Skjálgdalsheiði

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Miklagarði í Eyjafirði að Þverá í Öxnadal.

Heitir nú Kambskarð.

Sjaldan farin nú á dögum, en oft farin á Sturlungaöld. Hét þá Skjálgdalsheiði. Sighvatur Saxólfsson og Gissur Höskuldsson fóru á laun um skarðið á leið til Guðmundar dýra að segja honum hervirki Þorgríms alikarls Vigfússonar á Bakka í Eyjafirði. Sighvatur Sturluson hafði varðmenn á heiðinni 1234, svonefndan hestvörð. 1235 reið Órækja Snorrason heiðina á leið til Vestfjarða af fundi með Sighvati Sturlusyni. Hér riðu Sturla Þórðarson og Órækja Snorrason 1242 sem fangar Kolbeins unga. Á heiðinni mælti Órækja: “Skammur er nú dásshali okkar frændi eða hvað ætlar þú nú, að Kolbeinn ætlist fyrir.” Hrafn Oddsson flúði um Skjálgdalsheiði eftir Þverárfund 1255 og fall Eyjólfs ofsa Þorsteinssonar.

Förum frá Miklagarði vestur Skjálgdal og beint áfram vestur með Kambsá um Skjálgdalsheiði upp í Kambskarð í 1000 metra hæð milli Hvítalækjarfjalls að norðanverðu og Kambsfells að sunnanverðu. Förum vestur og niður úr skarðinu í Þverárdal og síðan til norðurs út dalinn, niður með Þverá að austanverðu að Þverá.

20,8 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Melgerðismelar, Hraunárdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga og Árbækur Ferðafélagsins

Skjálfandi

Frá Björgum í Köldukinn til Bjargakróks við Skjálfandaflóa.

Ú r Bjargakrók má fara fjöruna áfram til Náttfaravíkur og er þá farið um gat í berginu aðeins 100 metrum frá Bjargakróki. Heitir þar Ágúlshellir og var sprengt tíu metra haft í hellinum árið 1973 til að komast í gegn. Gæta verður sjávarfalla á þessari leið. Baldvin Sigurðsson í Naustavík þurfti að eyða jólanótt í hellinum seint á nítjándu öld, tepptur af brimi og stórhríð. Þessi leið er ekki fær hestum.

Förum frá Björgum til norðurs austan við Ógöngufjall í Bjargakrók.

4,9 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Naustavík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skjaldklofi

Frá Þorbrandsstöðum í Vopnafirði um Skjaldklofa á Búðarhálsleið hjá Víðirhólum. Hliðarleið er niður að Skjöldólfsstöðum.

Oft kölluð Tunguheiði, algengasti vegurinn milli Héraðs og Vopnafjarðar fyrir daga bílsins. “Rösk dagleið, góður vegur og torfærulaus”, segir í gamalli lýsingu, ennfremur “timbri og þungavöru ekið á sleðum síðla vetrar eftir sléttri heiðinni.”

Förum frá Þorbrandsstöðum suður með Hofsá að austan að Tunguseli og upp í Tungukoll austanverðan. Síðan suður með Tunguá, austan við Geldingafell og vestan við Skálafell, Dritfell og Skjaldklofa. Sums staðar í 600 metra hæð. Suður yfir þjóðveg 1 og þjóðveg 901, austan við Lönguhlíð, suður á Búðarhálsleið milli Hnauss og Kiðufells, nálægt eyðibýlinu Víðirhólum.

46,2 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Geldingafellsskáli: N65 28.394 W15 17.807.

Nálægar leiðir: Sauðahryggur, Fríðufell, Hofsárdalur, Skjöldólfur, Gestreiður, Rangalón, Búðarháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skjaldbreiðarvegur

Frá Þórólfsfelli norðan Hlöðufells eftir línuvegi að Kjalvegi.

Þetta er sá hluti línuvegarins, sem liggur austur frá Þórólfsfelli. Vesturhlutinn heitir hér Skjaldbreiður.

Tungufljót heitir sex nöfnum á leið sinni til sjávar. Efst er Læmið, sem rennur í Hagavatn, síðan Farið, sem rennur í Sandvatn, þá Ásbrandsá úr vatninu, síðan Tungufljót, sem rennur í Hvítá, sem rennur í Ölfusá.

Löng og leiðinleg hraunslóð og oft gróf eins og háttar til með línuvegi, sem eru auðvitað hugsaðir fyrir bíla. Ekki fara sögur af erfiðleikum með hesta á vaðinu yfir Tungufljót.

Förum frá fjallaskálanum Þórólfsfelli norðan við samnefnt fell og förum línuveginn til austurs norðan við Lambahraun í Mosaskarð milli Fagradalsfjalls og Mosaskarðsfjalls, þar sem gamli Eyfirðingavegurinn lá frá Hlöðuvöllum yfir Farið til Bláfells. Hér slær línuvegurinn sér til suðausturs fyrir Sandvatn, yfir Tungufljót í Krosshólum og þaðan upp á Kjalveg.

24,1 km
Árnessýsla

Jeppafært

Skálar:
Þórólfsfell: N64 27.495 W20 30.534.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Skjaldbreiður

Frá Kaldadalsvegi eftir línuvegi norðan Skjaldbreiðar að Þórólfsfelli norðan Hlöðufells.

Löng og leiðinleg hraunslóð og oft gróf eins og háttar til með línuvegi, sem eru auðvitað hugsaðir fyrir bíla. Framhald línuvegarins til austur nefnist hér Skjaldbreiðarvegur.

Byrjum við gatnamót Kjalvegar og Uxahryggjavegar við Hallbjarnarvörður í 360 metra hæð. Slóðin er línuvegurinn norðan Skjaldbreiðar. Hún liggur vestur langa leið, framhjá afleggjara norður í Slunkaríki, síðan sunnan Sandfells og norðan Skjaldbreiðar, þar sem við náum 560 metra hæð. Þar sem Skjaldbreiður nær lengst í norður sker slóðin Skessubásaveg. Við förum línuveginn áfram að fjallaskálahverfi sunnan við Tjaldafell, síðan norðan við Sköflung og norður fyrir Hlöðufell og Þórólfsfell, þar sem er samnefndur skáli.

23,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Kaldidalur: N64 26.840 W20 57.711.
Tjaldafell: N64 27.083 W20 39.123.
Þórólfsfell: N64 27.495 W20 30.534.
Kiddakot: N64 25.783 W20 19.131.
Þriðja ríkið: N64 26.410 W20 18.140.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kaldidalur, Fremstaver.
Nálægar leiðir: Skessubásavegur, Hlöðufell, Farið, Skyggnisheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skjaldabjarnarvík

Frá Reykjafirði um Skjaldabjarnarvík að Krákutúni í Meyjardal.

Heitar uppsprettur og sundlaug eru í Reykjafirði. Skjaldabjarnarvík er breið og skerjótt vík austan undir Geirólfsnúpi, opin fyrir íshafinu. Yfir Bjarnarfjarðará er bezt að fara um leirurnar í fjörunni.

Förum frá Reykjafirði út fyrir Sigluvíkurnúp í Sigluvík og upp Sigluvíkurdal á Sigluvíkurskarð. Næst niður Norðdal til Skjaldabjarnarvíkur. Þaðan suðvestur Sunndal og suður um Hjarrandaskarð yfir Randafjall og um sneiðinga niður í Bjarnarfjörð. Síðan vestur fyrir botninn og austur með firði að sunnan að Krákutúni.

18,7 km
Vestfirðír

Skálar:
Reykjarfjörður: N66 15.425 W22 05.372.
Skjaldabjarnarvík: N66 14.457 W21 57.359.

Nálægar leiðir: Fossasdalsheiði, Reykjafjarðarháls, Miðstrandir, Drangajökull, Þaralátursnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skíðadalsökull

Frá Klængshóli í Svarfaðardal um Skíðadalsjökul á Hólamannaveg.

Löng leið milli byggða í Svarfaðardal og Skagafirði.

Förum frá Klængshóli suður og suðvestur Skíðadal norðvestan við Almenningsfjall og suðaustan við Stafnstungnafjall, suðvestur um Austurtungur inn í dalbotn. Þaðan förum við suðsuðvestur upp í Skíðadalsjökul milli Leiðarhnjúka. Síðan til vesturs fyrir norðan Eiríkshnjúk og Péturshnjúk um Tungnahryggsjökul og yfir Tungnahrygg að klettaveggnum í vestri. Þar erum við komin á Hólamannaveg.

22,6 km
Eyfjörður, Skagafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Skálar:
Tungnahryggur: N65 41.340 W18 50.820.

Nálægar leiðir: Hólamannavegur, Tungnahryggur, Heiðinnamannadalur, Holárdalur, Þverárjökull.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Skiptamelur

Frá Ströngukvíslarskála um Skiptamel að Ingólfsskála.

Þetta er mjög ónákvæmt leið á kortinu, teiknuð nánast sem bein lína milli tveggja endapunkta.

Förum frá skálanum við Ströngukvísl í 550 metra hæð austur um Lambamannaflá og Skiptamel að Ingólfsskála í 830 metra hæð.

20,3 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Strangakvísl: N65 01.958 W19 25.899.
Ingólfsskáli: N65 00.452 W18 53.820.

Nálægir ferlar: Guðlaugstungur, Haugakvísl, Eyvindarstaðaheiði, Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Hraungarður, Fossakvísl, Ingólfsskáli, Gimbrafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skiptabakki

Frá vegi 752 í Skagafirði suður að fjallaskálanum Skiptabakka á Eyvindarstaðaheiði.

Förum af þjóðvegi 752 sunnan við Breið inn á jeppaslóða til suðurs. Förum slóðann suður að fjallaskálanum Skiptabakka á Eyvindarstaðaheiði.

28,5 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Krisstjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland

Skipholtskrókur

Frá Kjalvegi yfir Jökulfall á Hrunamannaafrétt.

Af þessari er skammt að Skipholtskrók til að finna hinn heilaga bikar, sem Jesú Kristur drakk úr við síðustu kvöldmáltíðina í Jerúsalem. Vitringurinn Giancarlo Cianazza telur þennan Gral vera þar í leynilegri hvelfingu, sem sé fimm metrar á hvern veg. Musterisriddarar eru sagðir hafa falið hann þar, þegar kaþólsk kirkja snerist með látum gegn riddarareglunni. Cianazza telur Snorra Sturluson hafa verið viðriðinn varðveizlu bikars þessa. Því er ómaksins vert að æja þarna og svipast um eftir leynihvelfingunni og bikarnum.

Förum einn kílómetra austur eftir Kerlingafjallavegi 347 frá mótum hans og Kjalvegar 35. Beygjum þar út af til suðurs og yfir Jökilfallið á vaði. Síðan áfram suður eftir afrétti Hrunamanna að veginum um afréttinn vestan Skeljafells og austan Mosfells.

8,3 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Skipsstígur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Stapafellsleið um Skipsstíg og Þorbjörn til Járngerðarstaðahverfis í Grindavík.

Greiðfær leið. Í bæklingi Ferðamálasamtaka Suðurnesja um Skipsstíg segir m.a.: “Skipsstígur hefst í norðurjaðri byggðakjarna Grindavíkur og liggur með Lágafelli, um Skipsstígshraun, með Illahrauni, yfir Eldvarpahraun, fram hjá hverasvæði við Lat, yfir Vörðugjá, um Gíslhellislágar, yfir Rauðamel og áfram áleiðis að Fitjum í Njarðvík. Leiðarlýsingin í bæklingnum byggir m.a. á númeruðum stikum sem Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa haft forgöngu um að setja upp með gömlu þjóðleiðunum.”

Byrjum á Stapafellsleið, þar sem hún sveigir frá suðri til suðsuðvesturs. Við förum áfram suður um Vörðugjá og förum vestan við Þorbjörn að Járngerðarstaðahverfi.

8,9 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Stapafell, Sýrfell, Einiberjahóll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Skillandsá

Frá Kaldbaksvaði á Stóru Laxá um Skillandaá að fjallaskálanum Hallarmúla.

Förum frá Kaldbaksvaði suðvestan undir Kaldbaksfjalli. Upp með Stóru-Laxá að austanverðu að girðingu austan jeppaslóðar. Um hlið á girðingunni og síðan austur og upp með Skillandaá að fjallaskálanum Hallarmúla.

8,1 km
Árnessýsla

Skálar:
Hallarmúli: N64 11.879 W19 58.877.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Skinnalónsheiði

Frá vegi 85 á Skinnalónsheiði á Melrakkasléttu á Raufarhafnarveg, gamlan reiðveg um Melrakkasléttu.

Í þjóðsögum segir frá uppátektasömu ólíkindatóli að nafni Hljóða-Bjarni Pétursson, kvensömum umrenningi frá Heiði á Langanesi: “Einu sinni voru þau hjón á ferð yfir Skinnalónsheiði. Þegar þau voru komin um það bil hálfa leið kvaðst Bjarni vera dauðveikur. Konan hans varð því að draga hann langa leið. Þá skipaði Bjarni henni að sækja menn sér til hjálpar. Þegar konan átti skammt eftir heim að Skinnalóni, kom Bjarni á eftir henni og var orðinn alfrískur.”

Byrjum á vegi 85 á Skinnalónsheiði á Melrakkasléttu milli Blikalóns og Skinnalóns. Förum suður fyrir enda Arnarvatns á Raufarhafnarveg milli Blikalóns og Raufarhafnar.

3,3 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Raufarhafnarvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skildingaskarð

Frá Selá í mynni Breiðdals í Reyðarfirði um Skildingaskarð til Brimness í Fáskrúðsfirði.

Heitir Hrossadalsskarð að sunnanverðu, Skildingaskarð að norðanverðu. Áður fyrr var leiðin fjölfarin og var síminn lagður yfir skarðið. Sjaldfarin leið nú á tímum. Vestan undir skarðinu er Jónatansöxl, sem þessi saga er um: Jónatan Pétursson var farandkaupmaður á Austurlandi um miðja nítjándu öld. Fór hann höfuðdaginn 1854 drukkinn frá Þernunesi á skarðið og kom ekki fram. Líkið fannst síðan nokkuð skrámað í Hrossadal. Peningar hans, 472 ríkisdalir, fundust á víð og dreif þar beint fyrir ofan, í Miðmundarrák. Var ljóst, að Jónatan hafði hrapað í skarðinu.

Förum frá Selá suður lægðina austan við Hafranesfell austur og upp í Skildingaskarð í 500 metra hæð. Síðan til suðurs um Hrossadalsskarð og niður með Villingaá og loks að vegi 96 vestan við Brimnes.

5,9 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Staðarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skessubásavegur

Frá Kaldadalsvegi og fyrir norðan Skjaldbreið að Hlöðuvöllum.

Leiðin er óviss á köflum, einkum að norðvestanverðu, og þyrfti að varða hana. Kort Björns Gunnlaugssonar frá 1849 sýnir leiðina norðan við Hrúðurkarla, en hún er sunnan við þá. Leiðin á kortinu er vafalaust ekki nákvæmlega sama leiðin og Sturlungar notuðu, en hún er nærri lagi.

Árið 1253 fóru Hrafn Oddsson og Eyjólfur Þorsteinsson úr Hvítársíðu og suður hjá Skjaldbreið um Skessubásaveg og um Miðdalsfjall í misheppnaðri aðför að Gissuri Þorvaldssyni. Sighvatur Böðvarsson á Stað á var bróðir Þorgils skarða og vildi árið 1262 hefna fyrir dráp hans. Hann hitti Sturlu Þórðarson, föðurbróður sinn við Hallbjarnarvörður og fóru þeir saman suður Skessubásaveg og áfram um Klukkuskarð, þar sem þeir fengu óveður. Létu þar fyrir berast um nótt og héldu síðan áfram til Iðufundar við Þorvald Þórarinsson í Skálholti.

Förum frá fjallaskálanum á Hlöðuvöllum í 460 metra hæð og höldum nokkurn veginn í beina línu upp á Kaldadalsveg suðvestan Hrúðurkarla. Fyrst förum við sunnan við Fremra-Mófell og fyrir vestan Sköflung. Síðan sunnan undir Lambahlíðum / Tjaldafelli og norðvestur yfir Fífilvelli, fyrir sunnan Bjarnarfellin og fyrir norðan Sandfellin. Á Kaldadalsveg komum við suðvestan við Hrúðurkarla í 500 metra hæð.

21,9 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægir ferlar: Kaldidalur.
Nálægar leiðir: Skjaldbreiður, Eyfirðingavegur, Miðdalsfjall, Brúarárskörð, Miðfell, Helludalur, Hellisskarð, Farið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins