Sigluneshlíðar

Frá Hreggstöðum í Haukabergsvaðli með ströndinni til Móbergs á Rauðasandi.

Leiðin er víða erfið, ófær hestum. Gæta verður sjávarfalla til að vera um háfjöru við Stálhlein. Erfið og brött leið er fyrir ofan hleinina. Þessa leið má aðeins fara með kunnugum.

Mikil útgerð var fyrrum á Siglunesi. Bjarni Þórðarson útvegsbóndi var forgöngumaður þilskipaútgerðar. Á Sjöundá voru framin morð vorið 1802. Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir bjuggu þá á hálfri jörðinni og á móti þeim Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir og höfðu þau flutzt þangað vorið 1801. Fljótlega eftir komu Jóns og Steinunnar byrjaði samdráttur hennar og Bjarna og mun samkomulag á heimilinu hafa verið afar slæmt um veturinn. 1. apríl hvarf Jón og var talið að hann hefði hrapað fyrir björg, en morðin komust upp, þegar lík Jóns rak á land á Bjarnanesi við Bæjarvaðal um sumarið.

Byrjum á vegi um Haukabergsvaðal á Barðaströnd við Hreggstaði. Förum eftir jeppaslóða suðsuðvestur ströndina að Siglunesi. Förum áfram vestur með ströndinni um Ytranes og yfir Siglá í Hellisvík. Þaðan vestur um Sigluneshlíðar undir Mávaskor. Þar er Fossárdalur með undirlendi á bökkunum, heitir þar Húsatún. Síðan förum við til vesturs undir Stálfjalli, framan við klettabríkurnar Kögur og Galtarbrík og síðan um Stálhlein. Þaðan vestur í Skor og síðan norðvestur og upp brattar skriður um Skorarhlíðar upp fyrir Söðul og um Hvammshlíð til Sjöundár. Þaðan norður að Melanesi á Rauðasandi og loks norður að Móbergi.

18,0 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Hreggstaðadalur, Rauðisandur, Strandaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jóhann Svavarsson

Siglunes

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Selvík á Siglufirði um Kálfsskarð að Siglunesi.

Þormóður rammi landnámsmaður byggði á Siglunesi. Þar var öldum saman kirkja og mikil útgerð fram á 20. öld. Byggðin fór í eyði 1990.

Förum frá Selvík. Þangað komumst við eftir kindagötum norður ströndina frá flugvellinum á Ráeyri. Frá Selvík suðsuðaustur Kálfsdal sunnan megin við vatnið í dalnum. Úr botni dalsins förum við suðaustur í Kálfsskarð í 420 metra hæð. Í skarðinu förum við stuttan spöl til suðurs og síðan austur í miðjar hlíðar Nesdals. Síðan norður allan dalinn vestan Reyðarár út að sjó. Þar beygjum við vestur að Siglunesi.

11,4 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Siglufjarðarskarð

Frá Siglufirði til Hrauns í Fljótum.

Siglufjarðarskarð var þjóðleiðin til Siglufjarðar, þangað til Strákagöng voru sprengd. Fyrir daga bílsins var leiðin talin hættuleg að vetrarlagi. Sjálfu skarðinu er lýst þannig í þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Gegnum dyrnar eru hér um fjórar hestlengdir, en vel klyfjafrítt á breidd.” Kvað svo rammt að slysum, að Þorleifur Skaftason prófastur í Múla var fenginn til að vígja skarðið. Það dugði ekki til. Svellbunkar voru í skarðinu og urðu menn stundum að skríða yfir þá. Árið 1940 var skarðið sprengt niður um fjórtán metra. Síðar var þar lagður bílvegur. Fagurt útsýni er úr skarðinu til beggja átta, Siglufjarðar og Skagafjarðar. Sunnan við Siglufjarðarskarð er Afglapaskarð, sem sumir fóru, ef þeir villtust af leið.

Förum frá Siglufirði gamla bílveginn upp dalinn og síðan brattar brekkur beint upp í Siglufjarðarskarð í 600 metra hæð. Vestan skarðsins förum við fyrst suður fjallshlíðina og síðan til vesturs utan í Breiðafjalli og áfram niður brekkurnar vestan fjallsins, þar sem við komum að Hrauni.

10,9 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Jeppafært

Nálægar leiðir: Dalaleið, Efrafjall, Sandskarð, Hólsskarð, Fiskihryggur, Hestskarð eystra.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Sigalda

Frá Hrauneyjarfossi um Sigöldu á Landmannaleið.

Náttúrukortið.is segir þetta um Sigöldu: “Virkjunin stendur inni á hálendinu nokkuð sunnan Þórislóns. Í stöðinni eru þrjár 50 MW vélasamstæður. Tungnaá er stífluð efst í gljúfrunum ofan við Sigöldu og myndast við það 14 km² miðlunarlón, Krókslón. Sigöldustífla er 925 m löng og 40 m há í gljúfrinu þar sem hún er hæst. Úr Krókslóni er vatninu veitt eftir 1 km löngum aðrennslisskurði gegnum ölduna að inntaki á vesturbrún Sigöldu. Frá því liggja þrýstivatnspípur að stöðvarhúsinu og frá stöðvarhúsinu er 550 m langur frárennslisskurður út í Hrauneyjafosslón.”

Förum frá fjallaskála við Hrauneyjafoss suður á Hrauneyjafell og síðan til austurs fyrir sunnan Hrauneyjalón að Sigöldu. Þaðan til suðurs að Bjallavaði á Tungnaá og áfram suður á Landmannaleið.

17,7 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hrauneyjar: N64 11.852 W19 17.026.
Bjallar vestur: N64 06.576 W19 06.284. Kofarúst

Nálægir ferlar: Jökulheimar, Dyngjur.
Nálægar leiðir: Skyggnisvatn, Bjallavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Selvogsgata

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Hafnarfirði til Vogsósa í Selvogi.

Gömul þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Um tíma líka notuð til brennisteinsflutninga frá Námuhvammi í Brennisteinsfjöllum. Námurnar eru um tvo kílómetra frá Tvívörðum á leiðinni hjá Litla-Kóngsfelli. Leiðin er stundum kennd við Kerlingarskarð, sem er vestasta skarðið af Grindarskörðum og það eina, sem er hestfært. Þegar upp skarðið kemur eru fleiri leiðir en sú, sem hér er lýst, niður að öðrum bæjum í Selvogi. Þegar þessi leið var farin úr Selvogi til Reykjavíkur, var það kallað að fara suður, þótt raunar sé leiðin í hánorður. Til baka var kallað að fara austur í Selvog. Leiðin er illa vörðuð, en er samt greinileg enn. Þótt hún sé orðin fáfarin af járnuðum hestum, sem eru færari en fólk í mjúkum skóm í að viðhalda fornum götum. Sem eru fornminjar.

Förum frá Kaldárseli beint í austur fyrir norðan Helgafell og Valahnjúka. Beygjum síðan til suðausturs um Þríhnjúkahraun og Tvíbollahraun og yfir þjóðveg 417. Eftir það beygjum við meira til suðurs og höldum framhjá Grindarskörðum í austri og síðan bratt upp í Kerlingarskarð, þar sem við náum 460 metra hæð. Úr skarðinu förum við fyrst suðaustur um Draugahlíðar og vestan við Stórkonugjá og Litla-Kóngsfell. Þaðan eru hliðarleiðir um Hlíðarveg og Stakkavíkurveg til Hlíðarvatns. En við förum suðsuðaustur um Grafning og síðan Stóra-Leirdal, vestan við Eystri-Hvalhnjúk. Næst um Hvalskarð austan Vestri-Hvalhnjúks og niður Litla-Leirdal og um Hlíðardal vestan Urðarfells niður Katlabrekkur í Katlahraun. Þar beygjum við til suðvesturs á sléttunni í beina stefnu á Vogsósa.

26,2 km
Rey kjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Hlíðavegur, Stakkavík, Helgafell, Undirhlíðar, Vatnsleysuströnd.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Selsvallafjall

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Grindavík til Vigdísarvalla.

Förum með vegi 427 austur á Skálasand og víkjum þar austur af veginum. Síðan til austurs sunnan við Borgarfjall og Langahrygg og norðaustur með fjallgarðinum að Selsvallafjalli. Skammt norðan Selsvalla er skarð í fjallið til suðausturs. Við förum um það til Vigdísarvalla.

25,2 km
Reykjavík-Reykjanes

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Selkotsvegur

Frá Skeggjastöðum undir Haukafjöllum um Stíflisdal og Selkot að Skógarhólum í Þingvallasveit.

Einn mest notaði vegur hestamanna nú á tímum. Fyrr á tímum lá leiðin sunnar, frá Miðdal og eftir Kóngsveginum austur Mosfellsheiði í Vilborgarkeldu.

Förum frá Skeggjastöðum austur með Leirvogsá sunnanverðri, framhjá Tröllafossi, yfir ána og í Stardal. Förum þar upp með gripahúsum og á slóð utan í Múla. Á kafla þarf að fara niður að gamla þjóðveginum um Mosfellsheiði og síðan upp með Bugðu áður en komið er að Litla-Sauðafelli. Förum norðan við fellið um Sauðafellsflóa, yfir þjóðveg 48 og áfram til austurs fyrir sunnan og austan Stíflisdalsvatn. Förum frá Stíflisdal austur Kjósarheiði um eyðibýlið Selkot, sem leiðin er kennd við. Austan við Selkot eru eyðibýlin Melkot og Hólkot. Áfram höldum við upp með Kjálká, um Kirkjuflöt og upp með Gljúfri. Síðan eftir Kárastaðaás, hjá Brúsastöðum og beina leið í Skógarhóla.

30,0 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Stardalsleið, Svínaskarð, Mosfellsheiði, Illaklif, Maríuhöfn, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Lyngdalsheiði.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Seljavatn

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Kaldrananesi í Bjarnarfirði um Urriðavötn til Hellu í Steingrímsfirði.

Förum frá Kaldrananesi fyrst vestur með þjóðvegi og síðan áfram til vesturs á brún Urriðaár, síðan til suðvesturs vestan Himbrimavatna að Urriðavatni. Við förum til suðurs milli Seljavatns að vestanverðu og Margrétarvatns að austanverðu og loks niður að þjóðvegi 646 við Hafnarhólma.

10,2 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þórisgata, Urriðavötn, Sandneshryggur, Pyttasundshæðir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Seljanesmúli

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Eyri í Ingólfsfirði fyrir Seljanesmúla i Ófeigsfjörð.

Á Eyri eru minjar um síldarsöltun og síldarverksmiðju, sem lögð var niður 1952.

Förum frá Eyri með ströndinni vestur í Ingólfsfjörð. Þaðan er leið norður Brekkuskarð til Ófeigsfjarðar. En við förum norðnorðaustur ströndina út fyrir Seljanesmúla. Síðan suðvestur inn í Ófeigsfjörð.

12,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Krossnesmúli, Brekkuskarð, Miðstrandir, Ófeigsfjarðarheiði, Tagl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Seljadalur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Fossá í Hvalfirði um Seljadal að Vindáshlíð í Kjós.

Þetta er eðlilegt framhald leiðarinnar úr Reykjavík um Svínaskarð. Var þess vegna mest farna leiðin yfir Reynivallaháls. Hinar eru Reiðhjalli, Gíslagata og Reynivallaháls, öðru nafni Kirkjustígur.

Förum frá Fossá suður og upp Klif, þar sem er þverleið vestur Reynivallaháls til Reynivalla. Förum ekki beint áfram upp Djúpadal, þar sem eru leiðir um Gíslagötu og Reiðhjalla, heldur áfram suður Seljadal, austan Sandfells. Síðan förum við suðvestur um Hrygg að austurhlið Sandfells og þaðan suður brekkur að Vindáshlíð.

5,8 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Maríuhöfn, Svínaskarð, Reiðhjalli, Gíslagata, Reynivallaháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Seldalur

Frá Króki í Grafningi á Ölkelduhálsleið.

Förum frá Króki suðvestur um Seldal á Selháls, þar sem liggur Ölkelduhálsleið suðvestur að Kolviðarhóli.

3,5 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Ölkelduháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Selárdalur

Frá vegi 85 í Vopnafirði við Selá að Þorvaldsstöðum í Selárdal.

Selárdalur eru allur í eyði utan Hróaldsstaðir yzt í dalnum, en hér voru mörg býli fyrr á öldum. Fremst voru Mælifell og Aðalból og utar í dalnum voru Þorvaldsstaðir og Hamar, Áslaugarstaðir og Leifsstaðir, Breiðamýri og Lýtingsstaðir.

Byrjum við þjóðveg 85 í Vopnafirði norðan við Selá. Förum eftir jeppavegi suðvestur með ánni að Þorvaldsstöðum í Selárdal.

18,5 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Hágangar, Dragakofi.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Selárdalsheiði

Frá Krossadal í Tálknafirði um Selárdalsheiði til Kirkjubóls í Arnarfirði.

Leiðin yfir háheiðina er vörðuð.

Í Krossárdal í Tálknafirði og í Selárdal bjó listamaðurinn Samúel Jónsson. Í Selárdal bjó líka Gísli Gíslason á Uppsölum, sem frægur varð af Stiklum Ómars Ragnarssonar. Selárdalur var löngum eitt bezta brauð landsins. Þar bjó sr. Páll Björnsson, sem átti konu, sem þjáðist af ofsóknaræði. Hann kom sex mönnum á bálið fyrir galdra. Förum frá Krossárdal austur Krossárdal og til norðurs upp á Selárdalsheiði í 470 metra hæð. Þar á háheiðinni er Biskupsvarða. Þaðan norður að Skarðsfossá og norðnorðaustur með ánni að austanverðu að Uppsölum í Selárdal. Síðan að Kirkjubóli.

10,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Tálknafjarðarvegur, Krókalaut.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sátudalur

Frá Breiðabólsstað á Skógarströnd um Sátuhryggi og Sátudal á Flatnaveg til Hnappadals.

Fyrrum mikið farinn af lausríðandi mönnum, en ekki til lestarferða. Oft var sótt frá Breiðabólstað á Skógarströnd í heyskap á brokmýrum í Sátudal.

Förum frá Breiðabólsstað til suðurs mili Háskerðings að vestan og Kláffells að austan, suður um Valshamarsá og Valshamarsárkvíslar, í 240 metra hæð. Síðan suður í Sátudal á Flatnaveg að Höfða eða Rauðamel.

13,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Flatnavegur Kvistahryggur.
Nálægar leiðir: Háskerðingur, Valshamar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Saurstaðaháls

Frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal að Svínhóli eða Kringlu í Miðdölum.

Seinasti hluti leiðarinnar er sá þýfðasti, sem ég hef lent í.

Förum frá Stóra-Vatnshorni austur með þjóðveginum að Eiríksstöðum og þar suður veg að Saurstöðum. Þar förum við suður á Saurstaðaháls og síðan vestsuðvestur hálsinn. Við förum mest í 220 metra hæð, síðan norðan við Svínhólsgil og komum niður að þjóðvegi 585 við Svínhól eða Kringlu.

8,2 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Prestagötur, Sauðafell.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson