Auðveld stjórnarmyndun

Punktar

Vel er hægt að hugsa sér fjögurra flokka stjórn undir forustu Vinstri grænna. Þar mundu verða Píratar, Flokkur fólksins og Samfylkingin með samtals um 40 þingmenn og nægan meirihluta. Þessi stjórn mundi endurreisa velferðar- og heilsukerfið og setja upp fjármögnunarkerfi fyrir litlar íbúðir. Um þetta eru þessir flokkar sammála. Þeir geta farið yfir nýju stjórnarskrána og hugsanlega gert breytingar að góðra manna yfirsýn. Kvótakerfið og uppboð veiðileyfa er mál, sem margir flokkanna mundu styðja. Afnám leyndarhyggju og opin stjórnsýsla er annað sáttarefni. Við getum eftir mánuð innleitt sólskin í stað bófamyrkurs.

Bófar eru ekki pólitík

Punktar

Katrín Jakobsdóttir telur ranglega, að nú sé í gangi pólitík eins og hver önnur pólitík. Unnt sé að segja Vinstri græna óbundna af vali á samstarfsflokkum. Það er gömul klisja um, að flokkurinn geti hugsað sér að vinna með Sjálfstæðis eftir kosningar. Sjálfstæðis er ekki pólitískur flokkur. Hann er pólitískur armur hagsmunaafla, sem lifa á að stela árlega hundrað milljörðum króna af þjóðinni með hækkun í hafi. Sjálfstæðisflokkurinn er einfaldlega bófaflokkur. Enginn alvöruflokkur getur farið í kosningabaráttu með óbundið val um samstarf við bófaflokk að kosningum loknum. Svoleiðis gerir maður einfaldlega ekki, Katrín.

Sjálfstæðisfólk grætur

Punktar

Ótrúlega margt sjálfstæðisfólk kvartar við mig yfir að vera hatað. Af hverju hatar fólk okkur, segir það. Eins og Bandaríkjamenn spyrja um þjóðir, sem þeir hafa ráðizt á. Ég hef ekki fundið fyrir þessu áður. Fyrir síðustu kosningar voru sjálfstæðismenn stoltir sem fyrr. Nú ganga sumir þeirra með veggjum af hræðslu við að vera ávarpaðir um pólitík. Þetta eru alger veðraskil. Sjálfstæðisfólki líður eins og minnihlutahópi. Ég svara þeim öllum og segi: Það stafar af, að þið eruð bófar í bófaflokki. Þið stelið hundrað milljörðum króna á ári í alls konar hækkun í hafi. Kominn er tími til, að þið flýið, áður en ykkur verður ólíft.

Guðlaugur skaðar þjóðina

Punktar

Guðlaugur Þór Þórðarson skaðar málstaða Íslands erlendis með því að opna munninn og þvæla um ekkert. Einn af mörgum pólitíkusum, sem er bara til heimabrúks. Í utanríkisráðuneytinu þarf að vera ráðherra, sem er inni í sögu og efni mála. Hann hefur sent um allan heim þá kenningu, að John Savile málið brezka líkist ekki frægum málum tveggja barnaperra. Savile naut skjóls hjá kerfinu eins og íslenzku perrarnir. Því er sjálfsagt að bera þessi mál saman. Útlendingar hafa gott af að frétta, að sumt af ástandinu hér líkist ástandinu í öðrum löndum, þar sem valinkunnir menn reyna í spreng að halda andlitinu fram í rauðan dauðann.

Katrín styður svæfingu

Punktar

Katrín Jakobsdóttir tók undir tillögu Bjarna Benediktssonar um stjórnarskrá á þremur kjörtímabilum, tólf árum. Skil ekki, hvernig henni dettur þetta í hug, einmitt þegar vegur Bjarna stefnir út í mýri. Er nokkurn veginn það sama og að fleygja málinu ofan í skúffu. Ekki getur verið, að fyrirhugað samstarf þessara tveggja íhaldsflokka feli í sér óskhyggju um stuld á þjóðarauðlind hafsins. Ef þetta er hugmynd vinstri grænna, má vinstra fólk gæta sín í kosningunum. Vinstri græn eru spurningamerki á fleiri póstum. Nauðsynlegt er, að flokkurinn greini frá því, hvaða fleiri ógnandi beinagrindur hann hefur í rykföllnum skápum sínum.

Þeir lentu í því

Punktar

Brynjar lenti í því strákurinn að skrifa rustalega gegn þeim, sem ömuðust við stjórnsýslu Sigríðar. Sigríður lenti í því strákurinn að ganga berserksgang við að leyna gögnum og leka til Bjarna. Bjarni lenti í því strákurinn að velja sér óheppilegan föður, Benedikt. Benedikt lenti í því strákurinn að lofa og prísa barnaníðinginn. Barnaníðingurinn lenti í því strákurinn að nauðga barni daglega í mörg ár. Já, strákar eru nú alltaf strákar, það er meinið. Þeir lenda stundum í að æsa upp femínista. Nútíminn er bara svona, erfiður fyrir hressa stráka. Þeir lenda því stundum í því að vera sakaðir um að fara á svig við góða siði.

Hægfara vopnaskak

Punktar

Sé enga kosningabaráttu hafna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt sviðið í nokkra daga og farið illa út úr því. Það er ósigur að geta ekki haldið saman hægri sinnaðri hagsmunagæzlu. Stjórnarandstaðan fer rólega af stað. Kannski telur hún, að sjálfstortíming Sjálfstæðis nægi. Svo ört dúndrar hann niður vinsældalistana.

Vinstri græn þurfa að gera meiri grein fyrir sér. Eru þau alþýðuvinir eða vinir kvótagreifa og álgreifa í réttu kjördæmi? Eru þau sérhæfð í leynimakki eins og eftir síðustu kosningar? Eru þau meira íhald en vinstri og hvar er þetta græna? Mér er sagt, að helzt vilji þau samstarf gömlu og gamalkunnu kerfisflokkanna.

Ef martröðin hrynur

Punktar

Þegar Vinstri græn eru komin upp að hlið Sjálfstæðisflokksins, hrynur kenning þess síðari um ringulreið. Hrædda, gamla fólkið getur alveg eins hallað sér að Vinstri grænum. Þarna getur orðið flekahlaup á mánuði. Og þá er Sjálfstæðis búinn að vera sem martröð á þjóðfélaginu. Það er forsenda þess, að þjóðfélagið batni. Búast má við, að kringum 5% flokkarnir, Björt framtíð og Viðreisn, eigi bágt í tveggja turna keppni. Gætu fallið af þingi. Óvíst er, hvort Flokkur fólksins ræður úrslitum um stjórnarmyndun. Sterk staða Vinstri grænna verður miklu meiri áhrifavaldur um, hvers slags meirihluti kemur út úr kosningunum.

Tveir turnar

Punktar

Hér eru tölur Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Mér sýnast þær sennilegri en tölur Zentrum í morgun. Vinstri græn að verða stóri flokkurinn.

23,0% Sjálfstæðisflokkur
22,8% Vinstri græn
13,7% Píratar
11,-% Flokkur fólksins
10,-% Framsókn
7,-% Björt framtíð
5,-% Samfylkingin
5,-% Viðreisn

Kletturinn í hafinu

Punktar

Rétt er hjá Bjarna Ben að gera hinn sterka flokk að kosningamáli Sjálfstæðis. Klettinn í ólgusjó, hinir séu bara sker. Þetta er efnislega kolrangt, en selur samt, því að hálf þjóðin er í eðli sínu hrædd. Hrædd við breytingar, hrædd við öll frávik frá fyrri aðstæðum. Hluti þessa hóps finnur skjól hjá kvölurum sínum, sem gæta hagsmuna stóreignafélaga. Sker niður velferð og spítala, sem minnsta fólkið þarf mest á að halda. Í stað öryggis í skjóli velferðar kann þetta fólk betur að meta hlýjuna, sem stafar út um gluggana frá arni auðvaldsins. Það er ungt og leikur sér, segir gamla fólkið, þegar unga auðvaldið kúkar í öskutunnur.

Vinstri græn í sókn

Punktar

Þekki ekki könnunarstofuna Zenter og bíð enn eftir einhverjum af þeim gömlu. En þetta segir Zenter:

26,4% Sjálfstæðisflokkur
22,8% Vinstri græn
12,5% Píratar
10,5% Framsókn
9,8%  Flokkur fólksins
9,0%  Samfylkingin
5,6%  Björt framtíð
2,7%  Viðreisn
1,7%  Dögun

Pólitíska spennan magnast

Punktar

Spennandi verða næstu skoðanakannanir ábyrgra könnuða. Þar munum við í fyrsta skipti sjá, hvernig landið liggur í kosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur áratugum saman verið martröð þjóðarinnar, bófaflokkur í gervi stjórnmálaflokks. Meðreiðarsveinar hans verða varla tilkippilegir í frekari þjónustu. Miklu máli skiptir, hvernig Vinstri græn koma fyrir í baráttunni. Segja þau skilið við kvótagreifana og sætta þau sig við nýja stjórnarskrá? Eru þau til vinstri eða hægri? Píratar hafa haldið kjörfylginu, hvernig spila þeir út kortunum? Minnstu flokkarnir sjá örlög sín, góð eða vond eftir atvikum, í tölum fyrstu kannana.

Ýkjulaust gælunafn

Punktar

Kosningabaráttan er hafin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sleppt út eiturpöddum sínum, sem birtast ein af annarri á fésbók. Þetta eru ærulaus andlit, sem við þekkjum frá fyrra ári. Skítadreifarar eru þeir kallaðir. Ráðamönnum flokksins líkar ekki að kallast perravinaflokkurinn, sem er rétt hjá þeim. Gæludýr flokksins einskorðast ekki við perravini og heldur ekki bófavini. Flokkurinn sjálfur er virkur sem bófaflokkur og það er rétta orðið yfir hann. Fullur af bófum, bæði sem áhrifafólk og kjósendur. Takmarkast ekki við perravini, nær yfir allt heildarsvið bófa. Réttnefni hans er ýkjulaust og það er Bófaflokkurinn.

Fjölbreytt framboð

Punktar

Hægri flokkar verða fleiri í boði en haldið er fram, ekki bara bófaflokkurinn. Viðreisn er líka hægri, bara Evrópu- og markaðsvænni. Erlendir flokkar að hætti Flokks fólksins hafa lent í hægra faðmi, til dæmis í Noregi. Framsókn hefur tvö andlit, vinstra og hægra, notist eftir þörfum við myndun ríkisstjórnar. Björt framtíð hefur ekkert andlit og ekkert innihald, notist eftir þörfum við myndun ríkisstjórnar. Vinstri græn eru græn Framsókn, marktæk í umhverfismálum. Að öðru leyti íhaldssöm á forna pólitík. Samfylking krata er á miðjunni, góðviljaður og getulítill flokkur. Smáflokkar fá ekki þingmenn. Að venju mun ég kjósa pírata.

Orð yfirgnæfa gerðir

Punktar

Sjö vikur eru til kosninga. Stefnuskrár flokkanna verða líkar því, sem þær voru fyrir ári. Meira pláss verður þó notað um málin, sem vanrækt hafa verið á árinu. Meira um aðgerðir gegn fátækt, gegn öldrun, örorku, vanheilsu og heimilisleysi ungs fólks. Fráfarandi stjórnarflokkar munu einkum hafa hátt í von um, að orð sín skyggi á gerðir sínar. Sjálfstæðisflokkur mun setja fram sósíaldemókratíska stefnu til að fela öfgahægri-frjálshyggju sína. Sama mun Viðreisn gera. Tími sannleikans er löngu liðinn í pólitík. Leiðindafólk mun benda á misræmið og að venju talið vera leiðinlegt. Áttavilltir kjósendur munu hafa ýmis færi á mistökum.