarsáttmála. Tók í praxís við heilsuráðuneytinu af Óttari Proppé. Frítekjumark aldraðra sveiflast milli hækkunar í loforðalista og lækkunar í fjárlögum. Sjálfstæðis var alltaf órólega aflið í ríkisstjórninni. Hún varð síðan sjálfdauð, þegar Björt framtíð hafnaði algeru áhrifaleysi sínu.