Skógey

Frá Borgum í Nesjum um Skógey að brú á Hornafjarðarfljóti.

Í Skógey höfðu menn slægjur síðustu aldir, en lengi hefur þar enginn skógur verið. Byrjum í hesthúsahverfi á Borgum í Nesjum.

Förum vestur að Hoffellsá og yfir í Skógey. Þaðan norðvestur um Skógeyjarsker að brú á þjóðvegi 1 yfir Hornafjarðarfljót.

9,7 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Hornafjarðarfljót, Vítisbrekkur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skógaskarð

Frá Seyðisfirði um Skógaskarð til Borgareyrar í Mjóafirði.

Förum frá Seyðisfirði suðaustur og upp með Dagmálalæk og síðan til suðurs utan við Grákamb og neðan við Gullþúfu upp í Skógaskarð í 950 metra hæð. Síðan suður og niður með Borgareyrará að austanverðu til Borgareyrar.

7,6 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Króardalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skógarströnd

Frá Bílduhóli á Snæfellsnesi að Hamraendum í Miðdölum.

Þetta er gamla þjóðleiðin um Skógarströnd og kemur nokkrum sinnum fyrir í Sturlungu. Leiðin liggur áfram til vesturs í Álftafjörð, yfir hann á fjöru og síðan áfram um Helgafellssveit í Stykkishólm. Á leiðinni til austurs er farið um horfna verzlunarstaði frá því fyrir tíma hafnarmannvirkja, Gunnarsstaðaey og Vestliðaeyri. Hvammsfjörður hefur sama aðdráttarafl fyrir hestamenn og Löngufjörur, býður ýmsa kosti í fjörureið og leirureið.

Förum frá Bílduhóli austur með þjóðvegi 54, unz við komum að Emmubergi. Þar förum við frá veginum til norðurs og norður fyrir Hólmlátur og Hólmlátursborg að fjörunni í Hvammsfirði. Fylgjum henni síðan til austurs, út í Gunnarsstaðaey, gamlan verzlunarstað, og þaðan til austurs eftir grandanum, aftur í fjöruna við Skiphól og síðan áfram austur, um Vestliðaeyri, sem líka er gamall verzlunarstaður. Förum út fyrir Hörðudalsá að Miðá og svo upp með Miðá. Síðan upp á þjóðveg 54 við brúna yfir Miðá og förum suður yfir brúna. Síðan austur með fjallinu að Hamraendum.

28,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Heydalur, Kvistahryggur, Rauðamelsheiði, Sópandaskarð, Svínbjúgur, Miðdalir, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Fossavegur, Hattagil, Miðá, Hallaragata.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Skógarmannafjöll

Frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum suður í Skógarmannafjöll.

Slóðin liggur að Almannavegi, sem er forn þjóðleið frá Ferjuási við Jökulsá á Fjöllum um Þrengsli og Olíufjall til Mývatnssveitar.

Förum af þjóðvegi 1 við Amtmannsás og Klaustur og höldum eftir jeppaslóð suður að Skógarmannafjöllum. Förum fyrst austan við fjöllin og síðan um skarð yfir að vesturhlið þeirra og áfram til suðurs með vesturhliðinni. Slóðin endar sunnan við Kollóttafjall nálægt Almannavegi.

14,7 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland

Skógarnesfjörur

Fram og til baka frá Skógarnesi um staðarfjörurnar.

Margir fara á hraðferð um Löngufjörur án þess að stanza í Skógarnesfjörum. Þær eru fjölbreytt sýnishorn af flestu því, sem Löngufjörur státa af. Þar eru leirur og sandfjörur. Einnig eru þar minjar um meira mannlíf, þegar Skógarnes var einn af verzlunarstöðum landsins 1905-1920. Fyrst var þar útibú frá Tangsverzlun í Stykkishólmi. Síðan kom þar einnig útibú frá verzlun Jóns Björnssonar í Borgarnesi. Verzlunin lagðist niður, þegar kreppa sótti að Vesturlöndum. Enn standa leifar af steinveggjum og uppskipunarbáti.

Förum frá Skógarnesi norður fyrir gripahúsin og jeppaslóð suður í ósinn. Förum þar þvert yfir rifið til vesturs, alla leið í vesturodda Melness. Þar förum við norðaustur í Viðeyjar, þaðan austur og suður til baka. Síðan austur með sjávarströndinni vestur á Skógarnes og síðan með ósfjörunni til baka í Skógarnes.

17,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Straumfjarðará, Löngusker.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Skógarholt

Frá þjóðvegi 1 á Mývatnsöræfum um Skógarholt og aftur inn á þjóðveg 1.

Förum frá þjóðvegi 1 í Hverarönd við Námaskarð til suðurs eftir jeppaslóð um Heiðasporðarönd og síðan austur um Búrfellshraun og Flatabjarg að Skógarholti. Áfram austur að jeppaslóða til Skógarmannafjalla. Förum þá slóð norður að þjóðvegi 1 við Klaustur og Amtmannsás.

20,7 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland

Skógarkot

Frá Skógarhólum undir Ármannsfelli um Krika undir Ármannsfelli, síðan um Hrauntún, Skógarkot, Stekkjargjá og Langastíg að Selkotsleið til Skógarhóla.

Þetta er merkt reiðleið, falleg skógarleið.

Leiðin frá Ármannsfelli að Skógarkoti hét Nýja Hrauntúnsgata og er elzta bílaslóð landsins frá suðvesturhorninu um Kaldadal vestur í Borgarfjörð. Nyrsti hluti hennar næst Ármannsfelli heitir Réttargata. Þetta er reiðstígur, en göngustígurinn liggur um túnið á Hrauntúni. Þar má ekki æja hrossum, því að þau geta skemmt hraungarða. Búið var í Hrauntúni til ársins 1934. Skógarkot er einmana túnkollur umlukinn hrauni. Þar bjó Kristján Magnússon hreppstjóri, frægur athafnamaður og átti fimmtán börn með tveimur konum á bænum. Vegna þessa dæmdur til hýðingar árið 1831. Af því fólki segir í Hraunfólkinu, skáldsögu Björns Th. Björnssonar. Búið var í Skógarkoti til 1936. Við Langastíg eru klettamyndirnar Gálgaklettar tveir og Steinkerlingar. Í Gálgaklettum voru sakamenn hengdir fyrr á öldum.

Förum frá Skógarhólum austur með Kaldadalsvegi 52 að Krika undir Ármannsfelli, skammt austan Sleðaáss, þaðan suður um hlið merkt Sandaleið og um skógargötu suður Þingvallahraun um Hrauntún og Skógarkot. Síðan vestur að Þingvöllum, yfir vellina og upp Langastíg yfir gjána og loks norður yfir þjóðveg 36 að Selkotsleið milli Reykjavíkur og Skógarhóla.

12,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Hrafnabjörg, Lyngdalsheiði, Selkotsvegur, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skógaháls

Frá Grágæsadalsleið um Skógaháls við Hálslón á Gæsavatnaleið.

Af slóðinni er stutt að fara að Hafrahvammagljúfri, hrikalegasta gljúfri Íslands. Gljúfrið er 160 metra djúpt og afar þröngt, um tíu kílómetra langt og dýpst við Ytri-Kárahnjúka.

Förum frá Reykjará á Gæsavatnaleið gegnt Múla og höldum suður á Skógaháls og eftir honum endilöngum. Síðan suðvestur Lambafjöll í 780 metra hæð, suður af þeim og suðvestur á Gæsavatnaleið nálægt Háumýrum.

21,9 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Hvannstóðsfjöll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skothryggur

Frá Kýrunnarstöðum í Hvammssveit að Biskupsvörðu vestan Skeggaxlar.

Förum frá Kýrunnarstöðum vestnorðvestur í Kýrunnarstaðafell, áfram norður hjá Skothrygg svo norðan við Hrossaborg og norðvestur að Biskupsvörðu. Hjá upptökum Hvarfdalsár skiptist leiðin og er annaðhvort farið í Búðardal eða Villingadal.

14,0 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Skoravíkurmúli, Fellströnd, Flekkudalur, Skeggaxlarskarð, Hvarfsdalur, Búðardalur, Sælingsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Skorradalur

Frá Fitjum í Skorradal að þjóðvegi 52 vestan Uxahryggja.

Ljúft landslag með fögrum fossum og lágvöxnu kjarri. Fyrrum voru 22 býli í dalnum, en nú eru þar einkum sumarbústaðir.

Förum frá Fitjum austur með Fitjaá að Eiríksfossi og síðan beint austur heiðina að Lómatjörn. Förum vestan og sunnan við tjörnina og áfram suðaustur um suðurenda Vörðufells. Að lokum yfir Tunguá og þaðan norður á þjóðveg 52 vestan Uxahryggja.

11,7 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Mávahlíðarheiði, Grafardalur, Sjónarhóll, Síldarmannagötur, Grillirahryggur, Gagnheiði, Kúpa.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Skoravíkurmúli

Frá Kýrunnarstöðum í Hvammssveit að Skógum á Fellsströnd.

Byrjum á vegi 590 austan Kýrunnarstaða í Hvammssveit. Förum suðvestur með ströndinni, suður fyrir Skoravíkurmúla, norðvestur um Skuggafoss að vegi 590 við Skóga.

15,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Fellsströnd, Skothryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skorarheiði

Frá Hrafnfirði í Jökulfjörðum til Furufjarðar á Ströndum.

Ágætur reiðvegur, alfaraleið á fyrri öldum. Strandamenn höfðu viðskipti á Ísafirði og létu flytja sér vöru í Hrafnfjörð. Drógu hana síðan á sleðum yfir Skorarheiði.

Förum frá sæluhúsinu í Hrafnfjarðarbotni eftir ruddri slóð til suðausturs upp með Skorará, um Andbrekkur og Skorardal. Síðan suðaustur um bratta sneiðinga upp á heiðina og fyrir sunnan Skorarvatn á Skorarheiði í 200 metra hæð. Þaðan austur Furufjörð að sæluhúsinu við sjó í Furufirði.

6,5 km
Vestfirðir

Skálar:
Hrafnfjörður: N66 15.989 W22 22.672.
Furufjörður: N66 15.888 W22 14.152.

Nálægar leiðir: Hrafnfjörður, Bolungarvíkurbjarg, Svartaskarð, Furufjarðarnúpur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skjöldólfur

Frá Skjöldólfsstöðum í Jökuldal um Gestreiðarstaði á þjóðveg 1 í Langadal.

Eyðibýlið Gestreiðarstaðir er örskammt sunnan leiðarinnar, langþráður viðkomustaðir í hrakviðrum eyðimerkurinnar milli Skjöldólfsstaða í Jökuldal og Grímsstaða á Fjöllum. Nafnið Gestreiðarstaðir bendir til, að gestkvæmt hafi verið þar af ferðamönnum í fyrri tíð. Það er talið vera fornbýli. Frá Gestreiðarstöðum mátti komast af þessari leið vetur um Gestreiðarskarð til Möðrudals á Jökuldalsheiði. Einnig var skjól að hafa í gamla daga á Háreksstöðum, þar sem nú er fjallakofi. Háreksstaðir voru áður heiðarbýli og eru líklega einnig fornbýli. Þar var mikill búskapur á 19. öld og margt manna er komið af því fólki, bæði hér á landi og í Vesturheimi.

Förum frá Skjöldólfsstöðum norðnorðvestur upp með Garðá að vestanverðu á Skjöldólfsstaðaheiði. Síðan til norðvesturs sunnan við Sandhæð og um Valgerðarhlaup. Sunnan við Hólmavatn og þvert yfir Skjaldklofaleið milli Vopnafjarðar og Jökuldals. Áfram til norðvesturs norðan við Reiðtjörn og Skipatjörn, yfir þjóðveg 1 hjá eyðibýlinu og fjallakofanum Háreksstöðum. Þaðan vestur hjá Náttmálavörðu, um Götutjarnir og yfir Gestreiðarstaðakvísl um eyðibýlið Gestreiðarstaði. Þaðan mátti komast af þessari leið vetur um Gestreiðarskarð til Möðrudals á Jökuldalsheiði. En við förum norðvestur um Fjárhól á þjóðveg 1 í Langadal.

28,5 km
Austfirðir

Skálar:
Hárekssstaðakofi: N65 24.336 W15 25.298.

Nálægar leiðir: Skjaldklofi, Gestreiður, Vopnafjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skjótastaðir

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Höfnum á Reykjanesi til Grindavíkur.

Kirkjuhöfn var áður verstöð, sem eyddist af sandfoki frá Sandvík. Skjótastaðir er óvenjulega eyðilegt eyðibýli, sem húkir milli hafs og hrauns rétt norðan Stóru-Sandvíkur. Í Arfadalsvík var áður verzlunarstaðurinn í Grindavík, áður en hann var fluttur austur í núverandi Grindavík.

Förum frá Höfnum suður með vegi að Júnkaragerði. Síðan um Kirkjuhöfn suður með ströndinni eftir jeppavegi um Berghól og eyðibýlið Skjótastaði. Síðan suður um Sandvíkur og Mölvík. Beygjum austur eftir slóð á jeppaveg með suðurströndinni um Hróabás og Lynghólshraun austur að Grindavík.

30,2 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Einiberjahóll, Sýrfell, Stapafell.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Skjólhvammsgata

Frá Kolbeinsstöðum eða Snorrastöðum að Stóra-Hrauni í Hnappadal.

Fjórar leiðir eru austur-vestur um Eldborgarhraun. Elzta gatan og gamla póstleiðin er Skjólhvammsgata um norðanvert hraunið. Hún liggur norður frá Snorrastöðum meðfram Borgarlæk og sveigir vestur í hraunið á móts við Haukatungu. Einnig er farið beint norður af austri frá Kolbeinsstöðum, sunnan við Kolbeinsstaðatjarnir og Stórhólmatjörn, en norðan við Haukatungutjarnir. Sameinast þar slóðirnar. Við Leynifit við Hábrekknavað á Haffjarðará komum við að heimreið að Stóra-Hrauni og fylgjum henni síðan. Engin þessara hraunleiða er fær jeppum.

Hér að framan er getið póstleiðarinnar um Skjólhvammsgötu. – Þrællyndisgata er syðst í hrauninu, frá Snorrastöðum niður með Kaldá og síðan austur með Kaldárós. Þar sem ósinn sveigir til suðurs förum við beint norðvestur hraunið að eyðibýlinu Litla-Hrauni. Erfið gata og seinfarin. Frá Litla-Hrauni förum við um Krókabotn að Stóra-Hrauni. – Eldborgargata er ekki forn, fannst síðar. Liggur beint austur frá Yztu-Görðum um mitt hraun fyrir norðan Eldborg beint að Stóra-Hrauni. -Loks er nýleg hitaveituleið frá Snorrastöðum beint norðvestur að Stóra-Hrauni.

18,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Múlavegur, Saltnesáll, Gamlaeyri, Hítará, Haffjarðará, Haffjarðareyjar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort og Útivistarkort